Efnahagslíf í gíslingu

Nú er glímt við afleiðingar lausataka á peningamálum og ríkisfjármálum í Kófinu og síðan við gríðarlegar vöruverðshækkanir á alþjóðlegum mörkuðum vegna útrýmingarstríðs grimmra og yfirgangssamra villimanna í Rússneska ríkjasambandinu gegn sjálfstæðri þjóð Úkraínu.  Málstaður fasistastjórnarinnar í Kreml er engu betri en nazistastjórnarinnar í Berlín 1933-1945.  Hugmyndafræðin er keimlík, en verður hún upprætt með sigri úkrínska hersins á rotnum rússneskum her ?  Það er ólíklegt, og þess vegna m.a. er styrking hervarna NATO óumflýjanleg. Lönd varnarbandalagsins hafa flest sofið á verðinum gagnvart óargadýrinu í austri, en eru nú að ranka við sér. 

Ísland getur ekki skorizt þar úr leik, þótt ekki sé landið herveldi.  Nú um stundir er peningum til varnarmála bezt varið með fjármögnun á fjölþættri aðstoð við Úkraínumenn, sem nú úthella blóði sínu í þágu tilvistar þjóðarinnar og frelsis. Ísland hefur þegar farið inn á þessa braut og ætti að halda því áfram í samráði við Úkraínumenn og NATO.   

Fyrirtækin í landinu njóta flest mikillar eftirspurnar, en glíma við miklar kostnaðarhækkanir, ekki sízt við miklu meiri kostnaðarhækkanir vinnuafls en fyrirtæki erlendis.  Í þensluástandinu hafa þau getað varpað kostnaðarhækkunum út í verðlagið, og þetta ásamt hækkun erlends verðlags hefur valdið seigri verðbólgu hér nálægt 10 %.  Ef ekki tekst að vinna bug á þessari verðbólgu fljótlega, mun gengið gefa eftir, og þá verður fjandinn laus.  Fjandinn yrði líka laus með evru, því að þá yrði hér fjöldaatvinnuleysi, því að fyrirtækin færu á höfuðið.

  Gíslingin er fólgin í því, að það skortir skilning á því hjá stjórnmálamönnum og verkalýðsformönnum mörgum, að skattheimta og  og launakostnaður fyrirtækja hérlendis umfram það, sem tíðkast í okkar helztu viðskiptalöndum, gerir landið ósamkeppnisfært, sem leiðir til kollsteypu efnahagslífsins. 

Óli Björn Kárason, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, ritaði góða grein um verðbólguna o.fl. í Morgunblaðið 31. maí 2023 undir fyrirsögninni:

"Stærsta og erfiðasta verkefnið".

Þar stóð m.a.:

"Voru aðgerðir ríkissjóðs [í Kófinu] of viðamiklar ?  Kann að vera.  Lækkaði Seðlabankinn vexti of mikið ?  Það er hugsanlegt.  En allt er þetta eftir á speki.  Aðalatriðið er, að vörnin tókst, eins og sést vel á þeirri staðreynd, að í gegnum allt kófið jókst kaupmáttur launa. [Það er líklega einsdæmi og bendir til yfirskots - innsk. BJo.]  Seðlabankinn bendir á, að á undanförnum 3 árum, þ.e. frá upphafi farsóttarinnar, jókst kaupmáttur launa um að meðaltali 2 % á ári hér á landi, en til samnaburðar dróst hann saman um 1 % á ári í öðrum Evrópuríkjum og um 0,3 % í Bandaríkjunum."

Það var engin innistæða fyrir þessari kaupmáttaraukningu, og samkeppnisstaða landsins versnaði sem nam meiri falskri kaupmáttaraukningu hér en annars staðar. Þessi falska kaupmáttaraukning var reist á innistæðulausri seðlaprentun, aukningu peningamagns í umferð, og hún kyndir nú undir verðbólgu af meiri krafti hérlendis en víða annars staðar.  Seðlabankinn gekk of langt, ríkissjóður gekk of langt og sóttvarnaryfirvöld fóru hreinlega offari og skiluðu af sér neikvæðum árangri, sem lýsti sér í mun fleiri umframdauðsföllum  2020-2022 hér en í Svíþjóð, þar sem meira hófs var gætt. 

Með öðrum orðum: ríkisvald og þjóðþing brugðust algerlega.  Valdsækni ríkisins er bæði sjúkleg og hættuleg.  Borgurunum er fyrir beztu að reiða sig mest á sjálfa sig og takmarka vald ríkisins af fremsta megni.  Þar undir heyrir auðvitað skattheimtan.  Affarasælast er, að borgararnir haldi eftir sem mestu af sjálfsaflafé sínu.  Hlaupið hefur verið eftir skemmdarverkalöngun vinstra fólksins með skattlagningu sparnaðar.  Mikill sparnaður og lág verðbólga eru heilbrigðismerki á einu þjóðfélagi, en hér er gengið svo langt að skattleggja verðbætur, sem er líklega heimsmet í heimsku á sviði fjármálastjórnar ríkisvalds. 

"Heimilin og fyrirtækin nýttu sér góðan [hann ver ekki góður, heldur mikill-innsk. BJo] varnarleik á síðasta ári.  Hagvöxtur var 6,4 %.  Þetta er mesti hagvöxtur, sem mælzt hefur síðan árið 2007.  Vöxturinn var drifinn áfram af miklum vexti innlendrar eftirspurnar, sérstaklega einkaneyzlu, sem jókst um 8,6 % milli ára.  Í Peningamálum Seðlabankans kemur fram, að svo virðist sem hagvöxtur á 1. fjórðungi þessa árs [2023] hafi verið töluvert meiri en spáð var í febrúar [2023], og því er útlit fyrir, að hann verði meiri á árinu í heild eða 4,8 % í stað 2,6 %."

Þarna er einfaldlega verið að lýsa einkennum of hitaðs hagkerfis af völdum hagstjórnarmistaka ríkisvaldsins.  Rugluð stjórnarandstaða á Alþingi gagnrýndi helzt hinn afdrifaríka ofvaxna varnarleik ríkissjóðs fyrir að vera ekki nægur.  Ef Samfylkingin hefði verið við stjórnvölinn, væri verðbólguvandinn enn illkynjaðri en reyndin er, og verðbólgan væri jafnvel nær 20 % en 10 %.  Að kjósa slíkt krataafstyrmi, siglandi undir fölsku flaggi til ESB, til valda væri svo sannarlega að fara úr öskunni í eldinn fyrir borgarana, enda benti fjármála- og efnahagsráðherra nýlega á það í sjónvarpsumræðum (RÚV), að þar færi bara gamla Samfylkingin.  Nú þykist hún vera eitthvað annað en hún er.  Það er kallað að bera kápuna á báðum öxlum.

"Á síðasta ári [2022] er áætlað, að hallinn [á ríkissjóði] hafi verið 3,5 % af landsframleiðslu, sem er ríflega 4 % minna en á árinu á undan.  Batinn á síðasta ári var meiri en hann var að jafnaði á meðal annarra þróaðra ríkja, sem við berum okkur saman við.  Skuldir eru með því lægsta, sem þekkist, en eru sannanlega of miklar og fjármagnskostnaður of hár.  Sem hlutfall af landsframleiðslu verða skuldir hins opinbera hér á landi um 40 %, 83 % í löndum Evrópusambandsins." 

Efnahagslífið á Íslandi er í flestu tilliti á allt öðru róli en í Evrópusambandinu (ESB), og þess vegna yrði innganga Íslands í ESB að efnahagslegri byrði fyrir landsmenn. Þetta má í megindráttum skýra á einfaldan hátt:

  1. Atvinnuvegirnir eru ólíkt upp byggðir.  Hér standa auðlindir fiskistofna, orku og náttúru undir megintekjustofnum.  Fiskveiðar eru arðbærar og orkan er úr endurnýjanlegum orkulindum fallvatns og jarðhita.  Verkefnið er að auka verðmæti sjávarútvegsins með tækniþróun og að virkja svo mikið, að ekki hamli þróun atvinnulífs og orkuskpta, eins og nú er verkurinn. 
  2. Lýðfræðileg samsetning landsmanna er með allt öðrum og hagstæðari hætti en í ESB-löndunum.  Þar af leiðandi er meiri kraftur í hagkerfinu hér, og lífeyristryggingar eru að mestu fjármagnaðar með ævisparnaði í lífeyrissjóðum, en ekki með stórskuldugum ríkissjóðum, eins og yfirleitt í ESB.  Nú hefur lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna tilkynnt skerðingu lífeyris vegna aukins langlífis félaganna.  Einkennilegt er að bregðast við því með því að heimta bætur fyrir langlífið.  Ef um þokkalega heilsu er að ræða, er hækkandi dánaraldur fagnaðarefni.  Ef heilsan er bágborin, er ekki víst, að svo sé, og gríðarlegur kostnaður lendir þá á ríkissjóði.  Það verður að gæta að því að hlaða ekki óþarfa byrðum á hann.

 Það er engum vafa undirorpið, að með Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, í ríkisstjórn, t.d. forsætis- eða fjármála- og efnahagsráðuneyti, undanfarin ár, væru landsmenn ekki jafnborubrattir núna og þó er reyndin.  Það væri ekki rífandi gangur í hagkerfinu, því að hún hefði aukið skattheimtu á landsmenn og varið fénu í alls kyns gæluverkefni að hætti krata í borgarstjórn, þar sem sukkið hefur verið þvílíkt, að borgarsjóði liggur við greiðslufalli. Staða ríkissjóðs væri samt verri en núna, vegna þess að aukin skattheimta hægir á hagkerfinu, sem dregur stórlega úr eða étur upp ávinning fyrir ríkissjóð af hærri skattheimtu. 

Næst kom hjá Óla Birni það, sem skilur á milli feigs og ófeigs, Samfylkingar og sjálfstæðismanna, eins og berlega hefur undanfarið komið í ljós í sveitarstjórnum: 

"Það blasir við, að auka verður aðhald í fjármálum hins opinbera - ríkis og sveitarfélaga.  Við getum ekki hegðað okkur líkt og strúturinn og stungið hausnum í sandinn.  Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að útgjöld ríkissjóðs hafa hækkað að raunvirði um 39 % - að frátöldum vaxtagjöldum - frá árinu 2017 eða um liðlega mrdISK 346.  Þetta er liðlega mrdISK 10 hærri fjárhæð en áætlað er, að fari til heilbrigðiskerfisins á þessu ári [2023]; í sjúkrahús, heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, lyf og lækningavörur." 

Tæplega 6 % raunhækkun ríkisútgjalda á ári er ósjálfbær í þeim skilningi, að hún dregur svo mikið fé frá einkageiranum og heimilum, að þar verður lífskjararýrnun.  Ástæðan er sú, að þetta er miklu meiri hækkun en meðaltalshagvöxtur tímabilsins.  Mikill hluti þessarar hækkunar fór til heilbrigðiskerfisins, sem er skiljanleg afleiðing öldrunar þjóðarinnar, en þáttur í álagsaukningunni þar er einnig gríðarlegt aðstreymi erlendra ferðamanna og hælisleitenda.  Í fyrr nefnda hópinum eru margir gamlingjar í alls konar áhættuhópum fyrir heilsufar, og í síðar nefnda hópnum er heilsufarið í mörgum tilvikum bágborið, enda hefur sá hópur sjaldnast búið við frían aðgang að heilbrigðisþjónustu.  Útgjöld til heilbrigðismála vaxa stjórnlaust, og biðraðirnar vaxa stöðugt, hvort tveggja einkenni ríkisrekstrar, sem notandinn veit lítið um, hvað kostar.  Þetta er ekki beinlínis hvati til heilbrigðs lífernis landsmanna, enda er stór hluti ríkisútgjaldanna vegna lífstílssjúkdóma, sem hæglega hefði mátt komast hjá. Verkefnið er að finna lausnir til hagkvæmari rekstrar.  Það hefur ekki gengið vel á LSH, og til þess er heilbrigðisráðuneytið illa hæft.  Eina ráðið er að fela einkageiranum á þessu sviði fleiri verkefni, því að þar er einingarkostnaðurinn lægri og afköstin meiri með viðunandi gæðum.

"Breyttar aðstæður og verri þróun verðbólgunnar og þá sérstaklega auknar verðbólguvæntingar kalla á, að gripið verði til enn meira aðhalds í ríkisfjármálum en áður var talið nauðsynlegt.  Og til lengri tíma verður að vinna skipulega að því að lækka fjármagnskostnað ríkissjóðs, m.a. með sölu sölu ríkiseigna og niðurgreiðslu skulda."

Þetta er gott og blessað, svo langt sem það nær, en það tekur ekki á kjarna vandans, sem knýr innlenda verðbólgu áfram. Hann er sá, að launahækkanir í landinu hafa verið margfalt meiri hérlendis en erlendis og margfalt meiri en vöxtur landsframleiðslu á mann og þar með framleiðniaukningin. Frá aldamótunum 2000 hefur leitni aukningar landsframleiðslu á mann verið niður á við, er nú nálægt 0 og stefnir í mínus. Í stað þess að kryfja þetta mál til mergjar (leita orsaka) með Samtökum atvinnulífs og ríkisvalds stinga verkalýðsformenn hausnum í sandinn og heimta bara meiri launahækkanir, sem er nokkurn veginn það versta, sem þeir geta gert sínum skjólstæðingum við núverandi aðstæður.  Með hlutdeild vinnuafls af verðmætasköpun í toppi, eins og hér, munu allar launahækkanir aðeins fóðra verðbólgubálið, ef framleiðnivöxtur samfélagsins er nánast enginn.    

 

 


Bloggfærslur 14. júní 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband