Skaðlegt undanhald VG í nýtingarmálum auðlinda

Í Vinstri hreyfingunni grænu framboði hafa s.k. "sófakommar" undirtökin, fólk án jarðsambands eða tengsla við verðmætasköpun þjóðarinnar úr auðlindum lands og sjávar. Þetta fólk ber ekkert skynbragð á það, hvað þarf til að skapa framúrskarandi lífskjör.  Sumir líta jafnvel góð lífskjör hornauga, gangast upp í andstöðu við einkabílinn og núverandi neyzlustig, sem þeir telja ósjálfbært fyrir jörðina.  Þeim er mikið niðri fyrir vegna spádóma Grétu Thunberg, Loftslagsráðs SÞ (IPCC) og Loftslagsráðs Íslands um, að heimurinn verði brátt á vonarvöl vegna gastegundar, sem nærir allan jurtagróður jarðar (CO2). Það er hægt að taka ýmsa trú. 

Þetta fólk beitir sér af hörku gegn nýjum virkjunum og hefur nú tekizt að draga úr hagvexti og valda orku- og aflskorti, sem hægir á orkuskiptum og veldur auknum, óþarfa bruna jarðefnaeldsneytis.  Fulltrúi þessa sértrúarhóps og svefngengla í ríkisstjórninni, Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, sýndi hug sinn til verðmætaskapandi atvinnustarfsemi og alþýðu, sem leitar í uppgrip (2 MISK/mán), með því að grípa hálmstrá frá reynslulitlu fólki af hvalveiðum á vegum Matvælastofnunar, sem hún stjórnar milliliðalaust, til að þóknast afturhaldssömum viðhlæjendum sínum, sem aðeins þekkja þó hvalveiðar af afspurn. 

Morgunblaðið setti málið í rétt samhengi í leiðara 22. júní 2023.  Íslendingar stunda auðlindanýtingu á grunni beztu fáanlegrar þekkingar á hverju sviði.  Þess konar nýting er óaðskiljanlegur hluti fullveldisréttar landsins.  Ef á að hverfa af þessari braut undan þrýstingi þröngsýnna bullustampa og æsingaseggja, sem sjá ekki heildarmyndina, þá er um að ræða hættulegt fordæmi, sem valda mun miklum vandamálum.  

"Til þessa hafa rannsóknir ekki bent til þess, að hvalveiðar hafi slæm áhrif á íslenzkt efnahagslíf;  engar vísbendingar [eru] um, að þær dragi úr ferðalögum útlendinga til landsins, og sjávarlíffræðingar Hafrannsóknastofnunar telja þær [vera] sjálfbærar.  Óttist menn, að veiðiaðferðirnar samrýmist ekki lögum um dýravelferð, ber að hyggja að því, en um leið má ekki ímynda sér, að veiðar verði stundaðar með silkihönzkum." 

Veiðiréttarhafinn hefur fjárfest talsvert í veiðibúnaðinum og hefur fylgt tækniþróuninni á þessu sviði.  Hann hefur lýst vilja til, að veiðarnar fari aðeins fram við beztu aðstæður, í birtu og tiltölulega sléttu sjólagi.  Ráðherrann gerir þveröfugt.  Hún bannar veiðarnar á öruggasta tímanum. 

Veiðarnar fara fram undir vísindalegri ráðgjöf, eru sjálfbærar og til þess fallnar að bæta jafnvægi lífríkisins í sjónum.  Skýrsla fagráðs Matvælastofnunar er í andstöðu við nýlegt álit Matvælastofnunar.  Þetta fagráð er vanhæft og alls ekki aðili að málinu gagnvart ráðuneytinu.  Ráðherrann gerðist sek um að vanrækja rannsóknarskyldu sína, og slíkt hefur Hæstiréttur dæmt sem alvarlegt brot ráðherra.  Hún fékk skýrslu fagráðs í hendur 19.06.2023 og bannaði á grundvelli hennar veiðar 20.06.2023, sem áttu að hefjast 21.06.2023.  Henni bar lögum samkvæmt að óska eftir formlegri afstöðu Matvælastofnunar og kanna afleiðingar, t.d. fjárhagslegar, af banni.  Allt þetta vanrækti hún, og það er brottrekstrarsök. 

Ráðherrann fer fram með offorsi og beitir afkáralegum málflutningi um, að hvalir eigi sér enga málsvara, nema ríkisvaldið.  Hvert leiðir þessi málflutningur ?  Á að banna laxveiðar, þar sem laxinn heyr sitt langvinna dauðastríð upp og niður ána og er síðan sleppt helsærðum í kjafti ?  Nú eða fiskveiðar, þar sem, óháð tegundum og veiðtitækjum, fiskar bíða meira eða minna langvinnan og líklega kvalafullan dauðdaga.  Ætlar Svandís Svavarsdóttir að útvíkka sinn fráleita málflutning um skort á umboðsmönnum veiðidýra til fiskveiðanna, sem hún þess vegna mundi vilja banna ? Að óbreyttu kæmist hún ekki upp með það, en á hún að komast upp með að taka eina tegund veiðidýra fram yfir aðrar til að vernda, að því er virðist í krafti stærðarinnar ?  Það væri þá löglaust og siðlaust.  Þessi ráðherra er óhæfur og ætti að sjá sóma sinn í að taka pokann sinn, en slíkt er afar sjaldséð á meðal kommúnista.   

"Ákvörðun Svandísar bar upp [á] sama dag og friðunarseggurinn [og ófriðarseggurinn-innsk. BJo] Paul Watson boðaði komu sína á Íslandsmið, en hann þakkar sér að sjálfsögðu það, að ráðherrann hafi lúffað.  Það er hneisa, að íslenzka ríkið virðist láta undan hótun löglausra aðgerðasinna. 

 

Verra er, að þar eru miklu meiri hagsmunir lagðir að veði.  Ekki hvalveiðarnar, sem litlu skipta efnahagslega, þó [að] skeytingarleysi ráðherrans um lífsviðurværi launafólks veki undrun, heldur réttur Íslendinga til hagnýtingar náttúruauðlinda landsins okkar og hafsins umhverfis það. 

Nú þegar hafa alþjóðleg náttúruverndarsamtök gert athugasemdir við fiskveiðar almennt, þ.á.m. við Ísland, þó [að] allir þeir, sem til þekkja, viðurkenni, að hvergi í heiminum séu fiskveiðar í hafinu stundaðar af meiri ábyrgð; án rányrkju og án ríkisstyrkja við sjávarútveg."  

Þannig er þetta mál miklu stærra en virðist við fyrstu sýn og frumhlaup ráðherrans þaðan af skaðlegra.  Þetta er grundvallarmál, þar sem afturhaldssinnar undir merkjum dýravelferðar og sýndargóðmennsku vega að undirstöðum mannlífs í landinu og lífsafkomu.  Afglöp ráðherra VG verður að skoða í þessu ljósi.  Ráðherra, sem sýnir af sér slíkan dómgreindarskort sem þennan, verður að hverfa úr stjórnarráðinu.  Farið hefur fé betra.   

 

 

  


Bloggfærslur 28. júní 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband