10.3.2023 | 17:52
Hátimbraðar vetnishugmyndir
Settar hafa verið fram draumórakenndar hugmyndir um vetnisframleiðslu á Íslandi, sem knúin verði raforku frá vindspöðum. Hætt er við, að þetta dæmi hafi ekki verið reiknað til enda. Hvers vegna ? "Græn" vetnisframleiðsla er dýr, og til að hún geti orðið samkeppnishæf, þarf hún stöðuga raforku allan sólarhringinn allt árið um kring. Að öðrum kosti nýtast dýr framleiðslutæki (spennar, afriðlar, þéttar spólur, viðnám) ekki sem skyldi.
Þess vegna er holur hljómur í því að reisa hér vetnisverksmiðju í tengslum við uppsetningu á vindrafalaþyrpingum, því að eins og kunnugt er gefa þær nýtingu á uppsettu afli innan við 40 % yfir árið. Til að slík vetnisframleiðsla standist, verður vetnisverksmiðjan að fá raforkuna langt undir kostnaði hennar frá vindrafölum. Það virðist fiskur falinn undir steini í þessari viðskiptahugmynd.
Sigtryggur Sigtryggsson birti baksviðsfrétt í Morgunblaðinu 28. janúar 2023 af miklum fyrirætlunum í þessa veru á Grundartanga. Þar er vatnsskortur, svo að sjór er notaður til kælingar iðnaðarferla, sem er neyðarbrauð vegna óhreininda og tæringar. Langir aðdrættir vatns (úr botni Hvalfjarðar) munu gera vetnisframleiðslu á Grundartanga enn dýrari en ella.
Áætluð aflþörf er meiri en nemur núverandi verksmiðjuaflþörf á Grundartanga. Það mun þurfa að stækka aðveitustöðina á Brennimel og fjölga þangað línum. Hvaðan ? Afriðlar vetnisverksmiðjunnar munu bæta við yfirsveiflurnar (harmonics), sem nú þegar eru á 220 kV teinum Brennimels, og þær gætu orðið óleyfilega miklar án dýrra síuvirkja fyrir yfirsveiflur.
Hvaðan á aflið að koma ? Það hvorki gengur né rekur hjá Landsvirkjun að fá framkvæmdaleyfi fyrir 95 MW Hvammsvirkjun. Þaðan verður sáralítið aflögu fyrir orkukræfan iðnað, því að almenna markaðinn hungrar í meira afl.
Baksviðsfrétt Sigtryggs bar fyrirsögnina:
"Vetnisframleiðsla krefst rýmis og orku".
Hún hófst þannig:
"Áformuð vetnisframleiðsla Qair Iceland ehf. á Grundartanga krefst töluverðs landrýmis, mikillar raforku og ferskvatns. Framleiðslan verður byggð upp [í þremur áföngum], og hver þeirra miðar við notkun á 280 MW [rafafls]. Fullbyggð getur framleiðslan notað um 840 MW. Qair vinnur að öflun orku, m.a. frá vindorkugörðum, og orkuöflun er einn af lykilþáttum í því, hvernig verkefnið þróast. Þetta kemur fram í matsáætlun, sem Qair hefur lagt fram til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats fyrir framleiðslu á vistvænum orkugjöfum á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit.
Til samanburðar má nefna, að stærsta fyrirtækið á Grundartanga, Norðurál, er með langtíma samninga við 3 raforkuframleiðendur upp á samtals 546,5 MW."
Það eru svo mikil orkutöp fólgin í rafgreiningu vatns, að alls er óvíst, að það verði talin heppileg ráðstöfun á takmörkuðum orkulindum Íslands. Stórfelldar þyrpingar vindknúinna rafala eru ekki sjálfgefnar á Íslandi. Að fórna mikilvægri ásýnd landsins fyrir raforkuvinnslu fyrir ferli með afar bágborna nýtni og afurðaverð, sem vart stendur undir kostnaði, orkar mjög tvímælis. Hvers vegna leitar Qair ekki annarra virkjanakosta en vinds ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)