13.3.2023 | 17:58
Fótalausar hugdettur um föngun og förgun CO2
Hræðsluáróðurinn um heimsendi handan við hornið af völdum hækkandi koltvíildisstyrks í andrúmslofti hefur fætt af sér ýmsar rándýrar viðskiptahugmyndir, sem haldið er lífi í með peningum úr alls konar styrktarsjóðum, m.a. frá Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Samt hafa heimsendaspámenn komið sér undan að svara því, hvað hafi valdið 4 hlýskeiðum á undan núverandi. Vitað er, að ástæðan var þá ekki hækkandi styrkur koltvíildis í andrúmslofti. Hvað stjórnaði þessum hlýskeiðum þá ? Það er líka vitað, að mælingar og spár IPCC um þróun hitastigs eru mun hærri en vísindamanna, t.d. prófessors dr John Christy, sem vinna gögn úr hitastigsmælingum gervihnatta í veðrahvolfinu frá um 1980.
Ein hugdettan er að sjúga CO2 úr verksmiðjureyk, en koltvíildisstyrkurinn þar er yfirleitt svo lágur, að þetta sog er rándýrt. Það er dýrara en nemur bindingu CO2 með skógrækt á Íslandi. Samt hafa nokkrar verksmiðjustjórnir áhuga á þessu, og er það vegna koltvíildisskattsins í Evrópu, sem fer hækkandi og nálgast 100 EUR/t CO2. Af þessum sökum hefur Rio Tinto samþykkt að gera tilraun með þetta í Straumsvík, og stendur hún yfir.
Út yfir allan þjófabálk tekur þó sú "viðskiptahugmynd" hjá "Coda Terminal" að flytja inn CO2 frá útlöndum, blanda það vatni úr Kaldánni, sem rennur út í Straumsvík, og dæla blöndunni síðan niður í bergið þar. Hvers vegna er þetta út í hött ? Það er vegna þess, að það er dýrt að einangra CO2 úr afsogi, og sá útlendingur, sem búinn er að því, getur selt það sem hráefni í rafeldsneyti, hvar sem er. Það mun hann kjósa fremur en að borga undir það flutning til Íslands, dýra meðhöndlun þar og niðurdælingu.
Í Bændablaðinu 12. janúar 2023 birtist frétt og mynd af 4 manneskjum að undirrita viljayfirlýsingu í Ráðhúsi Hafnarfjarðar. Þetta voru Rannveig Rist, Rósa Guðbjartsdóttir, Grettir Haraldsson og Edda Aradóttir. Höfundur þessa vefpistils mun éta hattinn sinn, ef þessi viljayfirlýsing þróast áfram og raungerist í stórfellda niðurdælingu á innfluttu koltvíildi með ágóða. Fyrirsögn fréttarinnar var þessi:
"Byggja kolefnismóttöku- og förgunarstöð í Straumsvík".
Hún hófst þannig:
"Carbfix, Coda Terminal, Hafnarfjarðarbær og Rio Tinto á Íslandi undirrituðu fyrir skömmu viljayfirlýsingu um uppbyggingu kolefnismóttöku- og förgunarstöðvar í Straumsvík undir heitinu Coda Terminal.
Edda Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix [á Hellisheiði - innsk. BJo], segir, að með verkefninu sé lagður grunnur að nýrri atvinnugrein hérlendis, sem byggir á íslenzku hugviti, sem geti með tímanum orðið að útflutningsgrein.
"Ráðgert er, að fyrsti áfangi stöðvarinnar taki til starfa 2026 og að hún nái fullum afköstum árið 2031. Fullbyggð mun stöðin geta tekið á móti og bundið um 3 Mt/ár af CO2, sem samsvarar meira en helmingi af árlegri losun Íslands", segir Edda."
Hér eru hátimbraðar hugmyndir á ferð, sem hætt er við, að aldrei verði barn í brók. Áætlaður kostnaður er um mrdISK 50, og árið 2022 mun þessu verkefni hafa verið veittur styrkur úr Nýsköpunarsjóði Evrópu upp á um mrdISK 16. Fyrir þetta fé verður líklega borað fyrir vatni við Straumsvík, því að verkefnið krefst mjög mikillar vatnstöku, og reist móttökustöð fyrir gas við höfnina. Hér er rennt blint í sjóinn með arðsama nýtingu þessara fjárfestinga, því að varla fæst nokkur til að gera lagalega skuldbindandi samninga um afhendingu CO2 til langs tíma.
Nú hefur Evrópusambandið (ESB) samþykkt að hvetja aðildarlöndin með styrkveitingum til að tífalda framleiðslugetu sína á rafgreiningarbúnaði til vetnisframleiðslu úr vatni. Innan 3 ára ætlar ESB að tífalda vetnisframleiðslu innan sinna vébanda, og verður hún þá 10 kt/ár. Til hvers á að nota þetta vetni ? Aðallega til að framleiða rafeldsneyti, og þar er CO2 hráefni. Halda menn, að Coda Terminal geti keppt um hlutdeild í aukinni spurn eftir CO2 ? Fátt styður það.
Nú styttist í, að ESB dragi úr úthlutun ókeypis koltvíildiskvóta til evrópskra flugfélaga. Ætlunin er að draga úr spurn eftir flugferðum innan Evrópu, með því að flugmiðinn verði svo dýr, að ferðalangar velji fremur járnbrautarlestir sem samgöngumáta. Þetta mun bitna hart á flugfarþegum til og frá Íslandi, og verður ferðaþjónustan vafalaust fyrir verulegri fækkun ferðamanna, sem setur alvarlegt strik í íslenzkan þjóðarbúskap og afkomu fyrirtækja, sem gera út á ferðamenn. Á sama tíma mun koltvíildiskvótinn á markaði hækka í verði vegna aukinnar eftirspurnar.
Coda Terminal getur ekki orðið til bjargar í þessu máli, því að þá þyrftu flugfélögin að sjúga hundruði þúsunda tonna á ári af CO2 úr andrúmsloftinu, og það er hvorki tæknilega né kostnaðarlega fýsilegt. Fýsilegra væri að gera samninga við skógarbændur um stóraukna bindingu með skógrækt.
Hér er um svo mikið hagsmunamál að ræða fyrir Ísland, að utanríkisráðherra verður nú þegar að reka niður hælana á vettvangi EFTA, þar sem boð verði látið út ganga um það, að í Sameiginlegu EES-nefndinni muni Ísland leita eftir undanþágu, en ella hafna innleiðingu þessarar ESB-löggjafar (um skyldu flugfélaga til að kaupa koltvíildiskvóta) í íslenzkan rétt. Það er tímabært að ræða þetta mál í utanríkismálanefnd Alþingis og móta afstöðu þar. Þar munu "the usual suspects" taka grunnhyggna afstöðu gegn hagsmunum eyríkisins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)