Þann 31. júlí 2023 birtist fjagra dálka ljósmynd á forsíðu Morgunblaðsins af skemmtiferðaskipum á Skutulsfirði, sem reykjarstrókana lagði upp af. Þarna var ljósi varpað á mengunarvandamál og orsök þess á þessum stað, raforkuskortinn. Nú blaðrar forsætisráðherra um, að verið sé að endurskoða opinbera aðgerðaáætlun til að draga úr losun koltvíildis frá Íslandi. Það plagg verður án tengils við raunveruleikann, nema miklu meira verði virkjað af endurnýjanlegri orku á Íslandi.
Ef ráðherrarnir ætla að hrista af sér slyðruorðið, munu þeir láta búa til hraðfara aðgerðaáætlun til að gera Vestfirðinga sjálfum sér næga með raforku úr endurnýjanlegum orkulindum og að ýta á eftir því, að ríkisfyrirtækið Landsnet breyti 33 kV og 66 kV loftlínum sínum á Vestfjörðum í jarðstrengi. Þar með verður hægt með raunhæfum hætti að undirbúa rafvæðingu hafnanna með háspenntan tengibúnað fyrir farþegaskipin. Þangað til ættu bæjaryfirvöld á Ísafirði að setja útgerðum farþegaskipanna stólinn fyrir dyrnar með sóðaskapinn og gera þeim að brenna gasi, á meðan þau eru inni á fjörðum. Það gerðu Norðmenn, sem nú eru mun lengra komnir við rafvæðingu hafnanna en Íslendingar, enda ekki forpokað afturhald að setja skít í tannhjól þróunarinnar þar.
Í Morgunblaðinu, 31.07.2023, birtist frétt um þetta undir fyrirsögninni:
"Ekki til orka fyrir skipin".
Þar var viðtal við íbúa á Ísafirði, Sturlu Pál Sturluson:
""Eins og við, sem búum hérna fyrir vestan, vitum, er Skutulsfjörðurinn sérstaklega lognsæll, en það kemur hins vegar allt of oft fyrir, að hann er í hálfgerðri blárri móðu eftir skipin", segir Sturla. Spurður, hvort mikil óánægja ríki [á] meðal bæjarbúa vegna ástandsins svarar Sturla því til, að fyrst og fremst hafi þeir áhyggjur af stöðu mála."
Staða mála er sú, að Ísfirðingar eiga ekki að þurfa að sætta sig við, að nokkur farþegaskip leggist að hjá þeim og mengi þá þá svo mjög, að sé á við árslosun bílaflota þeirra. Það á að fara að dæmi Norðmanna, sem banna svona dalla í norskum fjörðum og gera að skilyrði fyrir móttöku þeirra, að þau séu annaðhvort knúin jarðgasi eða rafmagni, á meðan þau eru innan norskra fjarða. Það er til skammar, að skortur á raforku úr endurnýjanlegum lindum skuli standa rafvæðingu hafnanna á Vestfjörðum fyrir þrifum.
Úrtölumenn á við píratakjánana halda því fram, að ekki sé unnt að heimila nýjar virkjanir, af því að þörfin sé ekki ljós, hægt sé að spara orkutöp, hætta að selja orku til námugraftrar gervimynta og þar fram eftir götunum. Ekki sé hægt að tryggja, að ný orka fari í orkuskipti. Allt er þetta tómur fyrirsláttur til að drepa umræðunni á dreif, og það hefur tekizt, því að ekkert stórt virkjanaverkefni er nú í gangi, eftir að Hvammsvirkjun fór á ís á fáránlegum grundvelli, þ.e. vatnalögum Evrópusambandsins.
Þörfin hefur verið kortlögð og nemur um 80 MW eða 400 GWh/ár. Allar stærðirnar, sem píratakjánarnir nefna til sönnunar þess, að ekki þurfi að virkja, verða eins og dropi í hafið, þegar þessar árlegu þarfir eru lagðar saman yfir byggingartíma virkjunar á borð við Hvammsvirkjun. Undanfarin ár hefur aðeins brot af ofangreindum stærðum bætzt við uppsett afl og árlega orkuvinnslugetu.
Það er mjög annkannalegur málflutningur hjá pírötum, sem að upplagi eru stjórnleysingjar, að vinza eigi úr viðskiptamannahópi raforkufyrirtækjanna eftir geðþótta stjórnmálamanna. Það verður hér eftir sem higað til að vera greiðslugeta fyrirtækjanna, sem ræður því, hvort þau fá raforku eða ekki. Annað er óþolandi forræðishyggja og mismunun í anda kommúnista, sem vart stenzt Stjórnarskrá.
"Þá segir Sturla stóra Akkilesarhælinn vera, að ekki megi virkja fyrir vestan, þó [að] nóg sé af fallvatni, og því geti skemmtiferðaskipin ekki nýtt sér rafmagn, þegar þau leggjast þar að bryggju.
"Þó [að] þessi skip myndu vilja fara þá leið, þá er þetta rafmagn bara ekki [fyrir hendi]. Það er ekki nóg að setja upp kapla og tengingar, ef engin er orkan", segir Sturla og bætir við, að fólk sé kannski ekki almennt að setja sig upp á móti skemmtiferðaskipum, heldur sjái frekar hið jákvæða vegna afkomunnar fyrir bæjarfélagið, þó [að] vissulega sé mengunin óþægilegur fylgifiskur þessa tiltekna ferðamáta"."
Það þarf mikið afl til að sjá stórum skemmtiferðaskipum fyrir nægu afli, enda eru þetta heil bæjarfélög á floti, þegar mest er. Það gæti þurft 10 MW aflfæðingu að höfninni á Ísafirði fyrir þetta, og það er óvíst, að flutningskerfið að bænum geti annað því núna, og núverandi vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum geta ekki bætt við sig þessu álagi. 132 kV Byggðalínan er fulllestuð, svo að þótt 132 kV Vestfjarðalína gæti bætt þessu álagi á sig, kemur það ekki að haldi, enda er árlegt viðhaldstímabil hennar að sumarlagi, og allir, nema píratar og forysta Landverndar, sjá, að engin glóra er í að gangsetja olíukyntar varaaflsstöðvar Vestfjarða til að anna raforkuþörf skemmtiferðaskipta. Þess vegna hefur téður Sturla Páll lög að mæla um raforkuskortinn, þótt með ólíkindum sé á Íslandi 2023.
Vegna óstjórnar og misheppnaðrar lagaumgjarðar orkumálanna að hætti þröskulda samfélagsins siglir Ísland nú inn í Suður-Afríkanskt ófremdarástand með straumleysi vegna yfirálags og orkuskerðinga vegna orkuskorts. Orkuskerðingar hafa verið staðreynd um langa hríð staðbundið, t.d. í Eyjafirði í tvo áratugi vegna ófullnægjandi flutningsgetu, þegar tekin er með í reikninginn raforka, sem óskað hefur verið eftir, en ekki fengizt. Þetta hefur valdið þjóðfélaginu tugmilljarða ISK tekjutapi á ári.
Nú er sú staða að koma upp á Vestfjörðum vegna rífandi gangs útflutningsgreina þar og fólksfjölgunar, að aðeins verður unnt að anna aukinni aflþörf Vestfirðinga með olíukyntum rafstöðvum. Það er reginhneyksli og falleinkunn fyrir landsstjórnina, sem stöðugt gumar af endurnýjanlegum orkulindum og orkuskiptum.
Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, er ötull talsmaður heilbrigðrar skynsemi í orkumálum Vestfirðinga og hefur iðulega skrifað fróðlegar greinar í Morgunblaðið um þetta brýna mál, sem þolir ekki lengri bið og Þyrnirósarsvefn yfirvalda, því að trúverðugleiki stefnunnar um samdrátt koltvíildislosunar og orkuskiptin liggur við:
"Í þágu Landverndar".
Greinin 26. júlí 2023 hófst þannig:
"Landvernd sendi Orkubúi Vestfjarða formlega beiðni 21. júlí 2023 um, að bregðast við meintum rangfærslum í grein umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í grein, sem birtist í Morgunblaðinu 7. júlí [2023]. Það er óvenjulegt, að Orkubúið fái slíka beiðni. Orkubúinu er málið hins vegar skylt og því sjálfsagt að leysa úr smávægilegum misskilningi, sem snýst reyndar ekki um, hversu mikið varaafl var framleitt með dísilolíu né um það, hversu stórt kolefnisspor þeirrar framleiðslu var, heldur um það, hver á varaaflsstöðina, sem um ræðir. Það er því upplýst hér á sama vettvangi, að umrætt varaafl er í eigu Orkubús Vestfjarða. Gagnvart kolefnissporinu og verndun loftslags er eignarhaldið á varaaflsstöðinni aukaatriði, en varmaorkuna, sem um ræðir, þarf að framleiða með dísilolíu vegna skorts á raforku [úr endurnýjanlegum orkulindum - innsk. BJo]. Það er óumdeilt."
Þessi sparðatíningur Landverndar er broslegur og varpar aðeins ljósi á, að þar á bæ kemst fólk aldrei að kjarna málsins, heldur reynir með heimatilbúnum og hrásoðnu fótalausu þvaðri að halda því fram, að ekki vanti meiri raforku í landið, því að Íslendingar framleiði manna mesta raforku úr endurnýjanlegum orkulindum í heiminum. Þetta er sértrúarflokkur, sem einföldustu rök bíta ekki á. Þessi einföldu rök eru, að andrúmsloftið er aðeins eitt, og ef þessi raforka væri framleidd annars staðar, þá kæmi sú raforka að megninu til úr varmaorku jarðefnaeldsneytis og að mestu úr kolum.
Þá er gengið um á skítugum skónum í húsi staðreyndanna í aumkunarverðri tilraun til að sverta íslenzka stóriðju. Því er haldið fram, að Norðmenn framleiði ál með meiri orkunýtni en Íslendingar. Svona samanburður er afar villandi, því að staðreynd er, að með hærri straumstyrk og stærri kerum fæst að öðru jöfnu hærri orkunýtni. Tæknimönnum íslenzku álveranna og öðrum starfsmönnum þeirra hefur tekizt að bezta rekstur þeirra m.v. það, sem fræðilega er talið unnt með þeirri kertækni, sem hér er í brúki. Ef Landvernd og píratar vilja spara raforku til álveranna, eru þeir að biðja um gríðarlegar fjárfestingar þar, en það er tómt mál að tala um slíkt, nema samtímis megi og verði til raforka til að auka framleiðsluna umtalsvert. Grillur Landverndar og pírata eru legío, en þau taka sjálf sig hins vegar gríðarlega alvarlega og gefa sér forsendur sjálf og þykjast þannig alltaf hafa rétt fyrir sér. Þetta er bara hlægilegt viðhorf illa upplýsts safnaðar.
Talnameðferð þessa safnaðar er óboðleg, og ættu skussar að forðast viðfangsefni, sem þeir ráða ekki við. Skussarnir bera kinnroðalaust saman epli og appelsínur og draga af því ályktanir, sem þeir höfðu áður klambrað saman. Þeir tóku orkunotkun rafgreiningar ISAL og lögðu orkunotkun steypuskálans við. ISAL hefur einmitt gert átak í rafvæðingu steypuskálaofna og stundar nú framleiðslu á eftirsóttri, sérhæfðri vöru í steypuskála sínum, sem eru álsívalningar af ýmsum lengdum, gildleikum og melmum. Þetta bera skussarnir saman við orkunotkun rafgreiningar einvörðungu hjá Norsk Hydro í Noregi og fá út, að ISAL noti 3 % meiri raforku á hvert áltonn en Norsk Hydro eða 100 GWh/ár. Niðurstaða dæmisins er vitlaus hjá pírötum og Landvernd, en athygli vekur, hversu munurinn er þó lítill. Hann nemur aðeins um þriðjungi af árlegri aukningu raforkuþarfar landsins, og hvað eru þessi illa upplýstu afturhaldsöfl búin að tefja virkjanaframkvæmdir hér um mörg ár ?
"Orkubú Vestfjarða vinnur nú að rannsóknum vegna 9,9 MW Kvíslatunguvirkjunar í Steingrímsfirði og 20-30 MW Vatnsdalsvirkjunar inn af Vatnsfirði. Með tilkomu þeirra virkjana mætti draga úr framleiðslu raforku með dísilolíu á Vestfjörðum um 90 %. Auk þess vinnur Orkubúið að jarðhitaleit bæði á Ísafirði og Patreksfirði. Nýting jarðhita gæti minnkað þörfina á raforku til kyndingar. Virkjanaáformin munu að sjálfsögðu þurfa að hljóta lögbundna skipulagsmeðferð og fara m.a. í umhverfismat. Orkubúið telur þó, að hægt sé að tryggja lágmarksáhrif á umhverfið í báðum þessum virkjanakostum."
Þakka ber Orkubússtjóranum fyrir þessa áhugaverðu upplýsingagjöf um leið og lýst er þeirri skoðun, að sjálfsagt sé að styðja Vestfirðinga á þeirri vegferð, sem þarna er lýst, til að auka afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum og draga úr sótmengun og losun CO2. Afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum er hið langminnsta á landinu, og samfélaginu (ríkisvaldinu) ber skylda til þess að jafna þann aðstöðumun, sem nú stendur Vestfirðingum fyrir þrifum. Í þessum efnum hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra mikilvægu hlutverki að gegna. Hann hefur lýst yfir siðferðilegum stuðningi við þessi áform Vestfirðinga, en þau verða ekki í askana látin. Hann verður að láta hendur standa fram úr ermum og láta verkin tala varðandi Vatnsdalsvirkjun. Væmið malarafturhaldið í þéttbýli suð-vestur-hornsins mun rísa upp á afturfæturna í formyrkvuðu ofstæki sínu, og það getur orðið harðsnúinn pólitískur bardagi. Menn verða einfaldlega að verða tilbúnir til að láta sverfa til stáls gegn svartnættinu, sem hér tröllríður húsum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)