8.9.2023 | 15:02
Flett ofan af vindorkusamningi
Vindorkufélög eru ekki aðeins farin að bera víurnar í bændur og aðra landeigendur, heldur þegar farnir að gera samninga við þá. Frosti Sigurjónsson, hagfræðingur, hefur flett ofan af einum þeirra án þess þó að nafngreina samningsaðila. Þessi samningur er illur forboði um það, sem koma skal við beizlun vindorkunnar hérlendis. Sú beizlun er allsendis ótímabær á Íslandi, á meðan landsmenn eiga enn nóg af óvirkjuðum kostum vatnsafls og jarðgufu.
Ástæður þess, að þessi afstaða er tekin, eru einkum 3:
1) Inngrip í íslenzka náttúru á orkueiningu (MWh) eru einni stærðargráðu meiri í ferkm talið en inngripin vegna hefðbundinna íslenzkra virkjana, og lýtin í náttúrunni, hávaðinn og mengunin eru óþolandi mikil fyrir flesta þá, sem nærri koma.
2) Framleiðslukostnaður rafmagns með vindi er hár og vindknúnir rafalar, sem eru tengdir íslenzka raforkukerfinu, munu vafalaust valda hækkun á rafmagnsverði til almennings, a.m.k. ef hér verður innleitt markaðskerfi fyrir raforku að forskrift ESB-löggjafar, sem hefur verið leidd í íslenzk lög vegna aðildar landsins að EES-samninginum frá 1994.
3) Raforkuvinnsla með vindorku er tilviljanakennd og slitrótt. Ef markaðurinn leyfir, verður vindorkuverum leyft að framleiða, eins og þau geta, en vatnshverflar reglaðir á móti, sem aftur mun draga úr nýtni vatnsorkuveranna, sem þar koma við sögu. Mun áreiðanlegra og þjóðhagslega hagkvæmara er að halda áfram að virkja jarðgufu og vatnsafl, en samleikur þeirra í raforkukerfinu hefur þróazt með jákvæðum hætti út frá áreiðanleika orkuafhendingar og kjörnýtni á frumorkunni.
Samkvæmt Frosta fær leigutakinn 15 ár til rannsókna, leyfisöflunar og undirbúnings framkvæmda á hluta af landi landeiganda og fær óskoraðan rétt til framlengingar um 5 ár. Landeigandinn fær fastar leigutekjur á meðan á rannsóknum og undirbúningi stendur. Ársleigan er 170 ISK/ha fyrstu 5 árin og tvöföldun eftir 5 ár og aftur eftir 10 ár. Þetta leigugjald er smánarlega lágt, þegar tekið er tillit til þess ágangs, sem vænta má af hendi leigutakans við slóðagerð og við að reisa vindorkuver í tilraunaskyni. Einnig má taka mið af væntum tekjum af viðkomandi landi með öðrum hætti en orkuvinnslu, t.d. með skógrækt og sölu koltvíildiskvóta með bindingu koltvíildis. Frosti tekur mið af Bandaríkjunum, þar sem ársleigugjaldið jafngildir 1200 ISK/ha að hans sögn. Það er of lágt m.v. tekjur, sem hafa má nú orðið af sölu losunarheimilda koltvíildis. 2000 ISK/ha virðist vera lágmarks leiguverð á ári, ef hægt er að koma skógrækt við á landinu.
Þá er komið að þóknuninni fyrir að fá að umbylta landinu fyrir vegi, skurði og undirstöður burðarsúlna vindknúnu rafalanna. Leigugjaldið ætti að standa áfram, árlega verðbættar 2000 ISK/ha, og að auki ætti að koma framleiðslugjald, sem þarf að vera 3 % af söluandvirði raforkunnar, til að geta keppt við annars konar not af landinu, t.d. skógrækt til að binda koltvíildi og selja það á markaði.
Frosti skrifar í téðri Bændablaðsgrein, "að landeigandi fái 1,5 % af brúttóverði seldrar orku, sem að 10 árum liðnum hækkar í 2,0 %". Hann ber þetta saman við framleiðslugjald af vindorkuverum til landeigenda á Bretlandi, sem sé 5 %-6 % af andvirði orkusölunnar. Hér verður að hafa í huga, að jarðaverð er mun hærra á Bretlandi en á Íslandi og að í sumum tilvikum er um ágætis landbúnaðarland að ræða, sem fer undir vindorkuver á Bretlandi.
Eftir langan samningsgildistíma, 15-20 ár, fyrir undirbúning að framleiðslu tekur við 60 ára samningstími fyrir raforkuframleiðsluna. Í ljósi þess, að tæknilegur afskriftatími mannvirkjanna er um 25 ár, nema undirstaðanna, sem geta endst í öld, og að fjárhagslegur afskriftatími er enn skemmri, er samningstíminn 60 ár óeðlilega langur. Hann ætti að vera 20 ár með gagnkvæmum endurskoðunarákvæðum að 15 árum liðnum. Leigutakinn ætlar sér greinilega að endurnýja búnaðinn og halda áfram rekstri. Þá eru komnar nýjar rekstrarforsendur, og þar af leiðandi þarf endurskoðunarákvæði í samninginn, sem opni á nýjan samning að 15 árum liðnum frá upphafi rekstrartímabils, og verði nýr samningur að hafa náðst áður en hinn rennur út eftir 20 ára rekstrartíma.
Þá þarf að semja um geymslufé til að standa straum af hreinsun lands við lok rekstrartíma og að koma landinu í sem upprunalegast horf í samráði við landeiganda, eftir að rekstrartíma lýkur. Í sjóðinn gætu runnið um 2 % af árlegum sölutekjum vindorkuversins. Sjóður þessi verður að vera óaðfararhæfur (við gjaldþrot) og gæti verið í vörzlu viðkomandi sveitarfélags.
Grundvallaratriði fyrir landeigendur, sem vilja fórna landi sínu undir vindorkuver, er að gera sér grein fyrir verðmætunum, og hvaða kjör standa "vindorkuspekúlöntum" til boða erlendis. Yfirvöld verða að taka tillit til hagsmuna allra annarra, sem málið snertir, við útgáfu framkvæmdaleyfis og virkjunarleyfis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)