Mun meiri reynsla er í Færeyjum af vindknúnum rafölum en hér

Af því, sem "vindspekúlantar" hafa látið frá sér fara hérlendis, má ráða, að tæknileg þekking þeirra á vindmyllurekstri og þeim erfiðleikum, sem slíks rekstrar bíður á Íslandi vegna harðhnjóskulegs veðurfars, sé af skornum skammti.  Látið hefur verið í veðri vaka, að rekstrarsaga tveggja vindknúinna rafala á Hafinu ofan Búrfells gefi fyrirheit um hnökralítinn rekstur hundraða stærri súlna með þremur spöðum og rafala efst. Hvers vegna entust þá 2 slíkir rafalar í Þykkvabænum svo stutt ?  Rekstrarlegur viðvaningsháttur "spekúlantanna" skín í gegn.  Nú hafa birzt fróðlegar rekstrarsögur frá Færeyjum. 

Helgi Bjarnason færði okkur frétt af rekstrarreynslu Færeyinga af téðum orkumannvirkjum í Morgunblaðinu 27. marz 2023 undir lýsandi fyrirsögn:

"Vindmyllur bila oft í Færeyjum".

Hún hófst þannig:

"Erfiðleikar hafa verið í rekstri vindrafstöðva í Færeyjum.  Þær hafa bilað oft á ákveðnum svæðum, og svo dýrt er að gera við þær, að það kostar í sumum tilvikum meira en að kaupa nýjar. Sérstaklega rammt kvað að þessu í óveðri, sem gekk yfir Færeyjar í byrjun febrúar [2023].  Þá biluðu margar myllur.  Samkvæmt frétt í sjónvarpi Færeyinga virðist einhver hönnunargalli vera í túrbínunum, en einnig kann salt og rakt loft að hafa átt þátt í, að þær stöðvuðust."

 Það er hrottalegt, ef hönnunargalli birtist í fjöldaframleiddum hlutum, sem setja á upp í miklum fjölda víðs vegar um heiminn.  Öllu líklegra er, að hönnunarforsendur þeirra hafi ekki tekið tillit til þeirra öfgafullu veðurfarsskilyrða, sem oft ríkja á Norður-Atlantshafi með öllum þeim lægðum, sem þar ganga yfir, eins og ýjað er að í fréttinni.  Á Íslandi getur salt borizt alla leið upp í Sigölduvirkjun í hvössum SV-áttum.  

Engir staðir á Íslandi eru óhultir fyrir óveðrum einhvern tíma ársins, og svipuðu máli gegnir um seltuna.  Það verður þess vegna annaðhvort að fjárfesta í svo rammgerðum búnaði, að hann standist a.m.k. s.k. 50 ára veður (kemur tvisvar á öld samkvæmt tölfræðinni), eða að kosta upp á háan rekstrarkostnað vegna tíðra og mikilla viðgerða og jafnvel að greiða sektir fyrir að standa ekki í skilum með umsamið afl og/eða orku.  

Hvort tveggja mun hækka vinnslukostnað raforku með vindknúnum rafölum umfram það, sem "spekúlantar" reikna með.  Þetta kann að gera þessa raforkuvinnslu algerlega ósamkeppnisfæra á Íslandi, nema á tímum alvarlegs raforkuskorts í landinu, eins og nú stefnir í.  Er verið að búa til rétta umhverfið fyrir þessa dýru vinnsluaðferð raforku á Íslandi með því að draga endalaust á langinn að hefja annars konar orkuframkvæmdir af einhverju viti (vatnsafl, jarðgufa) ?

Nú er eins og forráðamenn hitaveitna landsins séu að vakna upp við vondan draum um að afla þurfi meira heits vatns eftir um 20 ára doða á þeim vettvangi, og auðvitað kom orkuráðherrann af fjöllum, eins og fyrri daginn, og hafði sjaldan orðið jafnhissa.  Þá heyrast nú raddir um, að viðbótar vatnsöflun sé svo dýr, að fá verði styrk til hitavatnsleitar og -öflunar.  Hvers konar ræfildómur er þetta eiginlega í orkugeira nútímans ?  Öðru vísi mér áður brá.  Þá riðu kempur á vaðið og rifu upp ein orkuskipti með hitaveituvæðingu, virkjunum og flutningslínum um allt land.  

Sú snargalna afstaða Samfylkingarinnar í Reykjavík, að Orkuveita Reykjavíkur eigi að þjóna sem mjólkurkýr borgasjóðs, er skammgóður vermir.  Þar með meig Samfylkinginn í skóinn sinn.  Varminn frá þeirri athöfn er kulnaður, því að eftir leiðréttingu á borgarbókhaldinu kom í ljós, að framlegð borgarinnar 2022 var neikvæð, sem þýðir, að rekstur hennar skilar minna en engu upp í fjárfestingar og fastan kostnað hennar.  Þetta er ömurlegri vitnisburður um fjármálaóstjórn Samfylkingarinnar en nokkurn hafði órað fyrir.  Þarna er komin skýringin á því, að markaðurinn treystir sér ekki til að lána borginni meira fé með eðlilegum hætti.  Væntanlegur Framsóknarborgarstjóri, sem fórnaði flugvellinum í Vatnsmýri fyrir vegtylluna, verður undir eftirliti tilsjónarmanns ríkisins með fjárreiðum greiðsluþrota höfuðborgar.  Spilling Samfylkingar verður alls staðar dýr, þar sem henni er treyst fyrir stjórnartaumum. Þess vegna ætti enginn að láta blekkjast af fagurgalanum.    

 


Bloggfærslur 17. maí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband