Hemja verður ríkisvald og ríkisrekstur

Ríkisvald og ríkisrekstur hefur innbyggða sterka tilhneigingu til að þenjast út með hverju árinu.  Þetta er jafnvel meira áberandi hérlendis en annars staðar í lýðræðisríkjum Evrópu, enda eru ríkisumsvifin sem hlutfall af þjóðarbúskapinum með því mesta, sem þekkist.  Stærsti þáttur þessara umsvifa er s.k. heilbrigðisgeiri. Hann fæst við sjúklinga í misömurlegu ástandi. Sameining sjúkrahúsa undir hatt Landsspítalans - Háskólasjúkrahúss hefur væntanlega leitt til nokkurrar hagræðingar, en svona stór stofnun er eðlilega þung í vöfum. 

Hratt vaxandi kostnaður ríkissjóðs við rekstur heilbrigðisgeirans er erfitt viðfangsefni, þegar glímt er við að koma böndum á heildarútgjöldin til að stöðva hallarekstur ríkissjóðs, sem í þensluástandi efnahagslífsins er verðbólguhvetjandi. Heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra eiga þann kost í stöðunni að stokka upp verkaskiptinguna á milli ríkisspítalanna í landinu og einkageirans.  Það hefur komið í ljós, sem margir töldu sig hafa vissu fyrir, að spara má ríkissjóði háar fjárhæðir með því að fela einkageiranum mun fleiri verkefni.  Í verkaskiptingunni verður lausnin fundin. 

Sviðsljósgrein Morgunblaðsins 12. desember 2023 kastaði birtu yfir þetta málefni.  Hún hafði lýsandi fyrirsögn:

"Þjónusta einkaaðila mun hagkvæmari".

  Hún hófst þannig:

"Kostnaður við liðskiptaaðgerðir er töluvert minni hjá einkareknum heilbrigðisfyrirtækjum en hjá Landspítalanum.  Verðmunurinn er á bilinu kISK 700 - kISK 845.  Tæplega 2 k manns eru á biðlista eftir liðskiptaaðgerð."

Þessar upplýsingar benda eindregið til, að skynsamleg verkaskipting felist í því, að fela einkageiranum alfarið að annast liðskiptaaðgerðir á hné og mjöðm.  Beinn sparnaður ríkissjóðs við það eitt að bjóða út afgreiðslu á þessum biðlista, gæti numið mrdISK 1,6.  Mjór er mikils vísir, og kerfisbundið ætti að leita uppi fleiri svið í heilbrigðisgeiranum  til að spara ríkissjóði fé og stytta biðlista.  Líklega mætti fljótlega spara um 20 mrdISK/ár með skynsamlegri verkaskiptingu, og Háskólasjúkrahúsið gæti þá sinnt hlutverki sínu enn betur.  Setja má í útboðsskilmála kvöð um að taka við tilteknum fjölda læknanema á ári í starfsþjálfun. 

"Verðlagningin byggist á niðurstöðu útboðs, sem fram fór í marz [2023] og var undanfari samninga við þjónustuveitendur um framkvæmd liðskiptaaðgerða í ár.  Kostnaður við aðgerð er mismunandi [á] milli sjúklinga hjá öllum þjónustuveitendum.  Í samningum um liðskiptaaðgerðir er því samið um ákveðið meðaltalsverð, sem ætlað er að endurspegla kostnaðinn, sem liggur að baki hjá hverjum og einum." 

Þegar reynsla kemst á þetta fyrirkomulag og samningar stækka, mun einkageirinn finna leiðir til hagræðingar án þess að slá af gæðakröfum.  Við þetta mun sparnaður ríkissjóðs vaxa og arðsemi starfsemi verktakanna líka, og allt er það hið bezta mál.  Fyrrverandi heilbrigðisráðherra (SS), forstokkaður kommúnisti, talaði um arðsemi í þessari grein sem glæp gegn ríkinu.  Þar með opinberaði hún fullkomna vanþekkingu sína á fyrirtækjarekstri.  Það er mikið fé bundið í skurðstofum og allri hliðarstarfsemi við þær.  Til að einhver vilji fjárfesta í slíkri starfsemi, þarf hún að vera arðbær.  Með því að blása arðsemi í þessari grein út af borðinu sem sé hún af hinu vonda, reynir þessi ofstækismanneskja að kæfa þessa starfsemi í fæðingunni. 

"Í svari heilbrigðisráðherra segir, að verðmunurinn skýrist fyrst og fremst [óþarflega dönskulegt orðalag - BJo] af því, að Landspítali sé þriðja stigs faggreinasjúkrahús með uppsett afl til að standa undir fjölbeyttri þjónustu á nóttu sem degi allan ársins hring. Rekstrarkostnaður aðgerðarstofu, sem sinnir afmarkaðri þjónustu á dagvinnutíma á virkum dögum, sé því töluvert lægri en á sjúkrahúsi.  Almennt séð séu það því veikari sjúklingar með meiri sjúkdómsbyrði, sem veljist til aðgerða á Landspítala frekar en á aðgerðarstofu." 

Höfundur er ekki í neinum færum til að meta, hvort sú verkaskipting er réttmæt og sú hagkvæmasta, sem ráðherrann ýjar að, að sé við lýði.  Hins vegar er áreiðanlegt, að verði umsvif einkageirans á þessu sviði aukin, verður líklega grundvöllur fyrir tvískiptum vöktum 5-6 daga vikunnar.  Þar með a.m.k. tvöfaldast nýting fjárfestinganna á aðgerðarstofunni, sem eykur svigrúm til að bjóða ríkisvaldinu hagstæðari einingarverð.  Sérhæfing er önnur aðferð til verðlækkana, og henni verður auðveldlegar við komið með vaxandi aðgerðarfjölda. Heilbrigðisráðherra þarf að gæta að því, að í hinu opinbera kerfi er tregða og fyrirstaða gegn því að láta verkefni frá ríkisstofnun til einkageirans án nokkurs tillits til sparnaðar fyrir skattgreiðendur.  Ríkissjóður á sér fáa vini í ríkisgeiranum sjálfum.  Ráðherrar þessa málaflokks og annarra, sem eru á þessum buxunum, verða því að vera tilbúnir í hlutverk brimbrjótsins.  Því munu þeir ekki nenna, nema þeir séu hugsjónamenn réttrar gerðar.  

"Berglind Harpa [Svavarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins] segir tölurnar ekki koma sér á óvart. Hún telur einboðið að gera samninga við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki um veitingu annarrar heilbrigðisþjónustu.

"Ég er ánægð með þessi svör, því [að] þau sýna, hversu mikilvægt það er að gera samninga við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki", segir Berglind Harpa í samtali við Morgunblaðið.

Hún segir óásættanlegt, hversu langir biðlistar fyrir hina ýmsu heilbrigðisþjónustu hér á landi séu.  

"Það á ekki að líðast, að við séum með þúsundir manna á biðlistum árum saman, þegar við erum með öflug heilbrigðisfyrirtæki á einkamarkaði, sem hægt er að semja við, og vinna þannig á listunum", segir hún og bætir við:

"Ríkið eitt getur ekki staðið undir öflugri heilbrigðisþjónustu.  Við erum eina Norðurlandaþjóðin, sem þráast við að gera samninga við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki."

Fylgifiskur ríkiseinokunar eru biðraðir.  Tregðan við að virkja einkaframtskið á þessu sviði er líka á Alþingi.  Alræmd er framganga fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, sem í forstokkuðum sósíalisma sínum lét Sjúkratryggingar Íslands fremur fljúga með sjúklingana til Svíþjóðar í aðgerð á Karolínska eða öðru sambærilegu sjúkrahúsi en að semja við lækna einkarekinna innlendra heilbrigðisfyrirtækja.  Þessi hegðun ráðherrans er óskiljanleg, óafsakanleg og hefði átt að leiða til ákæru fyrir afglöp í starfi.                    

 


Bloggfærslur 27. desember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband