8.6.2023 | 10:24
Ráðstjórn innan verkalýðshreyfingar
Bezta dæmið um tímaskekkju og stöðnun stéttastríðshugarfarsins fæst með því að líta til verkalýðsfélagsins Einingar. Þar virðast Stalínistar hafa náð völdum og haga sér að vonum dólgslega í vinnudeilum og í samskiptum við starfsfólk verkalýðsfélagsins. Ofstækisfólkið dregur dám af afleitum fyrirmyndum sínum úr Austurvegi. Skrifstofudrama Einingar sýnir svart á hvítu, að stéttastríðspostularnir bera ekki hagsmuni launamanna fyrir brjósti, heldur heldur beita þeim fyrir sinn hugmyndafræðilega hestvagn af ófyrirleitni.
Eining er með á sínum snærum einn prófessor emeritus úr HÍ, sem er alræmdur fyrir óvandaða talnameðferð sína, enda fúskari í þeim efnum. Slík talnameðferð, reist á sandi, er síðan höfð að leiðarljósi í kröfugerð á hendur vinnuveitendum. Þessi vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur, en það þjónar stefnu formannsins um launakröfur út í loftið til að skapa öngþveiti á vinnumarkaði.
Þann 15. maí 2023 birtist frétt í Morgunblaðinu um vinnubrögð stalínískrar forystu Eflingar undir fyrirsögninni:
"Þetta ástand er bara ekki í lagi".
Hún hófst þannig:
"Ég fæ alveg að heyra það, að ég sé bara fúl yfir að hafa verið rekin", segir Elín Hanna Kjartansdóttir, félagsmaður í Eflingu, þegar hún er spurð, hvort hún sé í herferð gegn stjórn Eflingar. Elín er fyrrverandi bókari félagsins og ein þeirra, sem fóru í mál við Eflingu á sínum tíma. Hún segir aðalfund félagsins 4. maí sl. [2023] sýna, að gagnrýni og athugasemdir við störf stjórnarinnar eigi ekki upp á pallborðið og stjórnin sé búin að hlaða í kringum sig litlum hópi stuðningsmanna og breytingar, eins og nýafstaðin úrsögn úr Starfsgreinasambandinu, séu knúnar í gegn með undir 5 % stuðningi félagsmanna."
Viðhorf forystunnar, sem þarna er lýst, lýsir afkáralegri afstöðu til félagsmanna. Forystan þykist geta ráðskazt með félagið að eigin geðþótta, og það er fjarri henni, að henni beri lýðræðisleg skylda til að þjóna félagsmönnum. Téð úrsögn úr Starfsgreinasambandinu var hefndaraðgerð í garð þeirra, sem riðu á vaðið með samningsgerð við vinnuveitendur í kjarasamningalotunni veturinn 2023. Þá hugðist þessi forneskjulegi formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, blása til stórátaka á vinnumarkaði, nokkuð sem er það alheimskulegasta og fjærst hagsmunagæzlu við skjólstæðinga verkalýðshreyfingarinnar, sem nokkur formaður í verkalýðsfélagi getur látið sér detta í hug að taka sér fyrir hendur.
"Þegar reikningarnir [ársreikningur 2022] voru komnir á vefinn, sá Elín strax, að enginn tími var til þess að kynna sér þá í þaula, en hún renndi hratt yfir skýrsluna. Hún segir, að hún hafi strax rekið augun í það, að ekki stafkrókur var um hópuppsagnirnar 2022 né dómstólamálið fyrir uppsögnina á trúnaðarmanni og dómana, sem féllu í málum þriggja félagsmanna, sem sagt var upp. "Þetta var bara eins og sovézk sögufölsun", segir hún og ákvað að leggja fram bókun og mæta á aðalfundinn."
Þessi frásögn lýsir afspyrnu ómerkilegu fólki og fullkominni lágkúru, sem nú ríkir í stjórn verkalýðsfélagsins Eflingar, og þetta fólk svífst einskis, er siðblint, því að það neitar að horfast í augu við afleiðingar gerða sinna og reynir að afmá þær úr sögu félagsins, en það er auðvitað einhvers konar strútsheilkenni og lýsir fullkomnu dómgreindarleysi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)