4.7.2023 | 09:49
Matvælaráðherra er heimaskítsmát
Matvælaráðherra fór svo óhönduglega að ráði sínu gagnvart löglegri atvinnustarfsemi Hvals hf og starfsmönnum fyrirtækisins, að hún varð heimaskítsmát. Hún á engan annan kost í stöðunni en að viðurkenna afglöp sín, sem valdið hafa tjóni og afkomuáhyggjum fjölda manns, afturkalla svokallað tímabundið bann á veiðum langreyða og segja síðan af sér með skömm. Hana vantar mikilvæga eiginleika til að gegna ráðerraembætti, þar sem þjóðarhagur verður að vera í fyrirrúmi. Að bjóða þjóðinni upp á þvætting af því tagi, að eftir lestur skýrslu fagráðs Matvælastofnunar hafi hún sem umboðsmaður hvala á vegum ríkisins orðið að fresta veiðum til haustsins, þar til endanleg ákvörðun yrði tekin um hvalveiðar, sýnir í senn ósvífni og dómgreindarleysi ofstækisfulls stjórnmálamanns, sem ekkert erindi á í Stjórnarráð Íslands.
Ekkert bólar samt á stuðningi heildarsamtaka verkalýðsins, ASÍ, við Verkalýðsfélag Akraness og formann þess, Vilhjálm Birgisson, sem haldið hefur uppi ötulli baráttu fyrir þá, sem missa vinnuna vegna forkastanlegra vinnubragða kommúnistans í ráðherrastóli. Oft hefur forseti ASÍ geiflað sig framan í fjölmiðla af minna tilefni en því, að allt að 200 manns missi af mrdISK 1,2 í tekjur, þar sem mannskapurinn var búinn að ráða sig í vinnu. Sofandaháttur Alþýðusambandsins á líklega rætur í pólitískri meðvirkni, en í því felst mikil blinda gagnvart þeim hagsmunum alþýðu, sem í húfi eru.
Forhertur ráðherrann grefur gröf sína, á meðan hún er í felum og svarar engum. Hún er ekki með neitt í höndunum til að rökstyðja gjörning sín af neinu viti. Fagráð Matvælastofnunar með vanhæfan talsmann í líki hræsnara, sem lyftir sér ögn yfir meðbræður sína með titlinum siðfræðingi (er það ekki einhvers konar Sókrates okkar tíma ?), var ekki einu sinni aðili að málinu gagnvart ráðuneytinu, heldur bar ráðherra að sinna sjálfstæðri rannsóknarskyldu sinni og leita eftir afstöðu Matvælastofnunar o.fl., sem reyndar var fyrir hendi áður og þá andstæð tilfinningavellunni í fagráðinu.
Morgunblaðið hefur sinnt vandaðri blaðamennsku í þessu máli sem öðrum, og þann 28. júní 2023 birtist þar viðtal við téðan Vilhjálm Birgisson undir sláandi fyrirsögn:
"Matvælaráðherrann svarar engu"
Hún hófst þannig:
""Það hafa engin svör borizt, sem er að mínum dómi mjög ámælisvert m.v. þá miklu hagsmuni, sem starfsmennirnir eiga í þessu máli", sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við Morgunblaðið.
Félagið sendi matvælaráðherra bréf 22. júni sl., þar sem þess var krafizt, að ákvörðun um tímabundna stöðvun hvalveiða yrði afturkölluð. Ef ekki, krefðist félagið þess, að matvælaráðherra gripi til aðgerða til að bæta fjárhagstjón félagsmanna verkalýðsfélagsins. Ráðherra var gefinn frestur til sl. mánudags [26.06.2023] til þess að svara framangreindum kröfum félagsins. Erindinu hefur ekki verið svarað."
Óhæfur ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) er í stríði við Verkalýðsfélag Akraness, sem gætir mikilla hagsmuna (1,2 mrdISK/ár) félagsmanna sinna. Ráðherrann og flokkssystir hennar, forsætisráðherrann, skáka báðar í því skjólinu, að ekki sé um bann að ræða, heldur frestun á veiðum. Það er einskær orðhengilsháttur, því að tjón starfsmanna og fyrirtækisins í ár verður hið sama, þar sem enn meiri hætta er á langvinnu dauðastríði dýranna við dráp við haust- og vetraraðstæður, og fyrirtækið vill vart standa þannig að málum. Frá viðskiptavinum fyrirtækisins hafa borizt fregnir af því, að mikill hörgull sé á hvalkjöti í Japan og þarlendir muni neyðast til að leita að staðgönguvöru, ef afhending frá Íslandi bregzt. Fyrir að líkindum ólöglegan tilverknað óhæfs ráðherra mun Hvalur hf tapa miklum tekjum í ár og gæti hæglega misst markaðsaðstöðu sína. Það er ljóst, að óhæfur ráðherra bakar hér ríkissjóði afar háa skaðabótakröfu og að líkindum skaðabótaskyldu, eftir að deilumálið hefur farið fyrir dómstóla.
Þetta fjárhagstjón verður einvörðungu fyrir dynti í ráðherra, sem ofmetur meingallaða skýrslu fagráðs Matvælastofnunar, þar sem tekin er þröngsýn og tilfinningaþrungin afstaða til veiða á langreyði.
Það hefði verið nær fyrir ráðherra að leita eftir viðhorfum virtra fræðimanna, t.d. á Hafrannsóknarstofnun og í Landbúnaðarháskóla Íslands. Þá hefði hún fengið víðsýnni viðhorf en sífrið í einhverjum siðfræðingi við HÍ.
200 mílur Morgunblaðsins gerðu einmitt þetta 29. júní 2023 undir fyrirsögninni:
"Gæti leitt til ójafnvægis".
""Ég hef ekki gert neinn greinarmun á hvölum og öðrum dýrum, sem við erum að veiða; hvalir eru bara stór spendýr", sagði Guðni Þorvaldsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið. Sjálfsagt sé að stefna að því að lágmarka þjáningar villtra dýra, þegar þau eru veidd, en það sé bara lítill hluti af myndinni, þegar kemur að velferð og líðan villtra dýra.
Svo sem kunnugt er, ákvað Svandís Svavarsdóttir að stöðva veiðar á langreyðum í sumar, og gildir veiðibannið til 1. september [2023]. Meginröksemd ráðherrans fyrir stöðvun veiðanna var sú, að aflífun dýranna tæki of langan tíma út frá meginmarkmiðum laga um velferð dýra.
Guðni bendir á móti á, að ef slík dýr nái að fjölga sér óhindrað, þá geti það leitt til annarra vandamála:
"Ég tel, að þetta geti gerzt í tilviki hvala, að þeim fjölgi svo mikið, að fæðuskortur verði og ójafnræði í lífríkinu. Ég tel, að hóflegar veiðar og takmarkanir á hinum ýmsu stofnum sé liður í því að láta dýrunum líða vel. Ég álít, að hluti af dýravelferðinni sé, að eitthvað sé til fyrir þau að éta og [að] þau séu ekki í stöðugri baráttu við önnur dýr um takmarkaða fæðu. Ég hef litið á hvali sem hver önnur dýr, og ef þeim fjölgar úr hófi fram, geta þeir farið að skemma mikið", sagði Guðni."
Þarna talar fræðimaður af víðsýni og í jafnvægi. Rök hans höfða til heilbrigðrar skynsemi, en það gera hvorki rökleysur ráðherrans um hana sjálfa sem umboðsmanns hvala né einhliða tilfinningavella siðfræðingsins, talsmanns fagráðs Matvælastofnunar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)