29.5.2023 | 11:34
Kjarnorkuógnin
Aðfararnótt 16. maí 2023 skutu Rússar 6 ofurhljóðfráum eldflaugum af gerðinni Kh-47M2 Dagger á Kænugarð á 2 mín skeiði frá flugvélum og skipum úr 3 höfuðáttum. Aðalskotmarkið mun hafa verið Patriot-loftvarnarkerfið, sem nýlega var sett upp í eða við Kænugarð. Því er skemmst frá að segja, að úkraínska flughernum tókst að skjóta allar þessar ofurhljóðfráu eldflaugar niður áður en þær náðu ætlaðri endastöð. Þar mun 40 ára gömul tækni Patriot-loftvarnarkerfisins hafa komið að betri notum gegn "næstu kynslóðar" árásarvopni stríðspostulans Putins í Kreml en flestir áttu von á. Þetta er betri árangur varnarvopnanna en menn þorðu að vona, enda lét einræðisherrann handtaka 3 vísindamenn, sem tóku þátt í hönnun Dagger-flaugarinnar, og ákæra þá fyrir landráð. Rússneska vísindasamfélagið var ekki beysið fyrir, og vonandi tekst hryðjuverkamanninum í bunkernum að eyðileggja síðasta hvatann til afreka, sem þar kann að hafa leynzt.
Nú lætur hann flytja bæði vígvallarkjarnorkuvopn (tactical nuclear warheads) og gjöreyðingarkjarnorkuvopn (strategic nuclear warheads) til Hvíta-Rússlands. Það er furðuleg ráðstöfun, en sýnir kannski, að hann óttast, hvað gerast mun, ef/þegar þeim verður skotið á loft. Það er þá huggun harmi gegn vestanmegin, að bráðlega verður vissa fyrir því, að allt, sem stríðsglæpamennirnir senda á loft geta Vesturveldin (Úkraína er nú og verður í þeim hópi) skotið umsvifalaust niður. MAD (Mutually Assured Destruction), sem hefur verið skálkaskjól rússnesku herstjórnarinnar, er þess vegna ekki lengur fyrir hendi. Yfirburðir Vesturveldanna í lofti ættu nú að vera öllum augljósir, jafnvel stríðsóðum litlum rússneskum karli í bunkernum sínum.
Framferði rússneska hersins við stærsta kjarnorkuver Evrópu í Zaphorizia í Suður-Úkraínu ætti að hafa fært ollum heim sanninn um, að í Kremlarkastala eru nú við völd hryðjuverkamenn, sem einskis svífast og meta mannslíf einskis annarra en sjálfra sín. Þeir hafa gerzt sekir um það fáheyrða tiltæki að breyta lóð kjarnorkuversins í víghreiður skriðdreka og stórskotaliðs, og þeir hafa skotið á og sprengt upp flutningslínur að orkuverinu. Með þessu leika þeir sér að eldinum, því að án tengingar við stefnkerfið getur verið ekki framleitt raforku, og þá verður kæling kjarnakljúfanna algerlega háð dísilrafstöðvum. Þetta eykur til muna hættuna á ofhitnun kjarnkljúfanna, sem þá bráðna og hættuleg geislun eða jafnvel geislavirkt rykský sleppur út í andrúmsloftið. Svona haga aðeins samvizkulausir glæpamenn sér.
Þann 15. maí 2023 birti Sveinn Gunnar Sveinsson ískyggilega frétt í Morgunblaðinu um mikil ítök Rússa á markaðinum fyrir úranið, sem koma má stýrðri klofnun atóma af stað í og hentar fyrir kjarnorkuver. Þarna opinberast enn sú barnalega trú, sem Vesturveldin höfðu, að Rússum væri treystandi til að eiga við þá viðskipti að siðaðra manna hætti, en nú vita allir, sem vita vilja, að virðing þeirra fyrir gerðum samningum er svipuð og virðing þeirra fyrir mannslífum, þ.e.a.s. engin. Orðum þeirra er ekki treystandi, þeir eru lygnari en Münchausen og sitja á svikráðum við Vesturlönd.
Fréttin var undir fyrirsögninni:
"Uppbygging kjarnorkuvera háð Rússum",
og hófst hún þannig:
"Uppbygging kjarnorkuvera hefur tekið nokkurn kipp á síðustu misserum, og hafa bæði Bandaríkin og svo ýmis ríki Evrópu opnað ný kjarnorkuver og/eða sett upp nýja kjarnaofna við þau ver, sem fyrir voru. Einn helzti vandinn við áframhaldandi uppbyggingu kjarnorkuveranna er þó sá, að kjarnaeldsneytið í ofnana kemur einkum frá Rosatom, rússnesku kjarnorkumálastofnuninni."
Vesturlönd verða að taka þetta skæða vopn úr höndum Rússa, eins og þau losuðu sig við Rússa sem birgja fyrir jarðefnaeldsneyti á einu ári, og aðgerðir eru í gangi með kjarnorkueldsneytið.
"En á sama tíma og Úkraínustríðið hefur fengið flest ríki Evrópu til þess að sniðganga jarðgas- og olíukaup frá Rússum, hefur kjarnorkan aftur komizt í "tízku" sem grænn orkugjafi. Finnar gangsettu t.d. í síðasta mánuði stærsta kjarnaofn Evrópu, og á verið að sinna um 1/3 af orkuþörf Finnlands.
Þá tilkynntu Pólverjar í nóvember [2022], að þeir ætluðu að reisa sitt fyrsta kjarnorkuver í samstarfi við bandaríska orkufyrirtækið Westinghouse Electric, og hyggst fyrirtækið smíða 3 kjarnaofna. Mun verkefnið kosta um mrdUSD 20 eða sem nemur um mrdISK 2775.
Stjórnvöld í Búlgaríu hafa sömuleiðis gert samkomulag við Westinghouse um kaup á kjarnaeldsneyti og um byggingu nýrra kjarnaofna. Þá eru stjórnvöld í Slóvakíu og Ungverjalandi einnig að huga að uppbyggingu, svo [að] nokkur dæmi séu nefnd.
Vandinn er hins vegar sá, að framleiðslugeta Vesturlanda á kjarnaeldsneyti er ekki næg til að mæta þessari uppbyggingu, og áætlað er, að það geti tekið allt að áratug áður en hún verður það. Þess í stað er treyst á eldsneyti frá rússnesku kjarnorkumálastofnuninni, Rosatom."
Bómullarpólitíkusar Evrópu og Bandaríkjanna töldu sér trú um það til hægðarauka án þess að gefa gaum að ýmsum hættumerkjum, sem m.a. birtust í hrokakenndum furðuræðum og ritgerðum Putins um mikilleika og sögulegt forystuhlutverk Rússlands í hinum slavneska heimi, að óhætt væri að afhenda Kremlverjum fjöregg Vesturlanda, orkugjafana. Þegar á fyrstu mánuðum hernámstilraunar Rússa á Úkraínu, sem hófst með allsherjar árás 24.02.2022, kom í ljós, að Kremlverjar ætluðu sér alltaf að ná kverkataki á Evrópu sem orkubirgir hennar.
Á fyrstu mánuðum stríðsins, þegar vinglar í áhrifastöðum á Vesturlöndum sýndu dómgreindarleysi sitt með því að draga lappirnar við vopnaafhendingu til Úkraínumanna af ótta við viðbrögð pappírstígrisdýrsins í austri, tóku Búlgarar lofsvert frumkvæði og sendu mikið vopna- og skotfæramagn úr geymslum sínum frá Ráðstjórnartímanum ásamt dísilolíu til Póllands, þaðan sem Úkraínumönnum barst fljótlega þessi aðstoð, sem talin er hafa bjargað þeim á viðkvæmu skeiði stríðsins, en Búlgarar fengu vestræn vopn í staðinn. Þegar Putin frétti af þessu, lét hann skrúfa fyrir jarðgasflutninga frá Rússlandi til Búlgaríu. Þá sneru Búlgarar sér til Bandaríkjamanna, sem brugðust snöfurmannlega við og sendu strax 2 LNG skip fullhlaðin til Búlgaríu. Þetta var gríðarlega mikilvægt fyrir sjálfstraust og baráttuanda Vesturlanda. Evrópa fékk svo að kenna á hinu sama um haustið 2022, en var þá tilbúin og bjargaði sér úr klóm Putins með viðskiptasamningum við Bandaríkjamenn og Persaflóaríki. Það er ekki glóra í að verða háður Rússum um nokkurn skapaðan hlut.
"Í fréttaskýringu bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal (WSJ) er þessi sterka staða rússneska kjarnorkuiðnaðarins rakin til samkomulags, sem gert var árið 1993 og kallaðist "Úr megatonnum í megawött". Tilgangur samkomulagsins var að draga úr líkunum á því, að sovézk kjarnorkuvopn mundu falla í rangar hendur, en það fól í sér, að Bandaríkin keyptu 500 t af auðguðu úrani af Rússum og breyttu því í kjarnorkueldsneyti.
Þetta mikla magn af úrani var ígildi um 20 k kjarnaodda, og þótti samkomulagið því [vera] arðbært fyrir bæði Bandaríkjamenn og Rússa, þar sem Rússar fengu fjármagn og Bandaríkjamenn drógu mjög úr fjölda kjarnaodda, sem annars hefðu getað farið á flakk.
Vandinn samkvæmt greiningu WSJ var sá, að hið mikla magn kjarnaeldsneytis, sem nú var komið tiltölulega ódýrt á markaðinn, hafði áhrif á aðra framleiðendur, sem neyddust fljótlega til að rifa seglin. Áður en langt um leið sáu Rússar um nærri helming þess auðgaða úrans, sem var til sölu. Árið 2013 gerði Rosatom svo samkomulag við bandaríska einkaaðila um að veita þeim eldsneyti til kjarnaofna, og sjá Rússar því um allt að fjórðung þess [kjarnorku] eldsneytis, sem Bandaríkin þurfa.
Orkukreppan, sem blossaði upp í kjölfar innrásarinnar í fyrra [2022], ýtti einnig upp verði á kjarnaeldsneyti, og áætlaði Darya Dolzikova hjá brezku varnarmálahugveitunni RUSI nýlega, að bandarísk og evrópsk fyrirtæki hefðu keypt slíkt eldsneyti af Rússum fyrir rúmlega mrdUSD 1 árið 2022, á sama tíma og Vesturlönd drógu stórlega úr kaupum sínum á öðrum rússneskum orkugjöfum."
Hér veitir ekki af að taka hraustlega til hendinni. Vesturlönd verða að verða sjálfum sér næg með auðgað úran, sem hægt er að vinna áfram fyrir kjarnorkuverin á allra næstu árum. Ef takast á að auka umtalsvert hlutdeild rafmagns á markaðinum, sem ekki er framleitt með jarðefnaeldsneyti, verður að fjölga kjarnorkuverum verulega, og þar með mun spurn eftir unnu úrani vaxa. Það er ekki hörgull á því í náttúrunni á Vesturlöndum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)