16.3.2023 | 11:26
Skýr skilaboð Landsvirkjunar
Í forstjóratíð Harðar Arnarsonar hjá Landsvirkjun hafa sumir stjórnendur þar á bæ, að honum meðtöldum, tjáð sig með hætti, sem ýmsum hefur ekki þótt samræmast hagsmunum eigenda fyrirtækisins, hvað sem gilda kann um sjónarmið stjórnarmanna fyrirtækisins. Þetta á t.d. við um aflsæstrengstengingu á milli erlendra raforkukerfa og þess íslenzka og vindknúna rafala.
Nú kveður við nýjan tón, því að Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun, skrifaði vel jarðtengda og fræðandi grein, sem birtist í Morgunblaðinu 17.02.2023 undir fyrirsögninni:
"Raforkuvinnsla á láði eða legi".
Undir millifyrirsögninni "Eðli vindorku" var gerð grein fyrir því, að með vindafli yrði að fylgja vatnsafl í raforkukerfinu, nema notandinn gæti sætt sig við sveiflur vindaflsins, og sá notandi er vart fyrir hendi á Íslandi. Af þessum ástæðum er út í hött að leyfa uppsetningu vindspaðaþyrpinga og tengingu þannig knúinna rafala við íslenzka raforkukerfið:
"Til að geta afhent raforku inn á flutningskerfið, sem unnin er með vindorku, þarf að vera [fyrir hendi] jöfnunarafl. Það er nauðsynlegt til að mæta sveiflum í raforkuvinnslu með vindorku. M.ö.o.: þegar vindar blása ekki, þarf að vera hægt að vega það upp með jöfnunarafli frá vinnslukerfinu. Í íslenzka raforkukerfinu getur slíkt afl einungis komið frá vatnsaflsstöðvum, enda er landið ótengt öðrum löndum. Þá er kerfið ekki hannað til að takast á við miklar aflsveiflur."
"Also sprach Zarathustra." Einar Mathiesen veit gjörla, að jarðgufuvirkjanir Landsvirkjunar og annarra eru ekki í færum til að taka upp aflsveiflur í kerfinu vegna innbyggðrar tregðu. Vatnsorkuverin geta þetta upp að vissu marki og sjá um reglunina í kerfinu núna. Það sér hver maður í hendi sér, að með öllu er glórulaust að reisa vatnsorkuver til að standa tilbúin að yfirtaka álagið, þegar vind lægir undir hámarks framleiðslumark vindspaðavers. Framleiðslukostnaður í vatnsorkuveri er lægri en í vindorkuveri, en aðeins ef nýtingartími vatnsorkuversins er samkvæmt hönnunarforsendum þess. Erlendis eru gasknúin raforkuver reist til að gegna þessu jöfnunarhlutverki, en hér kemur það ekki til greina. Þessi innflutta hugmyndafræði um vindorkuver fyrir íslenzka raforkukerfið er vanburða.
"Því má halda fram, að raforkuvinnsla með vindorku sé ekki fullbúin vara, nema endanotandi geti tekið á sig sveiflur í notkun, sem fylgir breytilegum orkugjafa, sem vindorka er; þá þarf ekki afljöfnun. Í umræðu um vindorku er iðulega skautað framhjá þessari staðreynd. Landsvirkjun er eini rekstraraðilinn á markaðinum, sem hefur yfir að ráða jöfnunarafli. Það afl er afar takmarkað, bæði til skemmri og lengri tíma, eins og fram kom á opnum fundi Landsvirkjunar 2. febrúar [2023] undir yfirskriftinni: "Hvað gerist, þegar vindinn lægir ?", en um hann er fjallað á vef Landsvirkjunar."
Hér staðfestir framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma, að vindorkan sé ein og sér lítils virði, nema fyrir þá, sem ekki verða fyrir umtalsverðu tjóni, þótt framboðið sveiflist með vindafari. Þeir eru sárafáir, ef nokkrir slíkir í landinu. Þegar þetta er lagt saman við þá staðreynd, að burðarsúlur og vindspaðar hafa skaðleg áhrif á miklu stærra svæði m.v. orkuvinnslugetu en hefðbundnar íslenzkar virkjanir, hlýtur rökrétt ályktun yfirvaalda og annarra að verða sú, að ekkert vit sé í að leyfa þessi mannvirki í íslenzkri náttúru. Yfirvöld ættu að lágmarki að gera að skilyrði, að orkusölusamningar hafi verið gerðir um viðskipti með alla orkuvinnslugetu mannvirkjanna, þar sem kaupandi sættir við að sæta álagsbreytingum í samræmi við framboð orku frá viðkomandi vindorkuveri.
Í lokakafla greinarinnar lýsir framkvæmdastjórinn yfir stuðningi við hina klassísku virkjanastefnu Landsvirkjunar. Það er ánægjuleg tilbreyting við stefin, sem kveðin hafa verið í háhýsinu á Háaleitisbrautinni undanfarin 13 ár. Það hefur nú að mestu verið rýmt vegna myglu, svo að loftið þar stendur vonandi til bóta. Millifyrirsögn lokakaflans var: "Ekki sama, hvað það kostar":
"Að velja hagkvæma fjárfestingarkosti til raforkuvinnslu er lykilatriði, þegar kemur að samkeppnishæfni. Íslendingar hafa byggt upp samkeppnisforskot á alþjóðavísu með vali á hagkvæmum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum - og nú mögulega í einhverjum mæli með vindorkuverum á landi. [Einnig báru Íslendingar gæfu til að gera raforkusamninga um sölu á megninu af orku þessara virkjana og náðu þannig fljótt fullnýtingu fjárfestinganna - innsk. BJo.] Þessu má ekki glutra niður með því að ráðast í dýrar og óhagkvæmar virkjanir [les vindorkuver - innsk. BJo], sem kosta margfalt á við meðalkostnaðarverð raforku á Íslandi.
Í endurminningum fyrsta stjórnarformanns Landsvirkjunar og eins af brautryðjendum í orkumálum þjóðarinnar, Jóhannesar Nordal, Lifað með öldinni, kemur fram, að lykillinn að farsælli uppbyggingu orkuvinnslu sé ekki, að áformin séu sem stærst, heldur að finna hagkvæma virkjunarkosti, til heilla fyrir land og þjóð. Óhætt er að taka undir það."
Vart er hægt að lýsa yfir meiri hollustu við klassíska stefnu Landsvirkjunar en að vitna í æviminningar dr Jóhannesar Nordal og lýsa yfir stuðningi við það, sem þar kemur fram. Ævintýramennska á sviði sölu raforku um sæstreng til útlanda og að útbía náttúru landsins með vindorkurafölum fellur ekki að klassískri virkjanastefnu ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)