6.12.2023 | 13:31
Eftirlitsstofnanir leika lausum hala
Stjórnendur eftirlitsstofnana eru margir hverjir með ranghugmyndir um hlutverk stofnana sinna í samfélaginu. Þeir virðast ekki telja, að stofnunum sínum sé skylt að hlýða lögum frá Alþingi, nema þeim bjóði svo við að horfa sjálfum. Þeir láta starfsmenn sína fínkemba umsóknir með mikilli tímanotkun, en sáralitlum afrakstri, enda standa starfsmenn eftirlitsstofnananna höfundum umsóknanna iðulega talsvert að baki sem sérfræðingar í viðkomandi grein, sem er skiljanlegt. Þess vegna á rýnirinn að einbeita sér að aðalatriðum, innbyrðis samræmi og samræmi við lög og reglugerðir. Stofnanir mega ekki undir neinum kringumstæðum draga afgreiðsluna fram yfir lögboðinn frest. Yfirmaður stofnunarinnar á að ganga úr skugga um það í upphafi verks, að starfsmenn anni verkefninu innan setts tímaramma. Að öðrum kosti þarf að leigja inn sérfræðinga til aðstoðar við verkið. Með einum eða öðrum hætti verður stofnunin að afgreiða málið innan tímamarka, enda skal það vera fest í starfslýsingu forstjórans og hafa neikvæð áhrif á árslaun hans, ef út af bregður.
Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við íslenzka eftirlitsiðnaðinn, sem með óheyrilegu hangsi hefur haft veruleg áhrif á viðskiptaáætlanir fyrirtækisins. Tafir af völdum eftirlitsstofnana eru óheyrilegar, hafa bakað mikið tekjutap og aukakostnað, sem gera ætti stjórnir viðkomandi stofnana ábyrgar fyrir. Svona stór frávik, eins og Halldór lýsir í viðtalinu við Kristján Jónsson, má alls ekki líða. Losarabragurinn hjá ríkisvaldinu er til skammar.
Fyrirsögn fréttarinnar var:
"Starfsemin gæti hafist 2027 eða ´28"
Þar gat m.a. að líta þetta:
"Framkvæmdirnar eru mun seinna á ferðinni en forráðamenn fyrirtækisins höfðu vonazt eftir, og Halldór er óhress með, hversu lengi mál, eins og leyfismál, eru til meðferðar í stjórnsýslunni.
"Þetta hefur tekið miklu lengri tíma en nokkurn tíma var reiknað með. Þetta átti að vera tilbúið í Súðavík árið 2018 og hefði getað verið, ef opinberar stofnanir hefðu farið eftir laganna bókstaf. Þegar pressan var farin að aukast á okkur, þá fórum við í að stækka á Bíldudal, enda þurftum við að sinna mörkuðunum", segir Halldór, en ákveðið var að stækka verksmiðjuna á Bíldudal í Arnarfirði, þegar tafir urðu á uppbyggingu í Súðavík."
Hér er um að ræða eins áratugs seinkun á fremur litlu og alveg sjálfsögðu verkefni á Súðavík, þ.e.a.s. verksmiðju, sem nýtir hráefni úr Ísafjarðardjúpi og vinnur úr því fæðubótarefni til útflutnings.
"Frá 2007 hefur verið rekin verksmiðja á Bíldudal, og hún er nærri hámarksafköstum. Við höfum alltaf hugsað okkur, að verksmiðja í Súðavík gæti komið inn sem viðbót, en það tók svo rosalega langan tíma fyrir opinberar stofnanir að afgreiða leyfismál, umhverfismál og slíkt. Við urðum því að fara í stækkun á Bíldudal, eins og við gerðum. Hægði það á öllu varðandi uppbyggingu í Súðavík, en vonandi getum við byrjað að byggja þar eftir 2-3 ár. Eins og staðan er núna, reiknum við með að vera með verksmiðjur á báðum stöðum. Við munum fara rólega af stað í Súðavík, en auðvitað veltur þetta einnig á eftirspurninni", segir Halldór, en mesta samkeppnin kemur frá Brasilíu. Íslenska kalkþörungafélagið [ÍKF] er með starfsleyfi í Arnarfirði til 01.12.2033, en með leyfi í Ísafjarðardjúpi til 2051."
Með sleifarlagi sínu kollvörpuðu íslenzkar eftirlitsstofnanir viðskiptaáætlunum þessa félags (ÍKF). Það er fullkomlega óboðleg framkoma hins opinbera. Gallinn er sá, að engar refsingar virðast vera við þessum lögbrotum (að hundsa afgreiðslufresti). Þá ættu viðkomandi ráðuneyti að koma til skjalanna og að láta hina ábyrgu sæta ábyrgð. Hvað hafa stjórnir og forstjórar þessara stofnana gert til að kippa þessum málum í liðinn ? Að bera við manneklu er ekki gjaldgengt. Hverri stofnun ber að sníða sér stakk eftir vexti og halda sig innan laganna, þ.m.t. fjárlaganna. Annað verður að skrifa á reikning æðstu stjórnenda, en þeim virðist gæðastjórnun vera ærið framandi hugtak mörgum hverjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)