23.6.2023 | 09:29
",,, þeir eru að mótmæla sjálfum sér."
Bullustampur í hópi verkalýðsformanna hefur farið í hlutverk "karlsins á kassanum" og valið Austurvöll Ingólfs Arnarburs sem vettvang til að veita lýðnum innsýn í þann hliðarveruleika, sem sálarháski getur leitt fólk út í. Þá afneitar það staðreyndum og býr til firrur, sem það kveður trompa viðtekin lögmál og staðreyndir. Allt er þetta hjákátlega sorglegt firruleikhús. Um þetta sagði Seðlabankastjóri í Morgunblaðsviðtali við Andrés Magnússon 8. júní 2023:
"Það er ekki hægt að breyta hagfræðilögmálum með því að halda mótmæli á Austurvelli." Þar með er formaður VR kominn á spjöld sögunnar með riddaranum sjónumhrygga, sem réðist á vindmyllur og taldi sig þá berjast við forynjur.
Fyrirsögn viðtalsins var viðspyrnuhugmynd Seðlabankastjóra gegn verðbólgu, sem væri vís leið til að kveða niður verðbólgu eftir næstu almennu kjarasamninga, enda fannst forseta ASÍ í góðu lagi að nota þetta viðmið á topplög ríkisins:
"2,5 % hækkun viðmiðið í samningum".
Seðlabankastjóri: "Ég hélt síðastliðið haust [2022], að verkalýðshreyfingin myndi átta sig á því, að það að ætla að elta verðbólguna í launahækkunum myndi leiða til vaxtahækkana. Það hlyti að vera alveg skýrt, en þannig fór það nú samt. Jafnvel sumir verkalýðsforingjar, sem voru mjög æstir yfir að geta ekki fengið meira. Nú vilja sömu foringjar halda útifundi til þess að mótmæla afleiðingum gerða sinna."
Albert Einstein sagði eitthvað á þá leið, að það væri einkenni heimskingja að gera 13 tilraunir í röð, breyta engu, en ætlast til gjörólíkrar niðurstöðu í þeirri seinni. Nú stefnir í, að íslenzk verkalýðshreyfing ætli að verða sú eina í Evrópu til að saga þá greinina, sem hún situr á. Seðlabankastjóri lagði til 2,5 % viðmið í næstu kjarasamningum, en það virðist ekki ætlunin að fylgja ráðum hans, heldur kveður forseti ASÍ gamla stefið um að elta verðbólguna, sem er stórskaðleg hugmynd, eins og dæmin sanna. Það vantar frjóa hugsun í steinrunna verkalýðshreyfingu.
"Já, og það var ákveðin meðvirkni í gangi [í síðustu kjarasamningalotu 2022-innsk. BJo]. Ríkissáttasemjari var hringjandi hingað til þess að hafa áhrif á Seðlabankann. Við ættum ekki að hækka vexti og helzt ekki [að] tjá okkur, af því að formaður VR væri ekki stöðugur í skapi og hlypi út af fundum, ef hann sæi eitthvað úr Seðlabankanum. Reyndu síðan að fresta vaxtaákvörðunarfundi o.s.frv. Það er ekkert annað en meðvirkni."
Það er fullkomlega eðlilegt, að upplýst sé með þessum hætti um samskipti tveggja embættismanna ríkisins, þjóna þjóðarinnar, þegar ekki er samkomulag um (tímabundna) þagnarskyldu. Fyrrverandi Ríkissáttasemjari hefði ekki átt að hlaupa í gönur vegna einhvers æsingaskíts á samningafundi. Seðlabankanum er algerlega óheimilt að fara að slíkum tilmælum úr Karphúsinu eða annars staðar frá. Líklega var verið að fara fram á lögbrot. Lýsingin er líklega dæmigert fyrir vinnubrögð núverandi formanns VR. Hann fer úr jafnvægi, þegar umhverfið, samningafundur, aðgerðir Seðlabanka eða annað, passar ekki við sýndarveruleika hans sjálfs. Bullið í honum stangast á við staðreyndir, efnahahslögmál og heilbrigða skynsemi. Hann virðist ófær til vitrænnar rökræðu og þá er undankomuleið hans að rjúka af fundi í fússi og skella hurð, ef hún býður upp á það. Ríkissáttasemjari hefði frekar átt að vísa þessum bullustampi út af fundi en að hlaupa eftir dyntum hans.
"Erlendis hafa launþegar að miklu leyti tekið á sig verðbólguna. Enn sem komið er hefur vinnumarkaðurinn [erlendis-innsk. BJo] ekki svarað verðbólgu með miklum launakröfum, sem hefur [þar] leitt til þess, að raunlaun hafa lækkað og verðbólga gefið eftir.
En hér [á Íslandi] hefur það ekki verið þannig. Hér hafa launin ekki lækkað, laun hafa hækkað í takti við verðbólgu, og verðbólgan er ekki að gefa eftir [þótt vísbendingar bendi til, að svo muni verða, ef skynsamlega er haldið á málum innanlands-innsk. BJo]. Það hefur þá leitt til þess, að við [Seðlabankinn] beitum þeim tækjum, sem við höfum.
Það ætti enginn að velkjast í vafa um það, að stýrivextirnir virka hjá okkur. Og hafa virkað. Við getum rétt ímyndað okkur, hvernig ástandið væri, ef við hefðum ekki hækkað vexti" [og ef beturvitinn Ragnar Þór Ingólfsson hefði ráðið stefnunni í peningamálum-innsk. BJo].
Sú mynd, sem Seðlabankastjóri dregur upp af ólíkri nafnlaunaþróun í okkar viðskiptalöndum og hér, er ískyggileg, því að hún mun fyrr en seinna leiða til veikingar gengisins. Sú þróun leiðir til verðbólgu og knýr Seðlabankann til að viðhalda hér háum stýrivöxtum. Gengið styrkist um þessar mundir (um miðjan júní 2023) vegna jákvæðs viðskiptajafnaðar við útlönd og hárra stýrivaxta. Af þessu sést ("som den observante læser umiddelbart ser"), að verkalýðshreyfingin á Íslandi á ekki annarra kosta völ en að haga sér með svipuðum hætti og Seðlabankastjóri lýsir, að hún geri erlendis, ef hún ætlar að forðast efnahagslega kollsteypu, sem verður alfarið skrifuð á Jóns Hreggviðssonar-eðli hennar. Þetta eðli getur komið sér vel, en getur verið sjálfstortímandi, ef því er beitt ranglega. Þetta eðli krefst góðs skynbragðs á umhverfið.
Þá spyr blaðamaðurinn, hvort Seðlabankastjóri hafi e.t.v. verið of hóflegur m.v. verðbólguþróun, sem orkar tvímælis m.t.t. þolmarka hagkerfisins:
"Algjörlega. Það er oft látið, eins og Seðlabankinn sé að skemma fasteignamarkaðinn með því að hækka vexti og þrengja lántökuskilyrði. Ókey, en ef við hefðum ekki gert það, hvað hefði þá gerzt ? Vandinn liggur í of litlu framboði, svo [að] þá hefði verðið hækkað enn frekar, væri kannski 30 % hærra fasteignaverð, og fólk gæti ekki keypt á því verði.
Vandamálið á fasteignamarkaði er skortur á framboði og of lítil eftirspurn. Bara hagfræði 101."
Sjálfsprottnir spekingar í hagfræði innan verkalýðshreyfingarinnar, sem loka eyrunum fyrir staðreyndum og "hagfræði 101", af því að þeir lifa í hliðarveruleika, sem er stórhættulegt fyrir skjólstæðinga þeirra og hefur eyðileggjandi áhrif á hagkerfið allt, þurfa að svara spurningu Seðlabankastjóra um það, hvernig efnahagsástandið væri nú, ef kröfu þeirra um að hækka ekki stýrivextina hefði verið hlýtt. Að öðrum kosti ættu þeir að hafa hljótt um sig og helzt að láta sig hverfa.
"Við getum vel náð verðbólgu niður með þeim tækjum, sem við höfum, bæði í peningamálum og fjármagnsstöðugleika. En það gæti hefnt sín með niðursveiflu. Sérstaklega ef við erum að fá launahækkanir ofan í vaxtahækkanir, eins og sumir verkalýðsforingjar hafa hótað. Þá munum við fá yfir okkur kreppuverðbólgu, sem væri versta niðurstaðan."
Sumir verkalýðsleiðtogar gangast upp í því að berja sér á brjóst og gefa út digurbarkalegar yfirlýsingar um að "verja kaupmáttinn". Í stuttu máli vita þeir ekkert, hvað þeir eru að segja. Þeir eru ekki starfi sínu vaxnir og misskilja hlutverk sitt í grundvallaratriðum. Þeim er fyrirmunað að greina viðfangsefnið og leita raunhæfra lausna í anda starfssystkina sinna á hinum Norðurlöndunum og vítt og breitt um Evrópu. Íslenzkir verkalýðsformenn, sem ætla að kveikja hér verðbólgubál og valda um leið kreppu og fjöldaatvinnuleysi, eru eins ófaglegir í sinni nálgun viðfangsefnisins og hugsazt getur.
Síðan snupraði Seðlabankastjóri furðudýrið á formannsstóli VR:
"Það er ekki hægt að breyta hagfræðilögmálum með því að halda mótmæli á Austurvelli."
Það er hvorki hægt að breyta einu né neinu með því, en sjálfumglaðir furðufuglar geta galað þar fyrir egóið sitt.
Að lokum kom Seðlabankastjóri með athyglisverða tillögu fyrir komandi kjarasamninga, og það var eins og við manninn mælt. Hún fór öfugt ofan í verkalýðsformenn, sem botna ekkert í stöðu hagkerfisins:
"Raunar tel ég, að þessi stefna, sem var mörkuð með því að lækka kauphækkanir æðstu embættismanna, sé orðin stefnumarkandi fyrir marlaðinn í heild. Það voru verkalýðsleiðtogar, sem báðu um þetta og fengu; þá hlýtur að vera eðlilegt, að það verði línan upp úr og niður úr."
Verkalýðsformenn gætu átt það til að sýna orðhengilshátt og snúa út úr þessu og miða við meðaltals krónutöluhækkun til þingmanna og æðstu embættismanna í næstu samningum. Það væru þó óviturleg vinnubrögð. Það þarf að finna út, hvað útflutningsgreinarnar þola mikla hækkun launakostnaðar síns, án þess að hún veiki samkeppnisstöðu þeirra, en ekki í barnslegri öfund að horfa á hækkanir til annarra eða verðbólguna.
Bloggar | Breytt 24.6.2023 kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)