Verkalýðshreyfingin

Hérlendis er stjórnarskrárvarið félagafrelsi sniðgengið með ýmsum kúnstum, sem jafngilda í raun skylduaðild að verkalýðsfélögum.  Fyrir vikið eru verkalýðsfélög orðin fjármagnseigendur, sem sitja á digrum sjóðum.  Þessu er allt öðruvísi varið víðast hvar á Vesturlöndum, þ.á.m. á hinum Norðurlöndunum, þar sem félagafrelsið er virt. Þróun verkalýðshreyfingarinnar virðist hafa orðið með heilbrigðari hætti á hinum Norðurlöndunum en hér, svo að hún hefur tileinkað sér önnur og nútímalegri vinnubrögð í samskiptunum við atvinnurekendur, t.d. í samningum um kaup og kjör.  Hér er verkalýðshreyfingin einfaldlega föst í fornu fari upphrópana og átaka í stað vitrænnar, heildrænnar nálgunar hagsmuna launafólks, t.d. við gerð kjarasamninga.   

Verkalýðshreyfingar Vesturlanda komu margar hverjar til skjalanna um svipað leyti og rússneska byltingin átti sér stað 1917. Kommúnisminn þar var ætlaður til að verja hagsmuni smælingjanna og lyfta lífskjörum verkafólks upp á kostnað yfirstéttarinnar.  Í Rússlandi hafði zarinn verið einvaldur frá 16. öld, og valddreifing frá honum til aðalsins átti sér aldrei stað, en á Vesturlöndum leiddi sú valddreifing smám saman til þingræðis í þeirri mynd, sem við þekkjum nú. Eftir byltinguna, þar sem zarinn var drepinn og pótintátar kommúnistaflokksins urðu hin nýja yfirstétt í Ráðstjórnarríkjunum, hlaut þess vegna að koma fram nýr zar, og sá hét Jósef Stalín. Sá rak skefjalausa heimsvaldastefnu undir merkjum kommúnismans og "frelsun verkalýðsins" í öðrum löndum.  Hann beitti moldvörpum hliðhollum kommúnismanum til að grafa undan ríkisstjórnum, t.d. í Evrópu, og þegar þar var komið á öngþveiti, sendi hann Rauða herinn inn til að hernema viðkomandi land, t.d. Úkraínu, og þannig var ætlunin að fara með hin Austur-Evrópulöndin og Þýzkaland, sem var í sárum eftir Heimsstyrjöldina fyrri og afar íþyngjandi byrðar "friðarsamninganna" í Versölum 1919. 

Þetta tókst hinum grimma zar við lok Heimsstyrjaldarinnar síðari, þegar landamæri í Austur-Evrópu voru færð til vesturs og Þýzkalandi var skipt upp í hernámssvæði.  M.v. framgöngu Rauða hersins í Vetrarstríðinu 1939-1940 og gegn Wehrmacht 1941-1945 má telja líklegt, að án gríðarlegra tækja-, hergagna og vistflutninga frá Bandaríkjunum til Ráðstjórnarríkjanna (Murmansk) í stríðinu hefði framvindan á austurvígstöðvunum orðið með öðrum hætti en raunin varð, svo að ekki sé minnzt á loftárásir Bandamanna á Þýzkaland, sem drógu úr framleiðslugetu Þriðja ríkisins, sem var þó ótrúlega mikil neðanjarðar.  

Lengi vel litu forkólfar íslenzku verkalýðshreyfingarinnar á Ráðstjórnarríkin sem hið  fyrirheitna land verkalýðshreyfingarinnar hérlendis, en fóru þar algerlega villur vegar og voru í raun leiksoppar heimsyfirráðastefnu, sem bar alls enga umhyggju fyrir verkalýðnum, en sá þar nytsama sakleysingja til að nota við valdarán. Þetta var upphaf íslenzkrar verkalýðsbaráttu, og enn er hún illa haldin af fjarstæðukenndri hugmyndafræði um stéttastríð verkalýðs gegn auðvaldi í stað þess að líta raunhæft á viðfangsefnið, sem er að finna sameiginlegan grundvöll með fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisvaldi til að tryggja launþegum atvinnuöryggi og sjálfbæra (samkeppnishæfa) hlutdeild í verðmætasköpuninni. 

Þann 1. maí 2023 birtist athygliverð forystugrein í Morgunblaðinu um verkalýðs- og atvinnumál undir fyrirsögninni:

"Raunsæið ræður, ekki ræðuhöldin".

Þar stóð m.a.:

"Svo [að] horft sé á stöðuna úr hinni áttinni, frá atvinnulífinu, sést, að hlutfall launa og launatengdra gjalda af verðmætasköpun er hvergi á [hinum] Norðurlöndunum jafnhátt og hér á landi.  Þetta felur í sér, að launþegar fá meira í sinn hlut hér en þar, og er þá ekki verið að miða við fátæk ríki, heldur mestu velmegunarríki veraldar.  Þetta hefur verið atvinnulífinu hér á landi afar þungt, enda þarf ákveðið jafnvægi að vera í þessum efnum, til að hægt sé að viðhalda framleiðslutækjum og almennt kröftugu atvinnulífi, en launþegahreyfingin gæti í það minnsta talið þetta góðan árangur baráttu sinnar." 

Sú stærð (verðmætasköpun) og skipting hennar á milli launþega (verkalýðs)  og atvinnurekenda (auðvalds) eru lykilatriði þessarar umræðu. Það eru atvinnurekendur og fjármagnseigendur), sem hafa með fjárfestingum sínum í nýrri tækni frá lokum 19. aldar (vélbátaútgerð) og fram á þennan dag gert launþegunum kleift að auka framleiðni launamanna.  Erfiði vöðvaaflsins hefur minnkað og vélaraflið tekið við; fyrst knúið af jarðefnaeldsneyti (1. orkubylting) og síðan af rafmagni (2. orkubylting), sem framleitt var og er í sjálfbærum virkjunum landsmanna. Með 3. orkubyltingunni var húshitunarkostnaður landsmanna, launþega, atvinnurekenda og fjármagnseigenda, lækkaður verulega með nýtingu jarðhita.  Með 4. orkubyltingunni verður svo jarðefnaeldsneyti leyst af hólmi í samgöngutækjum og vinnuvélum, og þar með sparaður mikill gjaldeyrir, sem mun styrkja gengið, öllum til hagsbóta. 

Á Íslandi fá launþegarnir um 2/3 af verðmætasköpuninni í sinn hlut og atvinnurekendur um 1/3. Þessi skipting er of ójöfn í tvennum skilningi.  Atvinnurekendur hafa úr hlutfallslega minnu að moða en samkeppnisaðilar erlendis, og þess vegna er getan til nýsköpunar og fjárfestinga í tæknivæðingu og sjálfvirknivæðingu minni hér en erlendis, sem leiðir til hærri framleiðslukostnaðar hér, sem á endanum leiðir til gjaldþrots, verðlagshækkana innanlands eða gengissigs, en launþegarnir míga í skóinn sinn og njóta skammvinns aukins kaupmáttar, þar til verðbólgan étur hann upp.

Þetta hafa stéttastríðsrekendur verkalýðshreyfingarinnar ekki viljað viðurkenna og heimta þar af leiðandi stöðuga hækkun þessa hlutfalls og hafa nú ratað í ógöngur. Færa verður verkalýðsbaráttuna hérlendis inn í nútímann með aflagningu stéttastríðshugarfars og ítarlegri umræðu um kjörhlutfall skiptingar verðmætasköpunar fyrirtækjanna á næstu árum, þ.e. hlutfall, sem tryggir sjálfbærar lífskjarabætur til lengdar. 

"Loks geta forystumenn launþegahreyfingarinnar í dag fagnað því, að varla finnst meiri launa- eða lífskjarajöfnuður en hér á landi, þó að stundum mætti ætla af pólitískri umræðu, að því sé öfugt farið.  Mælingar á jöfnuði hafa ítrekað staðfest, að fullyrðingar um mikinn ójöfnuð eiga ekki við nein rök að styðjast." 

Þetta er hverju orði sannara og eru meðmæli með þessu þjóðfélagi, þótt verið geti, að of langt hafi verið gengið í þessum efnum, því að launamunur er hvati til að gera betur og leita sér eftirsóttrar sérhæfingar. Það er t.d. váboði, að hagvöxtur er hvergi minni á hvern íbúa innan OECD en á Íslandi.  Það er of lítill kraftur í hagkerfinu vegna of lítilla fjárfestinga, afar lítilla beinna erlendra fjárfestinga og íslenzk fyrirtæki hafa ekki bolmagn í núverandi hávaxtaþjóðfélagi og með skiptingunni 2/3:1/3 á verðmætasköpuninni, sem er líklega heimsmet. Þetta er ósjálfbær skipting auðsins.  Fyrirtækin bera of lítið úr býtum fyrir sitt framlag, sem er fjármagn, þekking (starfsfólk leggur líka til þekkingu), öflun aðfanga og markaðssetning vöru eða þjónustu. 

Stéttastríðspostularnir sífra af gömlum vana þvert gegn staðreyndum um misskiptingu auðs í samfélaginu og benda þá gjarna á há laun stjórnenda og eigenda. Þessir postular skilja ekki gangverk hagkerfisins og vita lítið um, hvernig launamuni er varið erlendis, enda forpokaðir heimaalningar í flestum tilvikum.  Reyndar er síður en svo einhugur í hinni þröngsýnu verkalýðshreyfingu um launajöfnuð á milli starfsgreina.  Þar skoðar hver og einn eigin nafla.  Hvers vegna tíðkast hið alræmda "höfrungahlaup" ?  Það er vegna þess, að þeim, sem stunda sérhæfð störf, sem spurn er eftir á markaðinum, finnst launabilið ekki lengur endurspegla verðmætamun starfanna. Það er auðvitað ófært, að þjóðfélagið (vinnumarkaðurinn) refsi þeim, sem leita sér menntunar, með lægri ævitekjum en hinum. Það flækir þó málið, að menntun er mjög misverðmæt að mati markaðarins (eftirspurnarinnar).  Það er fagnaðarefni, að nú er uppi viðleitni í þá átt að efla iðnmenntun og beina tiltölulega fleiri nemendum í þá átt, enda mikill hörgull í flestum iðngreinum. 

Í pólitíkinni þrífst ákveðið sérlundað og sjálfsupphafið fyrirbrigði, sem kallar sig Samfylkingu.  Það hefur borið meginábyrgð á stjórnun Reykjavíkurborgar undanfarinn áratug og að nokkru frá 1994 eða í um 3 áratugi, er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð borgarstjóri. Auðvitað er nú allt komið í hönk í Reykjavík vegna óstjórnar, enda er þessi pólitíska sneypa algerlega ábyrgðarlaus í stefnumörkun og framkvæmd. Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var drepið á þetta:

 "Á það hefur verið bent árum saman, að Reykjavíkurborg reki ranga og stórskaðlega stefnu í húsnæðismálum, þar sem öll áherzla er lögð á þéttingu byggðar og þar með á dýra kosti, sem um leið taka langan tíma.  Þetta hefur leitt af sér íbúðaskort, sem svo magnast upp við þessa miklu fjölgun íbúa, sem landsmenn horfa nú upp á. Þá verður ekki fram hjá því litið, að með nánast óheftri komu hælisleitenda hingað til lands og gríðarlegum fjölda þeirra misserum saman, verður ástandið á fasteignamarkaði enn erfiðara.

Nú er svo komið, að það er meiri háttar vandamál, sem verður tæpast leyst með því einu að auka framboð húsnæðis.  Óhjákvæmilegt er, að stjórnvöld nái tökum á ástandinu á landamærunum og fari að stjórna því, hverjir setjast hér að.  Takist það ekki, verður ástandið á húsnæðismarkaði langtímavandamál, sem mun ýta undir verðbólgu og rýra lífskjör launafólks."

Það er auðvitað dæmigert, að Samfylkingin virðist vilja hafa landamærin opin upp á gátt fyrir hælisleitendur, einnig efnahagslegt flóttafólk undan eymd jafnaðarstefnunnar, þar sem hún er rekin ómenguð, og heitir þá víst sósíalismi, t.d. í Venezúela um þessar mundir.  Þingmenn Samfylkingar (og hjáleigunnar (pírata) tryllast af bræði, ef Útlendingastofnun vinnur vinnuna sína og vísar slíku fólki úr landi.  Samt er ekki nóg með, að húsnæði vanti fyrir allan þennan fjölda, heldur eru skóla- og heilbrigðiskerfið oflestuð og ráða ekki lengur við að veita almennilega þjónustu.  Það er alveg sama, hvar klóför Samfylkingarinnar sjást; þar skal ríkja öngþveiti.     

 

     

    


Bloggfærslur 5. júní 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband