17.9.2023 | 17:22
Engin spurn eftir brambolti Svandísar með sjávarútveginn
Það er gömul saga og ný, að stjórnlyndir stjórnmálamenn verja tíma sínum í gæluverkefni sín án tillits til gagnsemi vinnu þeirra fyrir þjóðarhag eða eftirspurn. Er fólkið við sjávarsíðuna, sem hefur beinna hagsmuna að gæta af velgengni sjávarútvegsins, að biðja um kák út í loftið af hálfu ríkisins, eins og matvælaráðherrann, Svandís Svavarsdóttir, hefur nú boðað ? Hvað eiga svona óvönduð og algerlega óþörf vinnubrögð gagnvart atvinnugrein í bullandi samkeppni á erlendum mörkuðum að þýða ? Er til of mikils mælzt, að sósialistinn láti hreinlega sjávarútveginn í friði, eins og er meginboðskapur þess 40 manna hóps, sem ráðherrann fékk til að ráðleggja sér breytingar breytinganna vegna. Enn sýnir Svandís Svavarsdóttir af sér afleita stjórnsýslu, sem undirstrikar, að hún er ófær um að gegna ráðherrastörfum, svo að gagnist landi og lýð.
Þingmenn eru margir hverjir nægilega vel jarðtengdir og með "fulle fem" til að láta ekki bjóða sér svona "trakteringar", sem Svandís býður upp á. Um þetta vitnar frétt Ólafs E. Jóhannssonar í Morgunblaðinu 31. ágúst 2023 undir fyrirsögninni:
"Uppfyllir markmið um sjálfbærar veiðar".
Hún hófst þannig:
""Ég lít þannig á, að allt pólitískt samráð sé eftir, og fyrir mitt leyti set ég alla fyrirvara við hugmyndir um grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, sem ekki samrýmast því, sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna", segir Teitur Björn Einarsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, sem sæti á í atvinnuveganefnd Alþingis.
Leitað var eftir viðbrögðum Teits Björns við tillögum Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, sem kynntar voru á þriðjudag um hækkun veiðigjalda í sjávarútvegi, uppboð á 5,3 % aflaheimilda ríkisins, þ.e. byggðakvóta, sem og að stokka þann hluta kerfisins upp, o.fl."
Sjávarútvegurinn gengur vel, borgar hlutfallslega meira en aðrir atvinnuvegir í sameiginlegan sjóð landsmanna, er kjölfesta landsbyggðarinnar og stendur sig vel í sjálfbærnimálum, þótt nothæfa tækni vanti enn til að umbylta orkumálum hans.
Við þessar aðstæður er engin glóra í því, að fúskari í ríkisstjórn setji fram tillögur um þennan atvinnuveg einvörðungu til að fullnægja pólitískum duttlungum sínum. Þeir tímar eru löngu liðnir á Íslandi, að ráðherrar geti leikið sér að vild með þessa atvinnugrein, af því að hún var oft á heljarþröminni. Engin greining liggur að baki því, að þjóðhagslega hagkvæmt sé að hækka enn háa skattheimtu, og ekkert samráð hefur verið haft við sveitarfélögin um breytingar á byggðakvóta og strandveiðum. Að venju er málatilbúnaður matvælaráðherra ömurlega óvandaður.
""Það fyrsta, sem við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins munum gera, er að bera saman þessar hugmyndir við það, sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Mér sýnist á kynningunni á þessum hugmyndum, að ýmislegt þar rúmist mjög illa innan marka sáttmálans", segir Teitur Björn.
Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um, að gerður verði samanburður á íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu og öðrum fiskveiðistjórnunarkerfum með það fyrir augum að meta samkeppnishæfni íslenzks sjávarútvegs. Þetta er grundvallaratriði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Þetta þurfum við sjálfstæðismenn að gaumgæfa mjög vel", segir Teitur Björn og bendir á, að í kynningu ráðherrans sé ýmislegt, sem passi ekki við niðurstöður og tillögur, sem fram komu hjá hinum 4 verkefnahópum, sem stóðu að Auðlindinni okkar og tillögur ráðherrans sagðar byggja á."
Ef allt er með felldu í þingflokki sjálfstæðismanna, mun hann blása fúski og blekkingum matvælaráðherra út af borðinu. Að baki hugmynda ráðherrans liggur engin heildstæð þekking á málefnum sjávarútvegsins né greiningarvinna um það, er verða mætti til að auka þjóðhagslega hagkvæmni sjávarútvegsins. Harðari skattheimta dregur óhjákvæmilega úr samkeppnishæfni hans, því að þá minnkar fjárhagslegt bolmagn hans til fjárfestinga, nýsköpunar og arðgreiðslna, en minni arðgreiðslugeta hans en annarra dregur úr áhuga fjárfesta á honum, og þar með mun fjármagnskostnaður hans vaxa, sem hvorki er fólki við sjávarsíðuna né opinberum sjóðum gagnlegt.
Ekkert sveitarfélag eða hagsmunaaðilar hafa óskað eftir uppboði á byggðakvóta, enda vandséð, að slíkur auðvaldsgjörningur megi gagnast byggðum landsins.
Hugmyndir matvælaráðherra eru ættaðar úr hliðarveruleika hennar, eru illa ígrundaðar og án nokkurs jarðsambands. Hún ætti að hætta að grauta í því, sem hún hefur engan skilning á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)