5.9.2023 | 11:24
Binda verður enda á kukl og fúsk matvælaráðherra
Matvælaráðherra er í pólitískri herferð gegn núverandi markaðskerfi í sjávarútvegi og ætlar að festa klær ríkisvaldsins á þessum grunnatvinnuvegi landsins, þótt enginn skilningur eða þekking sé fyrir hendi hjá hinu opinbera um rekstur og eignarhald útgerða. Ráðherrann beitir nú kafbátahernaði til að draga dul á ólögmætar aðferðir sínar við leit að upplýsingum um "stjórnunar- og eignatengsl" í sjávarútvegi, sem hún ætlar að nota til að koma höggi á atvinnugreinina. Sannleikurinn er sá, að ráðuneytið beitir fyrir sig Samkeppniseftirlitinu (SKE) með sínum víðtæku rannsóknarheimildum í nafni varðstöðu um samkeppni með ólögmætum hætti, og forstjóri SKE hefur látið þennan ósvífna og óvandaða ráðherra draga sig ofan í svað óheilinda og blekkinga. Fyrir þessar sakir eru bæði brottræk, og hefur áður farið fé betra.
Andrea Sigurðardóttir á Morgunblaðinu hefur gert þessu máli rækileg skil í Morgunblaðinu í frétt í blaðinu 19. ágúst 2023 undir fyrirsögninni, "Frumkvæðið var ráðuneytisins", og í Baksviðsfrétt 22. ágúst 2023 undir fyrirsögninni, "Aðilar að samþykki án samþykkis". Ritstjórar Morgunblaðsins hafa síðan lagt út af þessari vönduðu vinnu blaðamannsins og dregið sínar ályktanir í einarðri og vel rökstuddri forystugrein 25. ágúst 2023, þar sem ráðherrann og handbendi hennar, forstjóri SKE, eru fundin sek um svo alvarlegan trúnaðarbrest gagnvart Alþingi og fólkinu í landinu, að hollast er fyrir þau að taka pokann sinn. Siðferðisvitund hvorugs þeirra er þó með þeim hætti, að þau muni nokkru sinni taka það upp hjá sjálfum sér. Nú er spurning, hvort sjálfhreinsigeta stjórnkerfisins er næg til að losa sig við þessi skemmdu epli, eða er valdhrokinn slíkur og spillt hugarfar slíkt, að stjórnmálamanni og embættismanni leyfist að blekkja þing og þjóð með samanteknum ráðum ? Það væri einsdæmi í hinum þróaða, vestræna heimi.
Téð forystugrein bar skuggalega fyrirsögn, enda er málið ískyggilegt:
"Undirferli í æðstu stjórnsýslu".
Þar gat þetta að líta:
"Það er grafalvarlegt mál, að sjálfstæð eftirlitsstofnun hins opinbera fari svo gersamlega út af sporinu, en það er þó ekki síður undirferlið - um stórt og smátt, gagnvart bæði Alþingi og almenningi - sem mestar áhyggjur vekur.
Markmiðið með athuguninni kemur skýrt fram í 1. grein samningsins: "Á grunni stjórnarsáttmála og annarra áherzlna matvælaráðherra vinnur matvælaráðuneytið nú að heildarstefnumótun í sjávarútvegi undir yfirskriftinni Auðlindin okkar. Liður í því starfi er kortlagning stjórnunar- og eignatengsla í sjávarútvegi."
Þessi stefnumótunarrembingur matvælaráðherra um málefni sjávarútvegsins er algerlega óþarfur og beinlínis hlálegur, því að íslenzkur sjávarútvegur gengur ágætlega og þarf enga aðstoð ríkisvaldsins við að segja sér stöðuna og hvert stefna skal, því að hjá ráðuneytum og ríkisstofnunum ríkir algert þekkingarleysi á þörfum og viðfangsefnum sjávarútvegsins. Stefnumörkun sósíalistans Svandísar Svarsdóttur fyrir sjávarútveg verður óskapnaður og afturhvarf til fortíðar, þegar pólitískir kjánar höfðu ráð sjávarútvegsins í hendi sér. Bezta hugsanlega útkoman úr brölti Svandísar verður gjörsamlega gagnslaust plagg, montplagg í anda mótaðrar heilbrigðisstefnu ráðherrans. Þessi stefnumótunarárátta ráðherrans Svandísar er afleiðing sjúklegrar og fáránlegrar forræðishyggju hennar. Þetta sama fyrirbrigði með áætlanagerð og framleiðslufyrirskipanir ráðuneytanna gekk af Ráðstjórnarríkjunum dauðum. Engum heilvita manni dettur lengur í hug, að nokkurt minnsta vit geti lengur verið í því að láta ráðuneyti segja atvinnulífinu fyrir verkum. Svandís Svavarsdóttir er gjörsamlega óhæfur stjórnandi og stefnumótandi, nema e.t.v. fyrir sitt eigið heimili.
"Í 2. gr. samningsins segir svo, að með þessum fjárhagslega fyrirvara "hefur Samkeppniseftirlitið í samstarfi við Fiskistofu, Skattinn og Seðlabanka Íslands ákveðið að ráðast í athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi."
Í kynningu samningsins tveimur vikum síðar var skautað framhjá því og sagt, að stefnt yrði að samstarfi í þá veru. Eftirgrennslan Morgunblaðsins og upplýsingabeiðnir hafa leitt í ljós, að samningurinn var fals að þessu leyti, umræddar stofnanir áttu hvorki frumkvæði að né voru þær aðilar að samningnum. Seðlabankinn hefur svarið það allt af sér, Skatturinn hefur enn ekki svarað fyrirspurnum rúmum mánuði síðar, en Fiskistofa vísar á ráðuneytið um svör við fyrirspurnum og hefur ekki orðið við beiðni blaðsins um gögn málsins."
Í seinni tíma sögu lýðveldisins eru ekki dæmi um annað eins svínarí í æðstu stjórnsýslu landsins, þar sem ráðherra og forstjóri ríkisstofnunar leggja á ráðin um fádæma óheilindi og beinar lygar. Þessa starfsemi verður að stöðva. Hún er grútmorkin og ekki til nokkurs nýt. Það verður að refsa forstjóra SKE með því að leysa hann frá störfum, því að hann er uppvís að þýlyndi við ofstækisfullan ráðherra og að ósannindum út á við, og verði ráðherra ekki leystur frá störfum líka, verður a.m.k. að stöðva það, að hún beiti stofnunum ríkisins fyrir sinn pólitíska vagn með fjárframlögum frá ráðuneytinu. Þetta er misbeiting á pólitísku valdi.
"Vinnugögn og samskipti benda öll til þess, að frumkvæðið hafi legið hjá matvælaráðherra. Það er ekki fyrr en á seinni stigum, sem farið er að ræða um frumkvæði SKE, en um það segir Páll Gunnar, að með því sé verið að verja "trúverðugleika ráðuneytisins", svo [að] yfirvarpið verður öllum ljóst.
Eru þá alls órædd brögðin varðandi fjárheimildirnar, þar sem matvælaráðherra og Samkeppniseftirlit sniðganga fjárveitingarvald Alþingis.
Vélar Svandísar koma ekki alls kostar á óvart; hún hefur áður orðið ber að ólögmætri og vondri stjórnsýslu. Það sást nýverið af fyrirvaralausu hvalveiðibanni hennar, hæstaréttardómi yfir henni sem umhverfisráðherra árið 2011, og aftur fékk hún dóm, þá sem heilbrigðisráðherra, árið 2021 fyrir frelsisskerðingar, brot á meðalhófi, stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum."
Það liggur skítaslóðin eftir Svandísi Svavarsdóttur í ráðherrastóli. Það sýnir óstýrilæti og dómgreindarleysi hennar að geta alls ekki haldið sig innan valdmarka neins þeirra ráðherraembætta, sem hún hefur gegnt. Nú er nóg komið. Eðlilegt væri, að vantraust kæmi fram á hana á Alþingi, úr því að formaður vinstri-grænna er ófær um að losa ríkisstjórnina við hana. Sýnir það vel morknun og siðleysi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs að gera ekki meiri kröfur til ráðherra sinna en raun ber vitni um. Vonandi eru kjósendur VG ekki sömu gerðar að samþykkja hvaða óhæfu sem er í stjórnsýslunni og sjá, að VG á ekkert erindi við nútímann.
Morgunblaðið hefur rökstudda afstöðu í þessu máli:
"Ráðherra, sem segir þinginu ósatt, verður að láta af embætti. Embættismaður, sem verður uppvís að rangfærslum, hlýtur að hugleiða stöðu sína alvarlega. Ella verður einhver annar að gera það fyrir hann."
SKE væri nær að vinna að hagsmunum íslenzkra neytenda en að eltast við atvinnugrein, sem selur 95 % af afurðum sínum á erlendum mörkuðum í samkeppni við risafyrirtæki á íslenzkan mælikvarða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)