10.7.2023 | 09:52
Lítið lagðist fyrir drottninguna af Kviku
Hvar gerist það í raunhagkerfinu, að MISK 3 verði að MISK 104 á um 2 árum. Það þarf líklega annaðhvort að fara í undirheimana eða á slóðir þess vafasama pappírs Samfylkingarinnar til að finna aðra eins ávöxtun. Núverandi formaður Samfylkingarinnar gegndi áður stöðu aðalhagfræðings Kviku-banka og naut þá þessara vildarkjara þar. Hún fór á flot með það í skattframtali sínu, að MISK 101, sem hún var allt í einu með í höndunum, væri ávöxtun og bæri þá 22 % skattheimtu. Þessu trúði Skatturinn ekki, því að slíkt gerist ekki í raunheimum ofan jarðar. Skatturinn taldi þetta einfaldlega launaumbun (bónus) til aðalhagfræðingsins frá Kviku og ætti því að bera jaðarskattheimtuna um 46 %.
Þarna munar hárri upphæð, sem núverandi formaður Samfylkingarinnar ætlaði í græðgi sinni að sleppa við að borga til samfélagsþarfanna. Það er nauðsynlegt fyrir kjósendur að gera sér grein fyrir innræti og gerð formanns Samfylkingarinnar áður en þeir ljá henni atkvæði. Hún talar beint og óbeint fyrir vaxandi skattheimtu á fyrirtæki og almenning, en hún virðist nota hvert tækifæri, sem hún telur sig fá, til að að lækka skattheimtu af eigin ofurtekjum. Þetta er sérlega skammarlegt fyrir hana og Samfylkinguna, sem verður tíðrætt um "að láta breiðu bökin borga".
Morgunblaðið gerði málinu skil 30. júní 2023 undir ósköp sakleysislegri fyrirsögn, þótt sú, sem í hlut á, sé ekki sakleysingi:
"Hagnaðurinn metinn sem laun".
Sú frétt hófst þannig:
"Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi aðalhagfræðingur Kviku banka, greiddi Skattinum tæpar MISK 25 í vor vegna hagnaðar af áskriftarréttindum bankans, sem hún hafði fjárfest í. Kristrún sagði í samtali við mbl.is í gær, að málinu væri lokið af sinni hálfu, en þetta væri ekki endilega endanleg niðurstaða, þar sem fara má með mál af þessu tagi fyrir yfirskattanefnd."
Ekki er víst, að allir átti sig á skattalagabroti formannsins af þessu orðalagi. Nær er að segja hverja sögu, eins og hún er. Formaður Samfylkingar gerðist brotleg við skattalög með því að vantelja fram launatekjur sínar og hugðist þannig halda MISK 25 í eigin vasa sínum í stað þess að láta þessa fjárhæð greiðlega af hendi rakna til samfélagsþarfanna. Þetta er hrikalegur vitnisburður um siðleysið og hræsnina, sem lekur af þessum nýja formanni Samfylkingarinnar, sem sótt var í fjármálaheiminn. Það segir meira en mörg orð um það, hvar hjarta Samfylkingarinnar slær, og hvaða hagsmuni hún kann að setja á oddinn. Hvort það samræmist hagsmunum alþýðunnar, sem Samfylkingin ber í orði kveðnu fyrir brjósti, er umdeilanlegt, en það er óumdeilanlega óheiðarlegt að koma ekki til dyranna, eins og maður er klæddur.
Kristrún læðist með veggjum í þessu máli og er greinilega í vondum málum. Hún rembist við að láta líta út fyrir, að hún hafi lagt fram MISK 3 sem áhættufé, sem hún hefði getað tapað. Eru fordæmi fyrir því í sambærilegum málum ? Ekki er svo, ef afstaða Skattsins er skoðuð, því að hann telur skýlaust um launaumbun til Kristrúnar að ræða:
"Það fór þó ekki svo, því [að] hlutabréf Kviku hækkuðu mikið [eins og búizt var við - innsk. BJo] frá þeim tíma, sem Kristrún hóf þar störf. Kristrún gat innleyst fjárfestinguna á 3 mismunandi dagsetningum fram í tímann, og var endanlegur hagnaður hennar um MISK 101."
Þarna lýsa blaðamenn Morgunblaðsins leikriti, sem Kvika setti á svið fyrir drottninguna af Kviku o.fl. starfsmenn fyrirtækisins til þess að fara í kringum orðið "bónus", sem hefði óhjákvæmilega þurft að fara í hæsta tekjuskattsþrepið. Með því að lýsa þessum vildargerningi sem "fjárfestingu", gátu óprúttnir spreytt sig á að reyna að borga ríflega helmingi lægri skatt, en Skatturinn sá við þeim, og var það vel. Allt lyktar þetta ákaflega illa.
Staksteinar Morgunblaðsins 30.06.2023 vitnuðu í pistilinn "Tilfallandi athugasemdir", sem ekki var gerð nánari grein fyrir:
""Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar, segir fátt um Íslandsbankamálið, ólíkt formönnum allra annarra stjórnmálaflokka. Ástæðan er Kvika, fjárfestingarbanki, sem hyggst ná eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka með samruna.
Kristrún var, þar til fyrir skemmstu, aðalhagfræðingur Kviku. Hún hagnaðist um MISK 100 á kaupréttarsamningum. Hún var lengi í vandræðum með að gefa skiljanlegar skýringar á því.""
Það er út af því, að téð Kristrún er tvöföld í roðinu. Hún ætlaði að komast upp með að telja Skattinum trú um, að ofangreind upphæð væri ávöxtun MISK 3 hennar, en Skatturinn sá við blekkingarstarfseminni. Nú segir hún, að málinu sé lokið af sinni hálfu. Það er út af því, að hún veit, að málstaður hennar er óverjandi gagnvart Yfirskattanefnd og að sú kynni að úrskurða 25 % sektarálag á skattstofninn. Hitt er svo allt annað mál, hvort kjósendur, sem einnig eru skattborgarar í þessu landi, gera sér þessar "trakteringar" drottningarinnar af Kviku að góðu. Þeir hafa enga ástæðu til þess. Nú hafa þeir séð inn í kviku formanns Samfylkingarinnar, og ef allt er með felldu, munu þeir forðast að lyfta litla fingri til að lyfta drottningunni af Kviku til valda á Íslandi. Hún er einskis trausts verð, og bezt fer á því að refsa henni með því að leiða Samfylkinguna á eyðimerkurgöngu hennar.
""En kom svo með þessa hagfræðilegu skýringu: "Ég datt í lukkupottinn", sagði Kristrún. Íslandsbankamálið, sem nú er til umræðu, er aðeins undanfari að yfirtöku Kviku á Íslandsbanka.""
Í þessu samhengi er vert að hafa í huga hið fornkveðna: "æ sér gjöf til gjalda". MISK 100 eru ekkert annað en gjöf til Kristrúnar frá Kviku. Með þetta veganesti fer hún í pólitíkina, og í fjármálageiranum hlýtur að vera ætlazt til, að þetta fé ávaxtist með afstöðu formanns Samfylkingarinnar. Það er löngu þekkt, að ógerlegt er að þjóna tveimur herrum. Aðeins þeir kjósendur Samfylkingarinnar, sem telja hagsmuni sína og Kviku-fjárfestingarbanka fara saman, geta með góðri samvizku kosið þennan stórundarlega stjórnmálaflokk.
""Galdurinn, sem nú er í gangi, er oft nefndur: "Glitnir, taka tvö". Samfylkingin hefur frá stofnun verið fimmta herdeild auðmanna. Með formennsku Kristrúnar er innvígð og smurð auðkona í kjörstöðu til að hjálpa baklandi sínu að "detta í lukkupottinn".""
Mun samsærið ganga upp ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)