Strandkapteinn hverfur frá borði

Reykvíkingum og landsmönnum öðrum má vera ljóst, að fjármálamarkaðurinn er hættur að treysta því, að Reykjavíkurborg geti staðið í skilum með fjárhagslegar skuldbindingar sínar.  Að lána höfuðborg landsins undir stjórn Samfylkingarborgarstjóra er að taka áhættu með stórfelldar afskriftir lána.  Fjármál borgarinnar hafa tekið allt aðra stefnu en fjármál tveggja næstu sveitarfélaganna að stærð, Kópavogs og Hafnarfjarðar, enda eru bæjarstjórar þar sjálfstæðismenn og fylgja þar af leiðandi sjálfbærri fjármálastefnu, en hjá meirihluta borgarstjórnar rekur allt á reiðanum, stjórnkerfið lamað, óreiðan alger og ráðleysið sömuleiðis. Þar fer höfuðlaus her.

Það er þó ekki nóg með þessa ömurlegu stöðu, heldur hafa heybrækurnar í meirihlutanum, sem leiddur hefur verið lengi af Samfylkingunni, ekki enn þá mannað sig upp í að greina borgarbúum satt og rétt frá stöðunni.  Borgarstjóri stingur höfðinu í sandinn við óþægilega atburði eins og að fá alvarlegar athugasemdir frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og talar um "rútínubréf".  Það eru ill örlög Reykvíkinga að þurfa að lúta stjórn svo dáðlauss borgarstjóra.  Þar er alger "gúmmíkarl" á ferð, og hætt er við, að á landsvísu sé staðan engu skárri hjá Samfylkingunni.  Þar vantar hryggjarstykkið.  

Það, sem heyrzt hefur frá borgarstjóra, er, eins og vænta mátti, að kenna öðrum um.  Hann kennir verðbólgunni um og kostnaði við fatlaða.  Þegar frammistaða borgarinnar er borin saman við næstu sveitarfélög í stærðarröðinni, fellur þessi hráskinnaleikur Samfylkingarborgarstjórans um sjálfan sig. Ef frammistöðuvísitölur eru settar á 100 árið 2014 og þær kannaðar árið 2022, sést, að vísitala skulda A-hluta borgarsjóðs hafði hækkað í 194, bæjarsjóðs Kópavogs í 107 og bæjarsjóðs Hafnarfjarðar í 109.  Sú síðast nefnda hafði lækkað síðan 2020.

Vísitala skulda á hvern íbúa Reykjavíkur hefur farið stöðugt hækkandi og var 169 árið 2022, en hún hefur lækkað í Kópavogi í 89 í Hafnarfirði í 98.  Þessi seinni vísitala sýnir, að fjármál Reykjavíkur eru ósjálfbær - stjórnlaus, en í báðum hinum bæjarfélögunum er þeim stjórnað í æskilegan farveg. 

Umfjöllun Viðskipta Moggans 12.04.2023 sýndi svart á hvítu, að markaðurinn er búinn að gera sér grein fyrir þessu og hefur afskrifað Reykjavíkurborg sem traustvekjandi skuldara.  Þegar lánalínur borgarinnar í bönkum verða upp urnar, mun styttast mjög í greiðsluþrot borgarinnar, og henni verður þá væntanlega skipaður tilsjónarmaður.  Um svipað leyti mun strandkapteinn Samfylkingarinnar hverfa frá borði, enda verri en enginn, þegar á reynir.

"Viðmælendur ViðskiptaMoggans telja auðsýnt, að ástæða þess, að borgin hefur nú í tvígang fallið frá útboði, sé, að ekkert bendi til þess, að eftirspurn eða kjör á markaði hafi batnað, frá því [að] borgin greip því sem næst í tómt á markaði í síðasta útboði.  Ætla megi, að vænt áhugaleysi á fyrirhugaðri útgáfu myndi reynast borginni niðurlægjandi, enda felist í því ákveðið vantraust á fjárhagsstöðu hennar og greiðslugetu.  Síðasta skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar fór fram í febrúar [2023], en þá reyndist eftirspurn dræm, og þau kjör, sem buðust, þóttu síður en svo gæfuleg."

Þetta þýðir í raun, að skuldabyrði borgarinnar er orðin henni ofviða.  Veltufé frá rekstri er of lítið, til að hún geti staðið undir fjárhagsskuldbindingum sínum, og þá reynir hún að fleyta sér áfram á lánum.  Hvers vegna ?  Bíður Samfylkingarfólkið og meðreiðarpakkið eftir kraftaverki til að komast hjá þeirri niðurlægingu, að Samfylkingin verði dæmd í sögunni sem sá stjórnmálaflokkur, sem rústaði stjórnkerfi borgarinnar, kom þar að getulitlum og sérlunduðum pólitískum silkihúfum og hefur nú keyrt höfuðborg landsins í fjárhagslegt þrot ? 

Það má vissulega segja, að nú sé hún Snorrabúð stekkur, því að fyrir um 30 árum, áður en ruglið hófst í borgarstjórn, stóð fjárhagur borgarinnar í blóma, þar var mikið framkvæmt, og borgin var eftirsótt starfsstöð fyrirtækja og sem sveitarfélag til að stofna heimili í og búa í.  Allt ber þetta stjórnarháttum Samfylkingarinnar ömurlegt vitni.  Fyrir þá á hún flengingu skilda frá kjósendum.  Svona gera menn ekki. 

Borgin hyggst á fyrri hluta 2023 fá lánveitendur til að lána sér mrdISK 21 bæði með skuldabréfaútgáfu og bankalánum.  Á þetta fé að fara í arðbærar framkvæmdir eða til að borga vexti og afborganir lána, sem eru ódýrari en það, sem borginni býðst nú ?  Það er engin leið að sjá, að nokkur glóra sé í að íþyngja borgarsjóði æ meir.  Hann er nú þegar ósjálfbær. Stöðva verður skuldasöfnunina. Samfylkingin hefur stefnt fjárhag borgarinnar í slíkar ógöngur, að hún verður nauðug viljug að selja eignir til að létta á skuldabagganum.  Hvað skyldi verða fyrir valinu ?  Orkuveita Reykjavíkur ?

 

  


Bloggfærslur 14. maí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband