26.5.2023 | 11:20
Vatnaskil í hernaðarsögunni
Rússar og Kínverjar hafa lagt áherzlu á smíði ofurhljóðfrárra (v>5 Mach) eldflauga í þeirri von að ná frumkvæði á Vesturlönd á einu sviði hergagna. Vesturlönd hafa ekki komið sér upp þessum vígtólum, enda kostar stykkið MUSD 10. Vesturlönd hafa hins vegar þróað varnarbúnað, t.d. bandaríska Patriot-kerfið, sem þó hafði ekki fengizt reynsla af gagnvart ofurhljóðfráum eldflaugum fyrr en við varnir Kænugarðs 16.05.2023.
Hvernig fjallar sérfróður blaðamaður Morgunblaðsins, Stefán Gunnar Sveinsson, um þetta ? Það kom fram í Morgunblaðinu 22. maí 2023 undir fyrirsögninni:
"Loftvarnirnar valda kaflaskiptum".
Fréttin hófst þannig:
"Segja má, að kaflaskipti hafi orðið í hernaðarsögunni í síðustu viku, þegar Úkraínumenn náðu að standa af sér 2 af stærstu eldflaugaárásum sögunnar aðfararnótt þriðjudags og miðvikudags [16.-17. maí 2023].
Rússar skutu þá [urmli] eldflauga að Kænugarði, og voru allar skotnar niður eða gerðar óvirkar af loftvarnarkerfum borgarinnar fyrra kvöldið. Var þar um að ræða 18 eld- og stýriflaugar, sem skotið var með stuttu millibili [á um 1/2 klst-innsk. BJo] úr nokkrum mismunandi áttum [úr norðri, austri og suðri - innsk. BJo] á borgina í því skyni, að eldflaugarnar myndu yfirgnæfa [yfirlesta] loftvarnir hennar. Þess í stað var þeim öllum grandað, auk þess sem 9 drónar voru einnig skotnir niður.
Næsta kvöld sendu Rússar 30 stýriflaugar af ýmsum gerðum og 4 dróna á höfuðborgina, og voru 29 af 30 eldflaugum skotnar niður og allir drónarnir 4."
Þarna opinberaðist tæknilegur og hernaðarlegur vanmáttur Rússlands, en stjórnendurnir eru smáir í sniðum og hafa ekki þrek til að viðurkenna ófarir sínar. Það hefur orðið Rússum sérstakt áfall, að ofurhljóðfráar (hypersonic) (v>5 Mach = 6000 km/klst) eldflaugar komust ekki gegnum loftvarnir Úkraínumanna. Shoigu, landvarnarráðherra, hefur séð sína sæng út breidda, því að hann neitaði að viðurkenna hina nýju staðreynd, og Putin lét í bræði sinni handtaka 3 af hönnuðum Dragger (Kinzhal) eldflauganna og ákæra þá fyrir landráð.
Ekki verður það örvandi fyrir rússneska vísindasamfélagið og mun sennilega tryggja áframhaldandi hrörnun þess. Nú er svo komið, að NATO getur skotið niður allt, sem Rússar senda á loft, og þar með má ætla, að skálkaskjól rússnesku mafíunnar í Kreml, MAD, "Mutuallly Assured Destruction", sé ekki lengur fyrir hendi. Vitað er, að rússneski herinn var með í áætlunum sínum að nota vígvallar kjarnorkuvopn, ef NATO tækist að snúa vörn í sókn, í skjóli MAD. Nú eru þessar fyrirætlanir hrundar, og rússneski herinn er ekki til neins.
Hvers vegna héldu Rússar, að vestræn loftvarnakerfi réðu ekki við ofurhljóðfráar eldflaugar ? Það er vegna þess, að við Mach 5 hefur loftið við trjónu eldflaugarinnar orðið plasmakennt, og plasmað dregur í sig allar útvarpsbylgjur, þ.á.m. frá radarbúnaði loftvarnarkerfanna, sem þá greina óvininn of seint, því að t.d. Patriot Pac-3 flaugin fer aðeins á hraðanum Mach-4.
Hvers vegna greindi þá 40 ára gamalt Patriot kerfið við Kænugarð Dragger-flaugarnar rússnesku ? Það er vegna þess, að kerfið var látið breyta tíðni radarsins í átt að innrauða sviðinu þar til það fann Dragger-flaugarnar, sem gefa frá sér gríðarlegan hita. Þessi þróun kom flatt upp á staðnaða Rússa, en það er miklu meira á döfinni en þetta.
Til að girða fyrir, að heimsvaldasinnaðir einræðisherrar geti beitt langdrægum ofurhljóðfráum eldflaugum, sem fljúga mest megnis leiðarinnar á milli heimsálfa á 20 Mach, er Geimþróunarstofnun Bandaríkjanna (US Space Development Agency) að þróa net gervitungla, sem spanna á allan heiminn og búin eru innrauðum hitanemum, sem greina staðsetningarhnit heitra hluta á ferð í þrívíðu rúmi og senda upplýsingarnar til stjórnstöðva loftvarnarkerfa á jörðu niðri. Kerfið heitir "Tranche 1 Tracking Layer" (T1TRK) og á að taka í brúk 2025.
Í lokin skrifaði Stefán Gunnar:
"Þá eru áhrifin [af Kænugarðsafrekinu 16.05.2023] ekki einungis einskorðuð við mögulega heimstyrjöld. Í greiningu Daily Telegraph á þýðingu árásarinnar segir, að eitt af því, sem gæti mögulega fært Rússum aftur frumkvæðið í Úkraínu væri, ef þeir gætu tekið út loftvarnakerfi landsins, svo að flugher Rússa gæti tekið yfirráðin í lofti. Það markmið hefur gjörsamlega mistekizt til þessa allt frá fyrstu dögum innrásarinnar, og nú virðist ljóst, að jafnvel háþróuðustu vopn Rússa munu lítt duga til.
Þá beinir Telegraph sjónum sínum sérstaklega að Xi Jinping og Kínverjum, sem hafa varið miklu til þróunar ofurhljóðfrárra eldflauga á síðustu árum. Er þeim ætlað að takast á við flugmóðurskip Bandaríkjanna, ef til styrjaldar kemur við þau, en einnig gætu [þær] nýtzt til árása á Taívan-eyjuna. Er bent á, að Taívan ráði einnig yfir Patriot-kerfinu, og því muni Xi og hershöfðingjar hans þurfa að íhuga, hvaða áhrif vopn þeirra muni hafa."
Atburðirnir 16. maí 2023, þegar allar 6 ofurhljóðfráu rússnesku eldflaugarnar, sem beint var að skotmörkum í Kænugarði, voru skotnar niður á um hálftíma, gjörbreytir hernaðarstöðunni Vesturveldunum í vil. Þeir gera um leið mun friðvænlegra í heiminum en áður, því að atburðirnir umturna hernaðaráætlunum hinna samspyrtu einræðisríkja í austri, Rússlands og Kína. Þau sjá nú sæng sína út breidda í átökum við Vesturveldin og munu þess vegna ekki dirfast að hefja kjarnorkuárás né annars konar árás. Þau eru nú meðvituð um, að MAD er ekki lengur fyrir hendi, því að Vesturveldin geta skotið allt niður, sem einræðisríkin kunna að senda á loft. Þess vegna er nú orðið friðvænlegra í heiminum, og síðasta hálmstrá Putins, sem hann af hreinni geðveiki hefur hótað að beita í Úkraínu og nota til þess ofurhljóðfráar eldflaugar, eru ekki lengur neinn valkostur fyrir hann í bunkernum, og fælingarmáttur kjarnorkuvopna Rússa og Kínverja er ekki lengur fyrir hendi. Vesturveldin eiga nú alls kostar við einræðisríkin. Svo er árvekni og færni Úkraínumanna við uppsetningu og beitingu hátæknilegs vopnabúnaðar fyrir að þakka. Rússneska ríkjasambandið er með allt niður um sig. Það kom vel á vondan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)