Langvinnt þrætuepli

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, skrifaði ágæta grein um sögu skipulags fiskveiða við Ísland frá 1983.  Niðurstaða hans var skýr: það verður aldrei sátt í landinu um stjórn fiskveiða.  Þetta er sennilega alveg rétt hjá honum.  Það, sem stjórnvöld ættu að hafa að leiðarljósi við framlagningu frumvarpa til Alþingis um fiskveiðistjórnun hér eftir sem hingað til frá 1983, er að að hámarka afrakstur veiðanna til langs tíma. Slíkt eflir þjóðarhag mest. 

Guðmundur Kristjánsson orðar þetta þannig í lok greinar sinnar:

"Þess vegna segi ég, að það verður aldrei sátt um lög um stjórn fiskveiða. Ef núna koma ný lög um stjórn fiskveiða, þar sem þessi veiðiréttur verður færður ríkissjóði, þá verða þeir, sem hafa keypt þennan rétt, aldrei sáttir.  Ef þessu verður ekki breytt, verða þeir, sem vilja, að ríkissjóður eigi þennan rétt, aldrei sáttir. Þetta er staðan í dag.  Þess vegna segi ég: Það eina, sem hægt er að gera í dag, er, að lög um stjórn fiskveiða endurspegli arðsemi og skynsemi fyrir íslenzka þjóð.  Deilumálið er skipting arðseminnar."

Þetta er vafalaust rétt hjá Guðmundi Kristjánssyni. Seint mun ríkja almenn ánægja með íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið, en það er þó ómótmælanlegt, að það er umhverfisvænsta og skilvirkasta fyrirkomulag fiskveiða á jörðunni. Þess vegna væri guðsþakkarvert, að stjórnmálamenn og aðrir áhugamenn um þrætubókarlist hættu illa grundaðri heilaleikfimi sinni um þetta mál, enda einkennist umræðan um sjávarútveg of mikið af ofstækisfullum fullyrðingum, reistum á vanþekkingu á greininni og þar með því, hvernig hún getur bezt hámarkað verðmætasköpun sína fyrir íslenzka þjóðarbúið. 

Útbólgnir tilfinningaþrælar hafa lengi verið með mikinn belging út af eignfærslu útgerðanna á veiðiheimildum sínum.  Hafa þeir þá látið í það skína, að útgerðirnar hafi tekið það upp hjá sjálfum sér með einu pennastriki að sölsa undir sig eignir þjóðarinnar.  Það er þó öðru nær, því að allar 3 greinar ríkisvaldsins hafa þvingað þetta bókhaldsfyrirkomulag fram, eins og Guðmundur Kristjánsson rakti skilmerkilega í grein sinni:

Á þessum árum, 1990-1993, var allur kvóti/veiðiréttur gjaldfærður, hvort sem það var aflamark eða aflahlutdeild.  En þá kom ríkisskattstjóri í nafni ríkisins [framkvæmdavaldsins - innsk. BJo] og sagði, að þetta væri eign, en ekki kostnaður, og vildi banna útgerðinni að bókfæra þennan kvóta (veiðirétt) sem kostnað.  Útgerðin sagði aftur á móti, að þetta væri ekki eign, þar sem  þetta væri veiðiréttur að ákveðnu magni fisks í íslenzkri fiskveiðilögsögu og ekki eign í skilningi íslenzkra laga.  Ríkisskattstjóri og fjármálaráðherra á þessum tíma  stefndu útgerðinni fyrir dómstóla, og var  niðurstaðan sú í Hæstarétti árið 1993, að útgerðinni væri skylt að færa veiðiréttinn (aflahlutdeild/kvótann) sem eign í efnahagsreikningi.  Síðan hnykkti Alþingi Íslendinga endanlega á þessu ákvæði árið 1997, þar sem það var bannað að afskrifa veiðirétt í ársreikningum íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja. Í dag er þessi veiðiréttur eignfærður í öllum íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum og er þeirra helzta eign." 

Þessi eignfærsluákvörðun íslenzka ríkisvaldsins hefur margvísleg áhrif og hefur af upphlaupsmönnum verið notuð til tilefnislausra árása á sjávarútveginn, sem væri að sölsa undir sig eign þjóðarinnar. Það er öðru nær.  Hins vegar hefur þessi ákvörðun framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds, óneitanlega styrkt aflahlutdeildarkerfið í sessi, því að aflahlutdeildirnar njóta nú verndar eignarréttarákvæða Stjórnarskrárinnar.

Það eru ekki réttarfarsleg skilyrði fyrir hendi til að raungera illa ígrundaðar hugmyndir um fyrningu eða uppboð aflaheimilda.  Það er hið bezta mál, því að þessar hugmyndir eru rekstrarlegt óráð og hafa gefizt hörmulega, þar sem eitthvað í líkingu við þær hefur verið framkvæmt erlendis.

Í heilaleikfimisæfingum sínum hafa innantómir þrætubókarmenn lengi fullyrt, að veiðigjöld á útgerðirnar væru allt of lág.  Þeir eru þó í lausu lofti með stóryrði um þetta, því að þeim hefur láðst að sýna fram á auðlindarentu í sjávarútvegi, en hún var í upphafi lögð fram sem hin fræðilega forsenda slíkrar gjaldheimtu. Þá verður auðvitað líka að hafa í huga, að fyrirtækin, sem íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki keppa við á erlendum mörkuðum eru ekki aðeins yfirleitt töluvert stærri en hin íslenzku, heldur niðurgreidd af yfirvöldum viðkomandi landa. Þess vegna ber að gæta mikillar hófsemi við sérsköttun á íslenzkan sjávarútveg.    

 

 

 

 

 

   

 


Bloggfærslur 25. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband