Sanngirnismál Vestfirðinga

Það má hiklaust halda því fram, að sanngjarnt sé, að allir landshlutar búi við lágmarks afhendingaröryggi raforku, en það er nægilega trygg afhending raforku, sem kemur í veg fyrir kostnaðarsamt straumleysi, sem sé þá hið mesta einu sinni óvænt á 5 ára fresti og vari í minna en einn stundarfjórðung.  Á Vestfjörðum eru straumleysin árlegur viðburður og vara einni stærðargráðu lengur en hér er miðað við.  Það er ekki bara algerlega óviðunandi, heldur til vanza fyrir samfélag, sem framleiðir meiri raforku á mann en annars staðar þekkist. 

 Morgunblaðið hefur lagt Vestfirðingum gott lið í sanngirnisbaráttu þeirra fyrir leyfi til að virkja og fyrir öflugra og öruggara flutningskerfi raforku með jarðstrengjavæðingu á vegum Landsnets. Fjölmargar greinar hafa birzt í blaðinu Vestfirðingum til stuðnings í réttlætisbaráttu þeirra, og má benda á grein Halldórs Halldórssonar 04.08.2023.  Þann 2. ágúst 2023 birtist Sviðsljósgrein í blaðinu eftir blaðamann þess, Klöru Ósk Kristinsdóttur, undir fyrirsögninni:  

"Vestfirðinga skortir örugga orkuöflun".

Hún hófst þannig:

"Varaafl á Vestfjörðum nægir ekki til þess að bregðast við aukinni orkunotkun með nýjum atvinnutækifærum, segir Elías Jónatansson, Orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, í samtali við Morgunblaðið. 

Viðvarandi orkuskortur hefur verið á Vestfjörðum undanfarin ár og því nauðsynlegt að bregðast við í takti við uppbyggingu á svæðinu.  Orkunotkun byggist að hálfu á orku, sem flutt er eftir Vesturlínu inn á Vestfirði, og ef línan verður straumlaus, er brugðist við með því að gangsetja varaaflsstöðvar.  

Þær varaaflsstöðvar, sem nú eru fyrir hendi, duga til þess að mæta að fullu straumleysi eða aflskorti í raforkukerfinu m.v. núverandi notkun, en Elías segir það þó annað mál, að notkunin eykst á svæðinu."

Vestfirðir eru eitt af vaxtarsvæðum landsins um þessar mundir, og er allur þessi vöxtur í útflutningsgreinum, aðallega fiskeldi og ferðalögum útlendinga þangað  ásamt vinnslu sáragræðandi efna úr þorskroði.  Orðspor allrar þessarar starfsemi er reist á hugtakinu sjálfbærni, þ.á.m. við raforkuvinnslu.  Við þessar aðstæður grefur staða raforkumálanna undan orðspori þeirrar vöru, sem Vestfirðingar markaðssetja á heimsmarkaðinum  undir formerkjum sjálfbærni. Vestfirðir eru á einum 132 kV geisla út frá 132 kV Byggðalínu, sem eftir nokkur ár verður vonandi 220 kV hringhluti, lokað með 132 kV á SA-landi, en það yrði of í lagt að leggja 220 kV línu til Vestfjarða, og viðbótar 132 kV lína þangað verður að lúta í lægra haldi fyrir vatnsaflsvirkjunum á Vestfjörðum frá hagkvæmnisjónarmiðum og sjónarmiðum um afhendingaröryggi raforku. 

Það eru ágætis virkjanakostir fyrir hendi á Vestfjörðum, sem geta útrýmt orðsporsáhættu Vestfirðinga, þótt núverandi Vesturlína sé í lamasessi um langan tíma.  Það mun létta á yfirlestuðu landskerfinu, ef ekki verður að jafnaði þörf á raforku til Vestfjarða um Vesturlínu.  Ahendingaröryggi rafmagns er hið langlakasta á Vestfjörðum m.v. aðra landshluta, og vegna ofangreinds vaxtar er brýn þörf á úrbótum.  Margt hefur vitlausara og óþarfara verið gert á Alþingi en að setja sérlög um um að jafna aðstöðu Vestfirðinga að þessu leyti og að draga um leið sérstaklega mikið úr olíunotkun þeirra.  Tvær flugur í einu höggi er ekki slæmt. 

"Með það að markmiði að tryggja orkuöryggi á Vestfjörðum hefur Orkubúið kallað eftir því, að umhverfisráðherra endurskoði friðlýsingarskilmála í Vatnsdal, til þess að hægt sé að fara í orkunýtingu þar.  Útilokað er að segja til um tímarammann á því verkefni, en "ef allt gengur vel, virkjunin kemst inn í rammann og fær eðlilega umfjöllun, þá getum við jafnvel séð virkjun rísa fyrir 2030", segir Elías.

"Með aukinni orkunotkun, nýjum atvinnutækifærum og fólksfjölgun fyrir árið 2030 er ekki hægt að tryggja nægt varaafl."  Því getur komið til þess, að byggja þurfi upp varaafl á svæðinu til þess að halda uppi sama þjónustustustigi og við höfum í dag, þ.e.a.s. ef aflið fæst ekki með virkjunum eða með styrkingu landlínunnar.  Elías segir það þó ekki ásættanlegt lengur að tryggja orkuöryggi með því að reisa dísilstöðvar "fyrir utan, að það er þvert á stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum"."

Orkubú Vestfjarða hefur nú gert skilmerkilega grein fyrir stöðu orkumála á veitusvæði sínu og fært greinargóð rök fyrir þeim leiðum, sem heimamenn telja vænlegast að fara til að snúa orkumálum sínum til betri vegar, sem er brýnt.  Nú er komið kjörið tækifæri fyrir Guðlaug Þór Þórðarson að sýna, hvers hann er megnugur til að greiða götu Vestfirðingu á málefnasviðum sínum sem ráðherra.  Ef ekkert vitrænt kemur fljótlega frá honum um þessi efni, er vandséð, til hvers hann situr í ríkisstjórn.  

Friðlýsingarskilmálar eru ekki endanleg ákvörðun ríkisvaldsins, heldur breytingum undirorpnir, einfaldlega af því, að allt er í heiminum hverfult, og tæknin við hönnun og framkvæmdir virkjana og flutningsmannvirkja frá þeim, tekur verulegum framförum í tímans rás.  Þá eiga viðhorf heimamanna á hverjum tíma að vega verulega þungt við ákvarðanatöku, ef raunverulegra lýðræðissjónarmiða er gætt. 

Ef það er svo, að afturhaldið í landinu, sem á sína fulltrúa við ríkisstjórnarborðið um þessar mundir, ætlar að leggjast þversum gegn þessu, þá á það að verða kornið, sem fyllir mælinn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. 

    


Bloggfærslur 14. ágúst 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband