22.3.2023 | 16:20
Tregða við útgáfu framkvæmdaleyfis í Neðri-Þjórsá
Engum blöðum er um það að fletta, að á framkvæmdatíma virkjunar njóta viðkomandi sveitarfélög góðs af mjög auknum umsvifum. Verktakar á heimavelli verða yfirleitt mjög uppteknir við fjölbreytilegar hliðar framkvæmdanna, og íbúarnir, ekki sízt ungir, fá uppgripavinnu.
Þetta er auðvitað ekki nóg. Sveitarfélögin mega ekki bera skarðan hlut frá borði á rekstrartíma virkjunarinnar, en samkvæmt frétt Sigurðar Boga Sævarssonar í Morgunblaðinu 20.02.2023, sem reist er á viðtali við Harald Þór Jónsson, oddvita og sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps, er sú einmitt raunin í sveitarfélagi hans. Það sé vegna þess, að skerðingar framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna teknanna af virkjunum séu hærri en nemur þessum tekjum.
Fyrir vikið er komin upp tregða í sveitarstjórninni við afgreiðslu framkvæmdaleyfis fyrir Hvammsvirkjun. Þetta er alvarlegt mál fyrir landsmenn, sem bráðvantar meira af ódýrri og áreiðanlegri sjálfbærri raforku. Að einhverju leyti verður að skrifa þessa stífni, sem upp er komin, á reikning Landsvirkjunar, og kemur þá upp í hugann dómsmál á milli Landsvirkjunar og Fljótsdalshrepps um gjaldtöku af Fljótsdalsvirkjun, sem hreppurinn vann. Af fréttinni að dæma virðast afar takmarkaðar viðræður hafa farið fram á milli sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjunar um óánægjuefni sveitarstjórnarinnar. Í ljósi þess, hversu mikið liggur á þessari virkjun, er það áfellisdómur yfir Landsvirkjun og reyndar ríkisstjórninni að hafa ekki nýtt langan meðgöngutíma Orkustofnunar með virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar til að móta stefnu til framtíðar um tekjustreymi af virkjunum til sveitarfélagsins. Það mundi þá verða fyrirmynd annars staðar í landinu.
Í árdaga virkjana á Þjórsár-Tugnaársvæðinu þurfti að leita allra leiða til að halda framleiðslukostnaði lágum. Nú er öldin önnur, því að þessar virkjanir eru að miklu leyti afskrifaðar í bókhaldi Landsvirkjunar, þótt þær haldi áfram að mala gull, jafnvel í meira mæli en nokkru sinni áður. Á þessum grundvelli er óhætt að semja um gjöld af virkjunum, sem séu meira í samræmi við gjöld af mannvirkjum annars konar starfsemi en virkjana en nú er. Það mun ekki þurfa að hafa áhrif á verðlagningu raforku frá Landsvirkjun, heldur mun draga aðeins úr gróða ríkisfyrirtækisins og arðgreiðslum þess til ríkissjóðs. Ánægja heimamanna með þetta nábýli er meira virði en nokkrar MISK í ríkissjóð.
Téðri frétt Morgunblaðsins, sem bar yfirskriftina:
"Setja fyrirvara við fleiri virkjanir",
lauk þannig:
""Orkuvinnsla í sveitarfélaginu þjónar ekki hagsmunum þess í óbreyttri mynd", segir Haraldur Þór og minnir í þessu sambandi á áform um orkuskipti á Íslandi. Vegna þeirra þurfi að reisa margar nýjar virkjanir á næstu árum, m.a. í nærumhverfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Fá samtöl hafi þó verið [á] milli fulltrúa ríkis og sveitarfélaga um þau mál. Nú þurfi því að tryggja með lögum, að til áhrifasvæðis virkjana skili sér efnahagslegur ávinningur af orkuvinnslu, sem sé brýnt byggðamál. Sveitarfélögin þurfi að staldra við í skipulagsmálum, á meðan leikreglunum sé breytt og efnahagslegur ávinningur nærumhverfisins tryggður. Slíkt sé forsenda orkuskipta og hagvaxtar."
Ríkisstjórnin virðist hafa sofið á verðinum í þessu máli og ekki áttað sig á, að frumkvæðis um lagasetningu er þörf af hennar hálfu til að greiða fyrir framkvæmdaleyfum nýrra virkjana. Sveitastjórnarráðherra og orkuráðherra virðast þurfa að koma þessu máli í gæfulegri farveg en nú stefnir í með því að taka upp þráðinn við samtök sveitarfélaganna. Það gengur ekki að láta þetta dankast, því að á meðan líður tíminn og gangsetning nýrra vatnsaflsvirkjana og jarðgufuvirkjana verður hættulega langt inni í framtíðinni fyrir orkuöryggi landsmanna. Andvaraleysi stjórnvalda verður landsmönnum dýrt spaug, því að afl- og orkuskerðingar blasa við næstu vetur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)