Gengisfelling lýðræðis

Margir mætir menn hafa orðið til þess að andmæla kröftuglega ráðagerð ríkisstjórnarinnar um að innleiða forgangsreglu ESB-réttar á Íslandi og skipa þannig lýðræðislega samþykktum landsrétti á óæðri sess.  Í umræðunni hefur krystallazt, að lögfræðilega er þetta flaustur og flumbrugangur í utanríkisráðuneytinu og pólitískt verður dýrkeypt fyrir stjórnarflokkana að halda þessu til streitu.

  Nú reynir á pólitíska útsjónarsemi utanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins við að hverfa frá þessum fyrirætlunum. Það hlýtur að vera ankannalegt andrúmsloft í utanríkisráðuneytinu að fara á flot með þau ósköp, sem hér um ræðir, og einkennileg forgangsröðun hjá ríkisstjórninni að hleypa málinu áfram til Alþingis sem stjórnarfrumvarpi.  Slíkt vitnar um óbeysið pólitískt þefskyn nú, þegar stjórnin má illa við pólitískum "bommertum" og gengur hálfhölt fram á vígvöllinn.  

Sá, sem ötulast og mest hefur andæft málinu, er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur.  Með baráttu sinni hefur hann með vissum hætti bjargað andliti Sjálfstæðisflokksins og dregið úr tjóninu, sem utanríkisráðherra hefði ella getað valdið flokkinum á landsvísu.  Mörgum sjálfstæðismanninum finnst réttilega, að Arnar Þór hafi höfðað til grunngilda Sjálfstæðisflokksins með skrifum sínum og ræðum, og þeir skilja ekki, hvers vegna utanríkisráðherra leggur upp í vegferð, sem þeim þykir einboðið, að endi slysalega.  Arnar Þór Jónsson á þess vegna heiður skilinn fyrir að vekja enn og aftur athygli á þeim málstað, sem Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður um.  Hann var ekki stofnaður til að leiða kratísk viðhorf til öndvegis á Íslandi og þar með að leiða evrópskt "búrókrataræði" til valda á Íslandi í stað hefðbundins lýðræðis, þar sem löggjöfin endurspeglar hagsmuni almennings í landinu samkvæmt mati réttilega kjörinna þingmanna samkvæmt Stjórnarskrá landsins.

Þann 20. apríl 2023 birtist í Morgunblaðinu lærdómsrík grein eftir Arnar Þór Jónsson um þessi mál undir fyrirsögninni:

"Ætlar Alþingi að grafa undan sjálfu sér og gengisfella íslenzkt lýðræði ?"

Þetta er áreiðanlega á meðal róttækustu spurninga, sem sézt hafa á prenti frá varaþingmanni, enda er tilefnið ærið, og höfundi verður hugsað til endaloka þjóðveldisins með Gamla sáttmála.  M.v. "salami" aðferðina, sem fullveldið er beitt á okkar tímum, eru þessi hugrenningatengsl skiljanleg:

"Framangreind atriði [um Íslendinga handgengna Noregskonungi á 13. öld] eru nefnd hér, því [að] líkja má nýju frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35 við nútímaútgáfu af trúnaðareiðum fyrri tíma.  Verði frumvarpið að lögum, er í raun verið að gera lýðveldið Ísland handgengið ESB með því að setja Íslendinga undir ok EES-réttar og festa okkur í viðjum erlends valds. 

Brýnt er, að þingmenn og aðrir skilji þungann og alvöruna, sem að baki býr. Með samþykkt frumvarpsins væri Alþingi gengisfellt til frambúðar og íslenzkt lýðræði þar með líka. 

EES-rétturinn er enn vaxandi að umfangi, teygir sig stöðugt lengra, og regluverkið verður sífellt þyngra í vöfum.  Þetta umhverfi hentar illa íslenzkum fyrirtækjum, sem öll eru lítil/meðalstór á evrópskan mælikvarða.  Frumvarpið miðar að því marki að samstilla réttinn (þ. Gleichschaltung) á öllu EES-svæðinu. Ómögulegt er þó að segja, hvert þetta kann að leiða, því [að] ESB/EES-rétturinn hefur stöðugt verið að þenjast út og verið túlkaður á "dýnamískan" (lesist: pólitískan) hátt af hálfu dómstóls ESB. 

Þrátt fyrir þessi óljósu ytri mörk stöndum við hér frammi fyrir því, að réttur ESB/EES skuli hafa stöðu æðstu laga, m.ö.o. reglna, sem ekki má breyta og ætlað er að þjóna sem rammi utan um alla aðra lagasetningu með því að afmarka, hvað telst leyfilegt og hvað ekki."

Skyldi ekki mörgum sjálfstæðismanninum renna kalt vatn á milli skinns og hörunds við þennan lestur og þeirrar forsögu, að Alþingi hefur fengið þetta mál til umfjöllunar frá ríkisstjórninni, þar sem varaformaður flokksins fer með umráð málaflokksins ? Þetta mál er af slíkri stærðargráðu og getur haft slík áhrif á gengi Sjálfstæðisflokksins á meðal kjósenda, að þingflokkurinn verður að fá leiðsögn frá stofnunum flokksins og þá helzt æðsta vettvangi hans, Landsfundinum.  Þar til sú leiðsögn hefur fengizt, mundi utanríkisráðherra gera réttast í því að draga málið út úr þinginu um sinn.

"Ef Alþingi samþykkir frumvarpið og þar með forgang EES-réttar umfram íslenzk lög, má öllum vera ljóst, að ESB mun eftir það alls ekki sætta sig við, að Alþingi setji sérreglur, sem raska þeirri réttareiningu og þeirri rétthæð lagareglna, sem forgangsreglan miðar að. Með frumvarpinu er stefnt að því, að Alþingi geri Íslendinga ofurselda forgangsrétti EES-reglna, þrátt fyrir að þær eigi uppruna sinn hjá stofnunum ESB og þrátt fyrir að ESB hafi allt tangarhald á túlkunarvaldi um þessar reglur. 

Flutningsmenn og stuðningsmenn frumvarpsins, sem telja, að ESA og EFTA-dómstóllinn muni geta veitt ESB viðnám í því samhengi, sem hér um ræðir, hljóta að hafa óraunsæja sýn á styrk hinnar veiku EFTA-stoðar í EES-samstarfinu.  Annars gætu þau ekki með góðri samvizku stutt frumvarp, sem miðar að því að veikja grundvallarstofnanir og burðarstoðir okkar eigin lýðveldis." 

Eins og prófessor Stefán Már Stefánsson bendir á, er gengið of langt með forgangsréttarfrumvarpi utanríkisráðherra í niðurlægingu Alþingis og ögrun við eða öllu heldur broti á Stjórnarskrá.  Það er tvennt ólíkt að búa við það, eins og verið hefur, að ESA geri athugasemdir og Alþingi breyti þá íslenzkum lögum eftir atvikum til samræmis, enda sé breytingin ekki ögrun við Stjórnarskrá, eða að Alþingi gefi núverandi og framtíðar reglum ESB skefjalausan forgang umfram íslenzk lög. 

Meðal þess, sem einstakt er og óhagstætt fyrir landsmenn við EES-samninginn, er, að hann er undirorpinn stöðugum breytingum, sem ESB tilkynnir EFTA-ríkjunum í EES, að sambandið vilji láta gilda á öllu EES-svæðinu. Aldrei gerist hið gagnstæða. Ójafnræðið á milli ESB og EFTA er sláandi hér. 

EES-samningurinn var hugsaður sem biðleikur og aðlögun EFTA-ríkjanna að Evrópusambandinu áður en þau sæktu um aðild þar. Ekki er vitað til, að Ísland, Noregur og Liechtenstein sækist eftir aðild að ESB, og þess vegna er brýnt að endurskoða EES-samninginn til að auka jafnræði samningsaðila.  

 

   

   

 

 

 

 


Bloggfærslur 5. maí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband