Miðstjórn ASÍ á villigötum

Það hefur verið sorglegt að fylgjast með svigurmælum forystumanna verkalýðs í garð ríkissáttasemjara. Viðvaningsháttur og hroki einkennir þá, þeim eru mannasiðir ekki tamir, og steininn hefur tekið úr, þegar þeir í einfeldni sinni hafa hætt sér út í lagatúlkanir um embætti ríkissáttasemjara.  Þar stendur ekki steinn yfir steini. Starfandi forseta ASÍ virðist skorta forystuhæfileika til að leiða ASÍ með ábyrgum og farsælum hætti.  Nú stendur miðstjórnin uppi berrössuð eftir innantómar yfirlýsingar sínar, eftir að sá maður, sem gerzt má vita um heimildir ríkissáttasemjara til að varpa fram miðlunartillögu í kjaradeilu, sem hann telur vera komna í hnút, hefur tjáð sig opinberlega.  

Karítas Ríkharðsdóttir átti stutt og hnitmiðað viðtal við Ásmund Stefánsson, hagfræðing og fyrrverandi forseta ASÍ og fyrrverandi ríkissáttasemjara, í Morgunblaðinu 30. janúar 2023 undir fyrirsögninni:

"Fordæmanleg ósannindi um lagaheimildir".

Ásmundur var algerlega afdráttarlaus í stuðningi sínum við núverandi ríkissáttasemjara.  Allt tal verkalýðsleiðtoga um, að hann hafi farið út fyrir valdheimildir sínar og þannig með réttu fyrirgert trausti, er eintómt blaður.  Viðkomandi verkalýðsleiðtoga hefur sett ofan, og það verður á brattann að sækja fyrir þá að endurheimta snefil af trausti eftir þetta illvíga frumhlaup. 

Viðtalið hófst þannig:

"Það er alveg ljóst, að sáttasemjari hefur þessa heimild til að leggja fram miðlunartillögu og þarf ekkert samþykki deiluaðila til þess. Það er staðreyndin.  Það er í raun fordæmanlegt, að stóru heildarsamtökin skuli fara fram með bein ósannindi í þessu efni", segir Ásmundur Stefánsson, hagfræðingur, fyrrverandi ríkissáttasetjari og fyrrverandi forseti ASÍ í samtali við Morgunblaðið og vísar til ályktunar miðstórnar ASÍ í kjölfar þess, að ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á fimmtudaginn í síðustu viku [26.01.2023]. 

Í ályktuninni segir um heimild sáttasemjara til að leggja fram miðlunartillögu, að "hún eigi ekki að leggjast fram án þess að hafa a.m.k. þegjandi samþykki beggja aðila."  Ásmundur segir þessa viðmiðun hvergi í lögum." 

Miðstjórn ASÍ undir starfandi forseta hefur sett verulega niður við þessa loðmullulegu  ályktun, sem hefur á sér yfirbragð tilvitnunar í lög, en er í rauninni skáldskapur miðstjórnarinnar.  Hvernig í ósköpunum dettur miðstjórninni í hug að ganga fram með vísvitandi ósannindum í marklausri tilraun sinni til að grafa undan ríkissáttasemjara í eldfimu ástandi ? Þessi framkoma er óábyrg, heimskuleg og fullkomlega óboðleg, og forsetinn  virðist þarna hafa dregið miðstjórnina á asnaeyrunum, eða hann er fullkomlega ófær um veita nokkra leiðsögn af viti. Sýnir þetta enn og aftur, hvers konar ormagryfja verkalýðsforystan er, þegar hún kemur saman.  Þar er ekki stunduð sannleiksleit, heldur ræður sýndarmennska, yfirboð og önnur óvönduð vinnubrögð ferðinni. 

Áfram hélt Ásmundur í viðtalinu við Karítas:

"Það hafa verið samþykktar ályktanir og gefnar út yfirlýsingar um það, að sáttasemjari hafi ekki lagalegt umboð til að koma með miðlunartillögu.  Ég verð í rauninni að lýsa undrun minni á því.  Staðreyndin er, að sáttasemjari hefur þessa heimild samkvæmt lögum, og það fer eftir hans mati á stöðu deilunnar, hvort hann telur rétt að leggja fram miðlunartillögu eða ekki.  Það er engin krafa um það, að verkfall hafi staðið í tiltekinn tíma.  Krafa um t.d. 3 til 4 vikna vinnustöðvun myndi ekki auðvelda sáttastarf.  Krafan er einfaldlega, að hann meti ástandið þannig, að það sé rétt að leggja fram miðlunartillögu.  Þó að menn gefi yfirlýsingar á yfirlýsingar ofan um, að það sé brot, þá haggar það ekki þeirri staðreynd, að fyrir þessu er ekki bara lagaheimild, heldur einnig sterk hefð.  Ósannindi hrekja ekki staðreyndir."

Eftir þessa uppákomu er ljóst, að núverandi miðstjórn ASÍ les lagatexta, eins og Skrattinn Biblíuna og fellir allt að eigin duttlungum.  Þetta er hroðalegt vanþroskamerki og alveg í anda formanns Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, sem lifir í eigin furðuheimi, þar sem viðtekin lögmál gilda ekki.  Þessi miðstjórn hefur þar af leiðandi glatað öllum trúverðugleika og er í raun og veru bara aðhlátursefni.  Þetta hafa menn upp úr viðvaningshætti, ofstæki og flausturslegum vinnubrögðum.  Var við öðru að búast ?

 

 


Bloggfærslur 5. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband