Mikið skraf - lítið gert í orkumálum

Nýlega bilaði eldingavari í kerfi Landsnets, sem tengir Suðurnesin við landskerfið.  Þetta er sjaldgæf bilun, en afleiðingarnar urðu nokkurra klukkustunda straumleysi á Suðurnesjum, á meðan bilaði eldingavarinn var fjarlægður og annar settur í staðinn.  Hvernig má það vera, að jarðgufuvirkjanir HS Orku skyldu ekkert nýtast, á meðan Suðurnesjalína 1 var óvirk ?

Ekki er víst, að það sé á almennu vitorði, að jarðgufuvirkjanirnar ráða ekki við reglun álagsins og geta þess vegna ekki starfað án tengingar við landskerfið. Tregða í reglun er akkilesarhæll jarðgufuvirkjana.  Bilunin brá birtu yfir veikleikana, sem Suðurnesjamenn búa við núna, og þann mikla ábyrgðarhluta, sem fylgir því að standa gegn lagningu Suðurnesjalínu 2. Það er með ólíkindum að láta orkuöryggi Suðurnesjamanna með allri þeirri mikilvægu starfsemi, sem þar fer fram, hanga á horriminni vegna meintrar sjónmengunar af loftlínu.  Geta menn ekki séð fegurðina í nauðsynlegu mannvirki fyrir öryggi mannlífs á Suðurnesjum ? 

Þann 10. febrúar 2023 sagði Morgunblaðið frá Viðskiptaþingi á Nordica daginn áður.  Þar kom fram enn einu sinni, að lögfest loftslagsmarkmið Íslands eru í uppnámi, og eru að verða einhvers konar níðstöng, sem beinist að óraunhæfum stjórnmálamönnum, sem settu hrein montmarkmið um 55 % minnkun losunar koltvíildis 2030 m.v. 2005 og kolefnishlutleysi 2040, vilja verða á undan öðrum þjóðum (pólitíkusum) að þessu leyti, en hirða ekki um forsenduna, sem er að afla endurnýjanlegrar orku, sem komið geti í stað jarðefnaeldsneytis. 

Á þessu viðskiptaþingi var smjaðrað fyrir vindorkunni, jafnvel á hafi úti, sem er fráleitt verkefni hér við land, og harmaðar hömlur á erlendum fjárfestingum á þessu sviði.  Hið síðar nefnda er undarlegt m.v., að Ísland er á Innri markaði Evrópusambandsins og EFTA, og hér hefur verið algerlega ótímabær ásókn fyrirtækja þaðan í framkvæmda- og rekstrarleyfi fyrir vindknúna rafala, þótt lagasetningu um þessi mannvirki skorti í landinu. 

Vindorkan kemur óorði á orkuvinnslu í landinu vegna þess, hversu þurftarfrek hún er á land, hversu ágeng,  áberandi og hávaðasöm hún er, mengandi og varasöm  fuglalífi.  Slitrótt raforkuvinnsla er lítils virði.  Eins og jarðgufuvirkjanir þurfa vindrafalaþyrpingar vatnsorkuver með sér til að sjá um reglunina, en jarðgufuvirkjanir hafa þann mikla kost að vera áreiðanlegar í rekstri fyrir grunnálag, en vindspaðaþyrpingar geta sveiflazt fyrirvaralítið úr fullum afköstum í engin afköst. Við þurfum ekki á þessu fyrirbrigði að halda við orkuöflun hér.  Við þurfum að virkja meira vatnsafl og meiri jarðgufu, en þar virðist hnífurinn standa í kúnni. Hvers vegna ?

Forsætisráðherrann og stjórnmálaflokkurinn, sem hún veitir formennsku, eru síður en svo hjálpleg, því að þar er fremur reynt að setja skít í tannhjólin, ef kostur er, eins og ávarp formannsins á téðu Viðskiptaþingi bar með sér:

 "Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði þingið.  Hún sagði orkunýtingu vera eitt stærsta pólitíska ágreiningsefnið á þessari öld, sem jafnvel meiri deila er um en fiskveiðistjórnunarkerfið.  Einnig varpaði hún fram þeirri spurningu, hvaða verðmæti fælust í ósnortinni náttúrunni, og þótt ekki væri hægt að meta fegurð til fjár, þá þyrfti að meta hana til einhvers.  Skapa þurfi sátt um forgangsröðun orku, sem notuð er í orkuskipti.

Einnig kom fram í ávarpi ráðherrans, að orkuskiptin væru ekki eina leiðin í átt að markmiðum um kolefnishlutleysi, heldur eru einnig tækifæri falin í minni sóun og betri nýtingu orku.  Nefndi hún matarsóun sérstaklega í því samhengi."  

Svona þokulúður er hluti af vandamálinu, sem við er að etja, stöðnun á sviði framkvæmda á orkusviðinu.  Ráðherrann þokuleggur sviðið með óljósu og merkingarlitlu tali og dregur þannig dul á, að flokkur hennar ber kápuna á báðum öxlum.  Hann hefur forgöngu um fögur fyrirheit og reyndar algerlega óraunhæf markmið í loftslagsmálum á landsvísu, en á sama tíma þvælist hann fyrir hefðbundnum virkjunum og línulögnum. 

Nú er raforkukerfið þanið til hins ýtrasta vegna framkvæmdaleysis á orkusviði, og slíkt hefur í för með sér, að raforkutöp eru í hámarki líka og stærðargráðu meiri en af matarsóuninni, sem forsætisráðherra er þó hugleikin og er síðlítil.  Ráðið við því er að virkja meira af vatnsföllum og jarðgufu og reisa fleiri flutningslínur. Það liggur þjóðarhagur við að gera þetta, þótt ekki séu allir á einu máli um það. Hlutverk alvöru stjórnmálamanna er að gera það, sem gera þarf, en ekki að horfa í gaupnir sér, þegar gagnrýni heyrist. Jafnstraumsjarðstrengur yfir Sprengisand mun hjálpa mikið til við að stýra raforkukerfi landsins í átt til stöðugleika og lágmörkunar orkutapa. Hann verður vonandi að veruleika á þessum áratugi.   

Um verðmæti hinna ósnortnu víðerna, sem ráðherrann augljóslega telur vera hátt upp í þónokkur, en óskilgreind, má segja, að þau muni fyrst renna upp fyrir mönnum, þegar þeim hefur verið spillt.  Engum blöðum er um það að fletta, að vindrafalaþyrpingar eru stórtækastar í þessum efnum, og þess vegna væri hægt að nálgast "sátt" um orkumálin með því einfaldlega að leggja áform um þessa gerð orkuvera á hilluna, enda eru mótvægisaðgerðir við yfir 200 m há ferlíki óhugsandi, um leið og hefðbundnum íslenzkum virkjanategundum er veittur framgangur, enda falli þær vel að landinu með beitingu nútíma tækni.  Hvers vegna er framvindan jafnhæg og raun ber vitni (kyrrstaða), þegar Rammaáætlun 3 hefur verið samþykkt ?  Það virðist vera mikil deyfð yfir orkufyrirtækjunum.  Hvers vegna ?  Markaðinn hungrar í meiri raforku ? 

"Sæmundur Sæmundsson, formaður sjálfbærnihóps Viðskiptaráðs, kynnti skýrslu þingsins.  Lagði hann áherzlu á í sinni ræðu, að mikilvægt væri að velja virkjanakosti, þó að það væri erfitt val.  [Hvers vegna er það erfitt val - hættið að gæla við vindinn ?-innsk. BJo.]  Hins vegar væri seinagangur í kerfinu, og nauðsynlegt væri að velja, hvar ætti að taka af skarið og virkja.  Nefndi hann máli sínu til stuðnings, að rafmagnsskortur [á] síðustu loðnuvertíð hefði orðið til þess, að allur ávinningur frá notkun rafmagnsbíla frá upphafi hefði þurrkazt út.  Svifasein stjórnsýsla og kærumál stoppi ferli og tefji framkvæmdir, svo [að] árum skipti.  Regluverkið sé sömuleiðis þungt, og regluverk skorti um vindorkuframkvæmdir.  Úr þessu þurfi að bæta."

Það er mikið sjálfskaparvíti, að afturhaldsöfl virðast hafa náð að leggja dauða hönd á orkuframkvæmdir.  Það er stjórnleysi, að ráðherrar láti stofnanir komast upp með að hundsa lögboðna fresti og að kærendur (með veikan málstað) geti nánast lamað framkvæmdaviljann.  Ströng skilyrði þurfa að vera um það, hverjir geta verið lögformlegir hagsmunaaðilar að kærumáli, og ein kæra á einstaka ákvörðun sé hámark, og tími frá ákvörðun að afgreiðslu kæru verði að hámarki 3 mánuðir.  Ekki má láta afturhaldið valda óafturkræfu efnahagstjóni í landinu. Eyðingaröfl á valdi sjúklegrar hugmyndafræði eru látin komast upp með stórfelld skemmdarverk á hagkerfinu.  Jafnvel má stundum segja, að stundum höggvi sá, er hlífa skyldi.  

Nú er sú staða uppi, að aðeins einn sæstrengur heldur uppi tengingu Vestmannaeyja við stofnkerfi rafmagns í landinu.  Þetta þýðir, að atvinnustarfsemi á loðnuvertíðinni í vetur þarf að keyra með dísilknúnum rafölum í Eyjum.  Fyrir jafnfjölmenna og mikilvæga byggð og í Vestmannaeyjum þarf að vera (n-1) raforkufæðing úr landi, þ.e. þótt einn strengur bregðist, á samt að vera hægt að halda uppi fullu álagi í Eyjum.  Landsneti hefur á undanförnum árum ekki tekizt að nýta allt fjárfestingarfé sitt, sumpart vegna andstöðu við framkvæmdir fyrirtækisins.  Lítillar andstöðu afturhaldsafla er þó að vænta við þriðja sæstrenginn út í Eyjar, og þess vegna er einkennilegt af Landsneti að hafa dregið von úr viti að koma á (n-1) tengingu við Heimaey, en slíkt fyrirkomulag er yfirlýst stefna fyrirtækisins hvarvetna á landinu. 

 

  


Bloggfærslur 4. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband