Búrfellslundi frestað í áratug

Barátta sveitarfélaga með orkuvinnslu og flutningslínur innan sinna sveitarmarka fyrir hlutdeild í söluandvirði orkunnar, sem til verður í viðkomandi sveitarfélagi við nýtingu náttúrulegra orkulinda þar, er eðlileg og er tíðkuð við sambærilegar aðstæður erlendis.  Þótt ávinningur s.k. orkusveitarfélaga af virkjunum hafi verið ótvíræður, t.d. vegna vegagerðar og brúunar vatnsfalla, þá gildir hið fornkveðna, að allt orkar tvímælis, þá gert er. 

Sveitarfélögin hefðu e.t.v. lagt áherzlu á önnur atriði til tekjuöflunar og atvinnusköpunar, ef ekki hefði verið virkjað og ekkert virkjunarleyfi í augsýn.  Það er líka skiljanleg óþæginda tilfinning að horfa á eftir orkunni annað, þar sem hún skapar gull og græna skóga, en orkusveitarfélagið hafi takmarkaðar beinar tekjur af verkefninu. 

Nú hefur það borið til tíðinda, að Skeiða- og Gnúpverjahreppur hefur nýtt sér heimild í lögum um frestun á þeirri ákvörðun Alþingis um 10 ár að setja Búrfellslund í nýtingarflokk Rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkulinda.  Þar með blæs ekki byrlega fyrir stórfelldri nýtingu vinds til raforkuvinnslu á Íslandi fyrr en Alþingi hefur með lagasetningu komið til móts við hlutdeildarkröfur orkusveitarfélaganna.  Um þetta skrifaði Haraldur Þór Jónsson, oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, grein í Morgunblaðið 19. júní 2023 undir fyrirsögninni:

"Frestun Búrfellslundar var fyrirséð".

"Búrfellslundur átti að verða fyrsta vindorkuverið á Íslandi með 120 MW uppsett[u] afl[i].  Tekjur Skeiða- og Gnúpverjahrepps af virkjuninni yrðu engar, en áhrifin á nærumhverfið gríðarleg.  

Sveitarfélög taka ákvörðun um uppbyggingu í sínu nærumhverfi á forsendum þess að skapa atvinnu og tekjur fyrir nærsamfélagið.  Búrfellslundur skilar hvorugu fyrir okkar sveitarfélag.  Það ætti því ekki að koma neinum á óvart, að á fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps þann 7. júní [2023] hafi sveitarstjórnin ákveðið að nýta sér í fyrsta sinn á Íslandi þessa heimild í 7. gr. laga um rammaáætlun og fara fram á frestun á innleiðingu [í) skipulag sitt. 

Við getum einfaldlega ekki metið, hvort þetta sé áhugavert fyrir sveitarfélagið fyrr en ný lög liggja fyrir.  Í núverandi lagaumgjörð verður Búrfellslundur ekki byggður."

Oddviti og sveitarstjóri hreppsins metur það svo, að á rekstrartíma s.k. Búrfellslundar muni hreppurinn engra tekna njóta af þessu vindrafalafargani, sem ætlunin var að hola niður í allfjölförnum víðernum landsins, enda verða burðarsúlurnar staðsettar í nágrannasveitarfélagin, Rangárþingi ytra.  Þótt svæðið sé talið þegar raskað af öðrum virkjunum og flutningslínum, fellur sú "röskun" svo vel að umhverfinu, að ósambærilegt er því að leggja flæmi undir allt að 200 m há mannvirki (súla+spaðar), sem framleiða eiga raforku með þeim óskilvirkasta hætti, sem hugsazt getur. 

Uppsetning vindknúinna rafala í íslenzkri náttúru, sem nýtur sérstöðu á heimsmælikvarða, er meinloka, sem peningapungar vilja knýja fram hér, eins og annars staðar.  Slíkar meinlokur þrífast auðvitað ekki síður innan ríkisfyrirtækisins, sem hér hefur ríkjandi stöðu á raforkumarkaði.  Það er ríkur vilji á meðal landsmanna að jarðsetja þessa meinloku.  Við eigum að einbeita okkur að nýtingu okkar hefðbundnu orkulinda, þótt afturhaldið í landinu leggist þar þversum fyrir af fádæma þrjózku og skammsýni. 

Íbúar hreppsins og nágrannahreppsins og hreppssjóður Rangárþings ytra munu væntanlega njóta fjárhagslegs ávinnings á framkvæmdatíma Búrfellslundar, en hann verður dýru verði keyptur með allsherjar róti á framkvæmdasvæðinu og gríðarlegum flutningum um sveitarfélögin.  Það þarf t.d. að hella gríðarlegu magni af steypu ofan í jörðina fyrir undirstöður súlnanna, sem halda m.a. uppi spöðum og rafölum.  Hreppsnefndin á hrós skilið fyrir að nýta sér lagalegan rétt sinn til að fresta skipulagsvinnu vegna Búrfellslundar, þar til lagarammi tekjuskiptingar og þessarar gerðar raforkuvera hefur séð dagsins ljós.  Flumbrugangur einkennir framgöngu Landsvirkjunar í þessu máli.  Það er þó þyngra en tárum taki, hversu illa fyrirtækinu gengur að koma vitrænum áformum sínum á rekspöl.  Vegna orkuskorts er það þegar orðið að þjóðhagslegu vandamáli.  Skipstjóri, sem ekkert veiðir af viti, þarf ekki að íhuga stöðu sína.  Honum er gert að taka pokann sinn.   


Bloggfærslur 18. júlí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband