Hvalreki fyrir Vestfirðinga

Mannlíf og atvinnulíf hefur tekið stakkaskiptum til hins betra á Vestfjörðum með miklum fjárfestingum í laxeldi, sjóeldiskvíum, fóðurprömmum, sláturhúsum og tilreiðslu þessarar próteinríku matvælaframleiðslu fyrir kröfuharðan og velborgandi markað.  Einnig vex seiðaeldi fiskur um hrygg.  Helgi Bjarnason birti afar fróðlega frétt um athafnir Háafells í Ísafjarðardjúpi, en þar er laxeldi nú að fara myndarlega af stað.  Burðarþol Ísafjarðardjúps mun nú vera metið 30 kt lífmassi samtímis í kvíum þar.  Hafrannsóknarstofnun fylgist með þróun lífríkisins á botninum og í ám, sem í Djúpið falla. Með þróun í hönnun sjókvía og stöðugu myndavélaeftirliti með þeim ásamt þróun rekstrarins í enn umhverfisvænni átt, er líklegt, að hægt verði að lyfta burðarþolsmatinu yfir 30 kt. 

Nú fjölgar íbúum Vestfjarða, ekki sízt börnunum, og fólk með fjölþætta og í mörgum tilvikum sérhæfða þekkingu og reynslu kaupir sér eða byggir yfir sig hús, enda eru laxeldisfyrirtækin góðir vinnuveitendur.  Þetta setur þrýsting á innviði Vestfjarða, sem ekki hafa haldið í við þessa þróun, þótt þetta sé sjálfbærasta byggðaþróun, sem hugsazt getur.  Hún er ekki baggi á opinberum sjóðum, heldur þvert á móti stórfelld tekjulind fyrir sveitasjóði og ríkissjóð.  Á þessu sviði, eins og á virkjanasviðinu, er þó óánægja á meðal sveitarstjórnarfólks með skiptingu opinberra tekna.  Ríkisvaldið þarf að laga þetta til að greiða fyrir staðbundinni innviðauppbyggingu.  Þar með mun heildar verðmætasköpun enn vaxa og samkeppnishæfni landsins batna, því að hér er að verða til ein stærsta gjaldeyrislind landsins. 

Téð Morgunblaðsfrétt bar eftirfarandi fyrirsögn: 

 "Laxinn dafnar vel í Djúpinu".

Hún hófst þannig:

"Lax, sem Háafell elur í Ísafjarðardjúpi, dafnar afar vel.  Fiskurinn var settur út í kvíar í Vigurál á síðasta ári, og hefst slátrun í haust. Í vor var annað kvíabólið tekið í notkun, Kofradýpi.  Háafell stendur í miklum fjárfestingum við uppbyggingu mannvirkja og tækjabúnaðar vegna eldisins auk lífmassans.  Framkvæmdir eru hafnar við stækkun seiðastöðvarinnar á Nauteyri, og nýr fóðurprammi og vinnubátur til nota í Kofradýpi koma í sumar."

Af þessu má ráða, að Ísafjarðardjúp henti vel til laxeldis og að miklu sé kostað til við að efla það.  Það eru afar jákvæð teikn fyrir fólkið, sem býr eða hyggst búa á þessu atvinnusvæði, því að miklar fjárfestingar tryggja viðvarandi atvinnu og vaxandi atvinnu, eftir því sem Umhverfisstofnun og Matvælastofnun gefa leyfi fyrir meiri lífmassa í kvíunum í Djúpinu, nema einhver stjórnenda Matvælastofnunar fái allt í einu þá flugu í höfuðið að kalla fagráð saman til skrafs og ráðagerða með siðfræðing eða heimsspeking sem talsmann þess, en fagráð stofnunarinnar setti ráðherra matvæla úr jafnvægi, svo að hún ók út í skurð og var þar, þegar síðast fréttist. Öll afskipti téðs ráðherra af atvinnulífinu eru til bölvunar, og skyldi engan undra. 

Háafell rekur framsækna stefnu við eldið, tilreiðslu og markaðssetningu, í því augnamiði að hámarka verðmætasköpun.  Er það allt til fyrirmyndar:

 "Háafell er í úttektarferli hjá Whole Foods Market verzlanakeðjunni í Bandaríkjunum.  Gauti [Geirsson, framkvæmdastjóri] segir, að þótt endanleg niðurstaða sé ekki komin, sé ljóst, að Háafell uppfylli öll helztu skilyrði eins kröfuharðasta kaupanda í heimi og starfsfólk Háafells sé stollt af því.  Hann fagnar nýjum möguleika, sem felst í strandsiglingum. Með þeim sé hægt að koma afurðunum fyrir skip Eimskips, sem siglir einu sinni í viku frá Reykjavík til Bandaríkjanna.  Laxinn komi ferskur inn á Bandaríkjamarkað, og þetta sé auk þess umhverfisvæn leið og ódýr flutningsmáti." 

Fyrirtækið gerir sér far um að lágmarka neikvæð áhrif sín á lífríki Djúpsins og að lágmarka kolefnissporið.  Aukin umsvif laxeldis við og á Íslandi ásamt strandsiglingum gera mögulegt að hætta innflutningi á laxafóðri, en framleiða það allt á Íslandi og flytja til notenda með strandferðaskipi.  Það fer að verða grundvöllur til slíkrar þróunar, sem efla mun atvinnustig í dreifbýli landsins og spara gjaldeyri.  Strandsiglingar þessar eru mikil búbót, og munu létta á illa förnum þjóðvegum landsins. 

"Mikilvægt er að hafa sögu til að segja um uppruna afurðanna, þegar farið er inn á heimsmarkað og reynt að ná betra verði en aðrir fá.  Gauti segir, að Háafell hafi sérstöðu í umhverfismálum.  Það noti ekki kopar í ásætuvarnir á kvíunum, það tengi fóðurpramma sína við rafmagn í landi, noti hrognkelsi sem náttúrulega leið til að fyrirbyggja lús og vakti vel umhverfi kvíanna.  Þá nefnir hann, að nýi fóðurpramminn, sem er væntanlegur, hafi möguleika á að taka sjó og blanda fóðrinu við hann áður en því er dælt út í kvíar og gefið neðansjávar.  Það komi í veg fyrir plastmengun, sem hætta sé á, þegar fóðrinu er blásið með lofti í gegnum leiðslur, minnki orkunotkun og geti dregið úr lús." 

Þetta er athyglisvert.  Þarna er um að ræða örplast, sem kvarnast úr plastlögnum, sem fóðrið slítur við blástur.  Það er merkilegt, að þessi aðferð skuli spara orku og kann að stafa af því, að orkufrekt er að framleiða þrýstiloft. 

Að lokum kom eins konar "manifesto" fyrir þennan fyrirmyndarrekstur:

""Okkur er annt um lífríkið í Ísafjarðardjúpi og stundum okkar eldi þannig, að það hafi ekki óafturkræf áhrif á umhverfið.  HG hefur stundað þar fiskeldi í 20 ár og veitt rækju í áratugi, og þar eru uppeldisstöðvar þorsks.  Okkar starfsemi á ekki að vera á kostnað umhverfisins", segir Gauti."

 


Bloggfærslur 14. júlí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband