20.5.2023 | 14:37
Staðnir að verki
Þann 22. september 2022 sigldi P524 Nymfen, danskt eftirlitsskip, frá Rödbyhavn, litlum hafnarbæ í Danmörku, á slóðir rússnesk-þýzku jarðgaslagnanna Nord Stream 1 og 2 í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar. Samtímis sigldu bandarísk, þýzk og sænsk herskip inn á svæðið og eftirlitsflugvélar frá Svíþjóð og Póllandi sveimuðu yfir ásamt bandarískri eftirlitsþyrlu. Vart hafði orðið við rússnesku skipin, og tortryggni vaknað, því að þau tilkynntu sig ekki og höfðu slökkt á staðsetningarbúnaði sínum.
Danska eftirlitsskipið sigldi fram og til baka á svæði sunnan og austan sprengingastaðar gaslagnanna og staðnæmdist loks. Þessi vestræni liðssafnaður var þarna, af því að hópur rússneskra skipa hafði óvænt sézt þarna og komu flest frá Kaliningrad (Königsberg) án tilkynningar. Eitt rússnesku skipanna, SS-750, hafði smákafbát um borð, sérhannaðan fyrir neðansjávar aðgerðir, jafnvel á hafsbotni.
Ítarleg rannsókn danska blaðsins Information hefur kastað nýju ljósi á tildrög skemmdarverkanna á gaslögnunum. Sænskur rannsakandi, Rússlandssérfræðingur og leyniþjónustusérfræðingur, Joakim von Braun, sagði þetta við Information:
"Þetta er ótrúlega áhugavert. SS-750 er sérútbúinn farkostur, sem er hannaður einmitt fyrir aðgerðir neðansjávar. Þetta eykur trúverðugleika upplýsinga, sem áður hafa komið fram í dagsljósið. Þessi hópur 6 rússneskra skipa er einmitt gerður fyrir aðgerðir, sem þarna áttu sér stað. Það er mjög líklegt, að áhafnir þessara skipa hafi unnið skemmdarverkin á gaslögnunum", segir Joakim von Braun.
"Auðvitað er sameiginleg rannsókn Danmerkur, Svíþjóðar og Þýzkalands á sprengingum Nord Stram gaslagnanna enn í gangi. Enn er ekki ljóst, hvers vegna rannsóknin er svona tímafrek, og hvers vegna ríkisstjórnirnar 3 hafa enn ekki gert nærveru Rússanna á sprengjusvæðinu kunna heiminum. Málsatvik urðu almenningi kunn einvörðungu vegna eftirgrennslunar danska dagblaðsins og kröfu þess um aðgang "að ljósmyndum og myndbandsupptökum af rússneskum skipum, sem teknar voru um borð í P524 Nymfen þann 22. september 2022".
SS-750 sigldi frá Kaliningrad 21. september 2022 með slökkt á AIS-sendibúnaði sínum, sem er auðkenningarbúnaður á hafi úti. Eftir að SS-750 hafði verið yfir Nord Stream 1 og 2 gaslögnunum, fóru þær að leka. Hér er vert að gefa gaum að tímasetningu lekanna. Lekans varð fyrst vart 26. september 2022, degi áður en "Pólland og Noregur opnuðu Eystrasaltslögnina, sem fer um Danmörku og flytur eldsneytisgas frá Norðursjónum" [til Póllands]. Við árslok 2022 var Noregur orðinn gasbirgir Evrópu nr 1 í stað Rússlands. Saksóknari í þessu máli gæti sett fram eftirfarandi tilgátu um málsástæður Rússa:
Rússneskir ráðamenn óttuðust, að norskt eldsneytisgas gæti gert Evrópu óháða Rússum um þetta eldsneyti. Í stað þess að bíða átekta reyndu þeir að ýta Evrópu út í orkukreppu með því að vinna skemmdarverk á Nord Stream 1 og 2. Rússar sökuðu Breta og jafnvel Bandaríkjamenn um skemmdarverkið, en það er ekki snefill af vísbendingum fyrir hendi um, að flugufótur sé fyrir þessum innantómu rússnesku ásökunum.
Einnig heyrðust hjáróma raddir í fjölmiðlum, sem reyndu að klína sök á Úkraínumenn, en þessir ásakendur útskýrðu aldrei, hvernig hópur skemmdarverkamanna gæti komizt inn á tryggilega vaktað svæði óséður, framkvæmt flókna neðansjávar aðgerð og síðan komizt óséður í burtu.
Við vitum núna, að aðeins eitt ríkisvald, hið rússneska, sem ræður yfir nauðsynlegum búnaði, var á umræddu svæði á réttum tíma til að framkvæma þessa flóknu neðansjávar aðgerð. Þessu má jafna við að vera staðinn að verki.
Mikilvægi Nord Stream 1 og 2:
- Nord Stream 1 var fullgerð 2011 og kostaði yfir mrdUSD 15.
- Nord Stream 2 var fullgerð 2021 með dálítið lægri kostnaði en Nord Stream 1, en var aldrei tekin í notkun vegna réttmætrar tortryggni í garð rússneska ríkisins.
- Lagnirnar 2 (báðar tvöfaldar) sáu Evrópu fyrir beinni og áreiðanlegri tengingu við gaslindir Rússlands.
- Nord Stream 1 flutti 35 % af öllu rússnesku gasi til Evrópusambandsins (ESB).
Rússneska ríkisgasfélagið gaf þær upplýsingar, að árið 2020 hefðu heildartekjur þess numið mrdUSD 83. Stór hluti þeirra kom frá Nord Stream 1.
Hvers vegna ættu Rússar að stíga þetta skref ?
Þann 13. júlí 2022 stefndi fyrsti aðstoðar starfsmannastjóri Kremlar, Sergei Kiriyenko, saman rússneskum stjórnmálalegum stefnumótendum. Á fundi þeirra skýrði hann frá því, að Rússland (les Putin, forseti) vildi grafa undan stuðningi Evrópu við Úkraínu með því að einblína á Þýzkaland. Nord Stream 1 og 2 væru megingasæðarnar til Þýzkalands.
Rússneski ríkismiðillinn RT lagði í kjölfarið enga dul á, hvað Rússar hefðu í hyggju: að valda svo alvarlegum eldsneytisgasskorti veturinn eftir, að þýzkt atvinnulíf mundi lamast og fólk krókna úr kulda heima hjá sér. Þetta töldu Putin og hans glæpagengi, að snúa mundi almenningsálitinu Rússum í vil, svo að samsteypustjórnin í Berlín legðist flöt fyrir þeim, en það fór á annan veg. Þetta varð aðeins eitt af mörgum glappaskotum og asnaspörkum Putins.
Í vetrarsókn sinni 2022-2023 gegn Úkraínumönnum, þar sem Rússar gultu afhroð og misstu m.a. lungann af sérsveitum sínum, Spetznaz, áttu hinir síðar nefndu von á, að aðstoð Þjóðverja við Úkraínumenn mundi gufa upp í sárum orkuskorti, en það fór á annan veg. Rússneska glæpagengið í Kreml vanmat Þjóðverja. Hún stórefldist með Leopard 2, Marder, stórskotakerfum, loftvarnakerfum, herflugvélum Austur-þýzka hersins o.fl.
Rússar vissu, að ef þeir lokuðu einfaldlega fyrir gasið, fengju þeir á sig skaðabótakröfur og öflugri viðskiptahömlur. Í staðinn fyrir að verða opinberlega skaðvaldurinn, reyndu þeir að gera sig að fórnarlömbum skemmdarverka Vesturveldanna, en upp komast svik um síðir, og ekkert lát er á stuðningi Evrópu við Úkraínu. Þessar uppljóstranir um ósvífni rússnesku stjórnarinnar og glæpsamlegt eðli hennar mun auka samstöðu Vesturveldanna um hernaðarstuðning, fjárhagssnuðning og siðferðilegan stuðning við Úkraínu.
Dagana eftir skemmdarverkin á gaslögnunum velti BBC fyrir sér áhrifunum á heimsmarkaðsverð eldsneytisgass. 29. september 2022 kom fram á BBC: "Hið háa gasverð kemur niður á fjárhag fjölskyldna vítt og breitt um Evrópu og hækkar framleiðslukostnað fyrirtækja. Þetta gæti valdið hægagangi í hagkerfum Evrópu og hraðað ferðinni yfir í kreppuástand". Þjóðverjar brugðust hins vegar skjótt við haustið 2022, og þá sýndi þýzka stjórnkerfið, hvað í því býr, þegar á hólminn er komið. Settar voru upp í þýzkum höfnum móttökustöðvar fyrir fljótandi eldsneytisgas, LPG, á mettíma og samið við birgja við Persaflóann og í Bandaríkjunum um afhendingu veturinn 2023 á LPG. Veturinn var mildur, fyrirtæki og heimili spöruðu, svo að enginn skortur varð á gasi, og verðið lækkaði aftur. Nú skiptir Rússland engu máli fyrir kola-, olíu- og gasforða Evrópu. Þjóðverjar sýndu þarna gamalkunna snerpu og sneru á Rússana. Þeir eru nú teknir að auka hergagnaframleiðslu sína og munu taka forystu fyrir lýðræðisríkjum Evrópu í baráttu þeirra við árásargjarna klíkuna í Kreml.
Hvers vegna er rannsókn á Nord Stream sprengingunum mikilvæg ?
Afstaða almennings til stríðsátaka skiptir höfuðmáli. Upplýsingastríð er háð til að sá fræjum efasemda í huga almennings. Stuðningur Vesturveldanna við Úkraínumenn, sem berjast við ofurefli liðs fyrir frelsi og fullveldi lands síns og lýðræðislegum stjórnarháttum þar gegn rússneskum kúgurum, sem einskis svífast og stunda þjóðarmorð í Úkraínu. Fyrir vikið verður Úkraína brátt tæk í NATO og ESB, en Rússneska sambandsríkið mun lenda á ruslahaugum sögunnar. Rússland var undir járnhæl Mongóla frá 1237 og í um 330 ár. Af þessum sökum varð ekki sams konar þróun í átt til valddreifingar og þingræðis í Rússlandi og í Evrópu. Í Rússlandi var zarinn einráður, og sama viðhorf ríkir til valdsins enn á okkar dögum. Þetta stendur Rússum fyrir þrifum, og þjóðin er heilaþvegin af megnum áróðri á flestum miðlum.
GRU, leyniþjónusta rússneska hersins, vinnur markvisst að því að sá tortryggni á milli Bandamanna. Nagdýrin geta nagað stuðninginn við Úkraínu með því að sá misskilningi um fyrirætlanir stríðsaðila. Rússnesk stjórnvöld ásökuðu Stóra-Bretland beint fyrir Nord Stream sprengingarnar, og Putin-moldvörpur í vestri reyndu að klína sökinni á Bandaríkjamenn og/eða Úkraínumenn. Sú rannsókn, sem hér er lýst, mun gera Putin-moldvörpur að gjalti. Þær hafa snúið öllu á haus og burðazt við að gera Putin að fórnarlambinu í þessu stríði, á meðan hann fyrirskipaði innrásina í Úkraínu 24. febrúar 2022 og ber höfuðábyrgðina með sama hætti og Adolf Hitler fyrirskipaði Wehrmacht að ráðast inn í Pólland 1. september 1939 í kjölfar friðarsáttmála við Sovétríkin, sem réðust á Pólland um 3 vikum síðar. Það liggur svipuð hugmyndafræði að baki hjá Hitler og Putin. Í stað hins aríska kynstofns hjá Hitler er kominn hinn rússneski heimur hjá Putin.
Stórir vestrænir miðlar hafa flestir hundsað stórfrétt danska dagblaðsins Information, á meðan moldvörpur Putins á Vesturlöndum hafa einfaldlega hætt að fjalla um Nord Stream sprengingarnar. Ef/þegar téð fjölþjóða rannsókn leiðir fram málsatvik, sem negla niður þann grunaða á líkum, sem hafnar eru yfir skynsamlegan vafa, mun sá grunaði gjalda verknaðar síns, hversu langan tíma, sem það mun svo taka. Rússland hefur þegar goldið lagnasprenginganna, og tapið út af þeim það mun halda áfram um langa framtíð eftir lok rannsóknarinnar. Úkraína sem bandamaður Vesturveldanna í NATO og ESB getur í náinni framtíð séð Evrópu fyrir jarðgasþörf hennar.
Afleiðingarnar:
Til að vega upp á móti því að hafa glatað evrópska markaðinum, sem nam 80 % af útflutningi gasrisans Gazproms, horfir fyrirtækið nú til Kína. Putin reyndi örvæntingarfullur að fá kínverska forsetann, Xi Jinping, til að undirrita samning um gaslögn frá Síberíu til Kína í heimsón Xis til Moskvu í apríl 2023. Á blaðamannafundi talaði Putin, eins og samningurinn væri í höfn, en Kínverjar hafa ekki sagt annað um verkefnið en þeir myndu rýna það. Putin er rúinn trausti alls staðar. Kínverjar hyggja á að endurheimta kínversk landsvæði í austurhluta Rússneska ríkjasambandsins. Vladivostok var áður kínversk borg.
Í ákafa sínum að demba Evrópumönnum ofan í pytt orkukreppu rétt fyrir veturinn 2022-2023 gæti Putin hafa skemmt fyrir viðskiptatækifærum, sem margra mrdUSD gaslagnir til Kína hefðu í för með sér fyrir Rússland. Hver er tilbúinn til að hætta fé sínu í samstarfi við hryðjuverkamann ? Að sjá Kína fyrir gasi var eina undankomuleið hans eftir að hafa glatað öllu viðskiptatrausti hinna vel stæðu Evrópumanna.
Í framtíðinni mun sérhver kaupandi rússneskrar vöru hafa örlög Nord Stream í huga og þar með skilja, hvers konar fantatökum Rússar eru tilbúnir að beita viðskiptavini sína, ef þeir telja, að slík fantabrögð þjóni hagsmunum þeirra sjálfra. Sérhver viðskiptasamningur við Rússa verður gerður í skugga neðansjávar sprenginganna við Danmörku. Rússland mun aldrei komast hjá hinni óttalegu spurningu, "hversu háan afslátt" rússneski birgirinn sé reiðubúinn að veita í ljósi reynslunnar af orkuviðskiptunum við Rússa, og ekkert land mun af fúsum og frjálsum vilja gera Rússland að meginbirgi sínum á neinu sviði. Valdhafarnir í Kreml hafa með framferði sínu 2022-2023 eytt öllu trausti, sem alltaf hefur verið grundvöllur viðskipta á milli siðaðra manna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)