Vanhæfur talsmaður

Talsmaður fagráðs Matvælastofnunar um dýravelferð hefur gert sig breiðan í fjölmiðlum og greinilegt, að hann setur sig á stall sem betri og siðlegri en gerist um alþýðu manna, a.m.k. á meðal þeirra, sem eru á móti að því er virðist fyrirvaralausu og löglausu sparki ráðherra í löglegan atvinnurekstur, sem hefur í för með sér stórtjón fyrir fyrirtækið og starfsmenn þess.  Þessi aðför ríkisvaldsins að alþýðu manna er með öllu ólíðandi og siðlaus, því að þetta er valdníðsla.    

Siðfræðingur (er það ekki einhvers konar heimsspekingur ?) fór fyrir fagráðinu, sem allri vitleysunni hratt af stað hjá ráðuneytinu, og komið hefur til hnútukasts á milli hans og forstjóra fyrirtækisins, sem varð fyrir sparki Svandísar Svavarsdóttur.  Morgunblaðið gerði þessum þætti skil með frétt 24. júní 2023 undir fyrirsögninni: 

"Siðfræðingur fór á límingunum".

Fréttin hófst þannig:

""Siðfræðingurinn fór algerlega á límingunum.  Hann á því greinilega ekki að venjast, að einhverjir séu ekki sammála áliti hans, sem sýnir kannski, hvert hann og Háskóli Íslands eru komnir í þessum málum", sagði Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf, í samtali við Morgunblaðið.  

Kristján var spurður um, hvernig hann brygðist við ummælum Henrys Alexanders Henryssonar, siðfræðings við HÍ, talsmanns fagráðs Matvælastofnunar, sem brást þannig við ummælum Kristjáns í Morgunblaðinu sl. fimmtudag, að þar fullyrti Kristján nokkuð án þess að hafa gögn, sem styddu það."

Siðfræðingurinn, sem þykist stjórnast af rökhugsun, er á valdi tilfinninganna og fer með rangt mál. Hann er ótrúlega siðblindur að vera með fullyrðingar um málflutning Kristjáns, sem augljóslega eru rangar.  Siðleysi hans lýsir sér í því að sjá ekki í hendi sér, að hann er bullandi vanhæfur til setu í þessu fagráði vegna ítrekaðra opinberra yfirlýsinga, sem bera megnri andúð hans á hvalveiðum vitni.  Síðan bítur siðfræðingurinn hausinn af skömminni með fullyrðingum um, að forstjóri Hvals geti ekki sýnt fram á gögn um þetta.  Téð frétt snýst um, að forstjóri Hvals hrekur þá fullyrðingu siðfræðingsins rækilega, svo að siðfræðingurinn stendur ómerkur orða sinna eftir. 

"Segir hann [Kristján], að Henry Alexander hafi ritað a.m.k. 3 skoðanagreinar, sem birtust í fjölmiðlum.  Hann hafi einnig flutt erindi og tekið þátt í pallborðsumræðum á fundi Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem bar heitið: "To whale or not to whale".  Kristján segir, að í Vísi 30. janúar 2019 hafi birzt pistill með yfirskriftinni: "Ættum við að veiða hvali", en þar bregst Henry Alexander við skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ um hvalveiðar m.a. með þessum orðum: "Slíkt viðhorf var fyrirsjáanlegt.  Maður hefði líka gizkað á jákvætt svar, hefði stofnunin verið spurð um miðja 19. öld, hvort þrælahald væri hagkvæmt.  Í báðum tilvikum er spurningin ekki sú rétta.  Umræða um hvalveiðar hefur lítið sem ekkert með hagkvæmni þeirra að gera í samtímanum; spurningin, sem umræðan leitar alltaf að lokum í, er, hvort skotveiðar á þessum sjávarspendýrum séu siðferðilega réttlætanlegar."  Og  síðar segir Henry Alexander:"Persónulega tel ég, að tími sé kominn til að leyfa umræðunni um mögulegar hvalveiðar Íslendinga að færast nær siðferðilegri hlið spurningarinnar.""

Það fer ekkert á milli mála, að téður siðfræðingur var búinn að móta sér skoðun um hvalveiðar og láta hana í ljós opinberlega áður en hann tók sæti í þessu fagráði og tók til við að fjalla þar um hvalveiðar.  Það er dómgreindarleysi að átta sig ekki á, að með þessu varð hann vanhæfur til að taka sæti í þessu fagráði, og síðan þrefaldar siðfræðingurinn skömm sína með því að viðurkenna þetta ekki, þegar honum er bent á það, og fullyrða, að engin gögn styðji vanhæfni sína.  

Siðfræðingurinn setur sig skör ofar en samferðarmenn sína og telur sig geta greint á milli rétts og rangs út frá einhverju siðferðilegu viðmiði.  Þetta er tóm hræsni, því að siðferðileg viðmið eru í mörgum tilvikum afstæð og háð huglægu mati. Þannig finnst siðfræðinginum viðeigandi að líkja fólki, sem hneppt var í þrælahald á 19. öld, við hvali á 21. öld.  Höfundi þessa pistils þykir þetta aftur á móti afar óviðeigandi og í raun ótækur málflutningur.  Sannast þar hið fornkveðna, að sínum augum lítur hver á silfrið. 

 


Bloggfærslur 1. júlí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband