Ofstæki loftslagskirkjunnar

Illvígum loftslagsáróðri er beint að almenningi til að fá hann til að breyta um lifnaðarhætti og til að ryðja brautina fyrir stjórnmálamenn til að auka skattheimtuna í nafni meintrar loftslagsvár.  Þetta er oft á tíðum svívirðilega falskur málflutningur.  Það verður að hafa í huga í þessu sambandi, að verstu mengunarþrjótarnir eru í Austur-Asíu, og þeir gera ekkert með þessar áhyggjur, t.d. Kína og Indland, og á meðan svo er, mun ekki nást mikill árangur í að draga úr losun koltvíildis á heimsvísu. Meðal annarra orða: hvenær varð styrkur koltvíildis í andrúmsloftinu svo mikill, að mikilvægi vatnsgufunnar við að skerma endurkast hitageisla frá jörðu hyrfi algerlega í skuggann ? 

Þessi staða mála ógnar samkeppnisstöðu Vesturlanda í heimsviðskiptunum og er þess vegna viðsjárverð.  Síðasta fálm búrókrata í Brüssel út í loftið í þessari skattheimtu er væntanlegt kolefnisgjald í skip.  Það er fálm út í loftið af þeirri einföldu ástæðu, að það er enn engin staðkvæmdarvara í sjónmáli fyrir jarðefnaolíu til að knýja skipin, og þess vegna er enginn raunhæfur hvati fólginn í þessari gjaldtöku.  Þar af leiðandi er þetta skattheimta.  Hvernig ætla stjórnmálamenn að verja þessu skattfé ?  Hvaða gæluverkefi skyldu verða fyrir valinu ?  

Utanríkisráðuneytið hefur enn einu sinni opinberað áhugaleysi sitt og/eða getuleysi við að greina íslenzka hagsmuni og rýna reglusetningu Evrópusambandsins (ESB) m.t.t. að virkja undanþágur með röksemdafærslu um séraðstæður Íslendinga. Þegar uppgjafartónninn berst úr þessu ráðuneyti, er stundum eins og ráðuneytið sé orðið handgengið bákninu í Brüssel. 

Flutningskostnaður til og frá Íslandi er hærra hlutfall af vöruverði til viðskiptavina en tilvikið er fyrir nokkurt annað EES-land.  Af hverju hringir sú staða mála engum viðvörunarbjöllum í utanríkisráðuneytinu og viðskiptaráðuneytinu ?  Þessi staða máls er til þess fallin að rýra lífskjör fólks á Íslandi meira en í nokkru öðru Evrópulandi.  Það getur enginn alvöru stjórnmálamaður skellt skollaeyrum við því, en það mun stjórnarandstaðan á Alþingi þó gera með heiðarlegum undantekningum, af því að vinstrið þar er gengið ESB á hönd.   

Þá að hræðsluáróðrinum. Angi hans snýst reyndar um hamfarakólnun á Íslandi, sem reyndar er raunveruleg hætta á til lengri tíma litið, þegar út úr núverandi hlýskeiði kemur, en áróðurinn snýst hins vegar um það, að núverandi hlýskeið, sem er alls ekki enn það hlýjasta í seinni tíma jarðsögu, muni valda svo mikilli jökulbráðnun á norðurhveli, að Norður-Atlantshafið muni kólna svo mikið, að stórlega dragi úr styrk Golfstraumsins hlýja norður á bóginn. Mælingar gefa þó alls engar vísbendingar um þetta. 

Morgunblaðið átti viðtal við Halldór Björnsson, veður- og haffræðing á Veðurstofu Íslands, um þessi mál 27. júlí 2023 undir fyrirsögninni: 

"Stöðvun hafstrauma boðuð við Ísland"

"Tilefni spjallsins er grein í vísindatímaritinu "Nature", sem boðar stöðvun hafstraums, sem þar gengur undir nafninu AMOC, "The Atlantic meridional overturning circulation", á 21. öldinni, straums, sem er töluvert víðförulli en Golfstraumurinn og flytur hlýjan sjó til norðurhvels jarðar, en kaldan suður á bóginn."

""Mjög lengi hafa vangaveltur verið uppi á borðinu [svo ?!] um, hvort veltihringrásin sé óstöðug, þ.e.a.s. ef það hlýnar of mikið eða vatnið norðan við verði of ferskt, t.d. við mikla rigningu eða hressilega bráðnun Grænlandsjökuls, geti þessi straumur ekki lengur myndað djúpsjó, þá væri í raun búið að slökkva á honum", heldur Halldór áfram."

Óskýrar greinar af þessu tagi um viðurhlutamiklar breytingar í náttúrunni geta hæglega vakið upp óþarfa ótta almennings, ef hvorki höfundarnir né útgefandinn gera grein fyrir samhenginu og raunstöðunni.  Aðalatriðið er, að engar mælar gefa enn vísbendingar um þessa þróun, svo að hér er aðeins um fræðilegar vangaveltur að ræða. Halldór gerir grein fyrir samhenginu:

 ""Þótt AMOC hyrfi alveg, er eftir sem áður mikill varmaflutningur inn á svæðið frá hafinu og reyndar einning frá lofthjúpinum; það er mikilvægt að hafa í huga, að lofthjúpurinn flytur meiri varma inn á þetta svæði en hafið gerir", segir haffræðingurinn.  Þar með segir hann, að aldrei kæmi til þess, þótt AMOC straumurinn stöðvaðist, að hitaflutningur inn á hafsvæðið við Ísland legðist af með öllu; hann mundi einfaldlega minnka."

Þannig varð 1 fjöður að 10 hænum.  Það eru svona mál, sem Loftslagsráð grípur á lofti án merkilegrar greiningar og kastar fram sem hrollvekju.  Nú hefur formaður þessa einkennilega ráðs lýst því yfir við fjölmiðla (11.08.2023), að nauðsynlegt sé, að Íslendingar verði leiðandi í að setja kolefnisfría orkugjafa í skip sín til að knýja þau.  Hvers konar bolaskítur er þetta nú ?  Hvers vegna og hvernig á smáþjóð norður í Atlantshafi að gefa tóninn fyrir risaútgerðir heimsins, sem enn hafa enga lausn á reiðum höndum.  Þessi furðuformaður talar hins vegar eins og álfur út úr hól um, að skattlagning ESB sé nauðsynlegur hvati, svo að útgerðirnar teygi sig í þessa lausn.  Það er von, að losun landsmanna á koltvíildi aukist fremur en hitt, þegar ráðgjafarnir eru af þessari hlaupvídd. 

Halldór skýtur síðan hræðsluáróðurinn um stöðvun varmaflutnings með hafstraumum á kaf:

""Loftslagslíkön ná ekki öll að herma þetta; þarna erum við á jaðri vísindalegra rannsókna, og menn vita ekki alveg, hvernig á að takast á við þetta.  En í loftslagslíkönum, þar sem dregur úr styrk AMOC, sem er reyndar í mjög mörgum líkönum, er það yfirleitt þannig, að maður sér einhverja kalda bletti í Norður-Atlantshafi, en þeir ná ekkert endilega til Íslands, ekki allir, og yfirleitt eru þeir tímabundnir, taka kannski 10-50 ár", segir Halldór."

Það er auðvelt að hrapa að vitlausri niðurstöðu, og það er einkenni flautaþyrla.  Áður en þeir fara að hvetja íslenzkar skipaútgerðir til að draga úr losun sinni, ættu þeir að reikna út, hver sú losun er í samanburði við meðaltalslosun íslenzkra eldfjalla á ári.  Það er nefnilega þannig, að losun íslenzkra skipafélaga hefur engin merkjanleg áhrif á hlýnun jarðar, en það hafa eldfjöllin, þegar þau eru í stuði.

 

 


Bloggfærslur 24. ágúst 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband