16.4.2023 | 10:52
Af úthafseldi
Fyrir nokkrum árum var frá því sagt hér á þessu vefsetri, að norskt sjóeldisfyrirtæki hefði látið smíða úthafskvíasamstæðu fyrir laxeldi í kínverskri skipasmíðastöð og að verið væri að draga samstæðuna sjóleiðina til Noregs. Ekki hefur frétzt af afdrifum þessarar úthafskvíar í rekstri. Fjárfestingarnar eru meiri í þessum búnaði en í innfjarðakvíum, og rekstrarkostnaðurinn er líka hærri á hvert framleitt tonn af laxi. Það má hins vegar vænta minni sjúkdóma og lúsar þarna úti, og ekki þarf að hvíla svæðin vegna botnfalls úrgangs frá kvíunum.
Hvatinn að þessari þróun er hreinlega plássleysi í fjörðunum, þar sem þessi starfsemi á annað borð er leyfð. Að nokkru leyti er svipað uppi á teninginum með landeldið, en samkeppnisstaða þess verður óvenjusterk á Íslandi vegna mikils landrýmis, hagstæðrar raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, ef hún á annað borð er fáanleg (er sögð uppseld núna), heits og fersks vatns og aðgengis að sjó.
Þann 22. marz 2023 gerði Helgi Bjarnason grein fyrir þessum málum með viðtali við Kjartan Ólafsson, athafnamann og stjórnarformann Arnarlax, undir fyrirsögninni:
"Undirbúa eldi undan suðurströnd".
"Fyrirtæki Kjartans, Markó Partners, hefur fjárfest í Aqualoop, sem er að undirbúa framleiðslu á úthafskvíum og tekið þar sæti í stjórn. Norska fyrirtækið gengur jafnframt til liðs við fyrirtæki, sem Markó Partners hafa stofnað, Iceland Offshore Salmon, sem er fyrsta íslenzka fyrirtækið, sem stofnað er í þeim tilgangi að hefja framleiðslu á laxi í hafinu suður af suðurströnd landsins."
Sennilega eru Norðmenn lengst komnir í þróun úthafskvía og rekstri þeirra á heimsvísu. Þeir búa að þekkingu á hönnun olíuborpalla fyrir borun og vinnslu á tiltölulega miklu dýpi og í veðrahami og eru manna bezt í stakk búnir til að þróa úthafskvíar. Hvort tímabært er að leggja fé í sambærilega þróun fyrir íslenzkar aðstæður skal ósagt láta í ljósi gríðarlegra áforma um landeldi hérlendis.
"Aqualoop hefur verið að þróa lausnir fyrir úthafseldi í 5 eða 6 ár í tengslum við Háskólann í Þrándheimi [NTNU] og olíuiðnaðinn. Næsta stig er að kanna virkni búnaðarins í tilraunatönkum og semja við skipasmíðastöð um framleiðslu hans. Búnaðurinn grundvallast á tækni, sem notuð er við olíuvinnslu við strendur Noregs og víðar. Kvíarnar eru festar utan á botnfasta súlu, og hægt er að sökkva þeim, þegar aldan er að verða of mikil fyrir laxinn. Kjartani lízt afar vel á þessa tækni; segir, að lykillinn að því að framleiða fisk í úthafinu sé, að hægt sé að takast á við úthafsölduna. Nefnir hann í þessu sambandi, að tæknin hafi fengið vottun Norsk Veritas."
Það er spurning í hverju þessi vottun er fólgin, því að varla er vitað með vissu, hvaða ógnarkraftar eru þarna á ferð, og aðstæður kunna að vera aðrar og erfiðari úti fyrir Suðurströnd Íslands en Vesturströnd Noregs.
"Ein súla með 8 grindum getur framleitt um 20 kt/ár af laxi; sama magn og 2 firðir með 3 kvíabólum hvor, og svipað magn og Arnarlax áætlar að framleiða á næsta ári. Kjartan segir, að kolefnisfótspor slíkrar framleiðslu verði lítið og bendir jafnframt á möguleikann á því að sigla með afurðirnar á Bandaríkjamarkað, sem minnkar kolefnisfótsporið enn frekar.
Nokkur önnur norsk fyrirtæki hafa hannað tæknibúnað fyrir úthafseldi, sem kominn er mislangt í þróun. Norðmenn veittu rannsóknarleyfi á árunum 2015-2017 og stefna að því að koma upp útboðskerfi á þessu ári og veita leyfi samkvæmt því."
Menn slá gjarnan um sig með kolefnissporinu, en hvers vegna ætti það að verða minna við smíði og rekstur úthafskvía en hefðbundinna sjókvía, þegar þjónustuvegalengdir eru miklu meiri. Þetta er kannski unnið upp með því að sleppa siglingunni með afurðirnar í land, en kolefnissporið flyzt bara til og "vinningen går opp i spinningen", eins og Norðmenn segja stundum, þegar virðist gleymast að taka tillit til allra þátta. Þá þýðir þetta minni verðmætaaukningu innanlands, sem er þjóðhagslega neikvætt. Laxeldið þarf að hámarka virðisauka vörunnar á Íslandi og skapa trygga atvinnu, eins og núna á sér stað á Vestfjörðum með því að reisa afkastamikil laxasláturhús á norður- og suðurfjörðum og tilreiðslu fyrir neytendur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)