14.1.2024 | 09:32
Ramminn - misheppnað fyrirkomulag
Nú standa menn frammi fyrir gjaldþroti þess fyrrirkomulags að draga úr aðkomu stjórnmálamanna að vali á næstu virkjunum og að færa þetta að mestu leyti í hendur embættismanna með alls konar mótvægi á formi víðtæks kæruréttar framkvæmda. Allt of víðtækur réttur til að kæra ákvarðanatökur í öllu ferlinu hefur kyrkt það með þeim afleiðingum, að á undanförnum 10 árum hefur ekkert virkjunarleyfi og framkvæmdaleyfi verið veitt fyrir nýjum virkjunum yfir 10 MW, þótt stækkanir eldri virkjana hafi átt sér stað, t.d. hjá HS Orku. Skemmst er að minnast ofstækisláta aðallega aðkomumanna á Vestfjörðum út af fyrirætlunum um 50 MW virkjun þar, sem Vestfirðingar studdu, en kæfð var í fæðingu. Nú brenna Vestfirðingar dísilolíu í rafstöðvum til að anna spurn eftir raforku. Vitleysan ríður ekki við einteyming.
Vegna orku- og aflskorts þarf að brjóta kerfið upp. Orkustofnun veiti virkjunarleyfi fyrir verkefni, sem virkjunarfyrirtækin hafa rannsakað, sett í umhverfismat, hannað og sætt hefur afgreiðslu sveitarstjórnar. Orkuráðherra leggi það í hendur Alþingis að forgangsraða verkefnum og setja um þau framkvæmdalög. Eftir það sé ekki unnt að tefja málið með kærum, nema með lögbannskröfu fyrir dómstólum. Aðilar, sem hafa tjáð opinberlega fjandsemi sína gegn aukningu á framboði raforku í landinu verði úrskurðaðir vanhæfir til að standa að kærum gegn virkjana- og línuframkvæmdum.
Í Morgunblaðinu 28. desember 2023 birtist forystugrein undir heitinu:
"Orkan er okkur lífsnauðsyn".
Þar gerir höfundurinn að umtalsefni, hversu utan gátta sumir stjórnmálamenn eru í orkumálunum. Það má líklega að einhverju leyti rekja til þess, að hlutur Alþingis er minni en áður var í þessum málaflokki. Sú breyting reyndist ekki verða til góðs. Með því að þjóðkjörnir fjalli meir um þessi mál, má afnema áfrýjunarferli á gjörðum stjórnsýslunnar á þessu sviði.
Hvað sagði Morgunblaðið ?:
"Það var því ekki lítið undrunarefni, þegar orkuskorturinn var gerður opinber fyrir mánuði, að stjórnmálamenn létu margir sem hann kæmi þeim öldungis á óvart, þó að margoft hafi verið við því varað og um langt skeið, að í óefni stefndi.
Værukærðin um það er í raun óskiljanleg. Öllum hefur mátt ljóst vera, að fjölgun þjóðarinnar, mikill hagvöxtur, aukin orkunotkun, orkuskipti og öll önnur skilyrði leiddu til hins sama, að aukinnar orkuöflunar er þörf.
Það eru engar ýkjur að segja, að sú orkunýting sé ein helzta forsenda þess velmegunarþjóðfélags, sem Íslendingum hefur auðnazt að skapa í köldu og harðbýlu landi; forsenda hagvaxtar og hagsældar, fólksfjölgunar og lífskjara í fremstu röð þjóða heims.
Orkuöryggi er þjóðaröryggismál fyrir Íslendinga engu síður en aðrar þjóðir. Það er ein af frumskyldum stjórnvalda að sjá til þess, að því sé ekki ógnað og enn frekar, að það sé ekki vanrækt, eins og nú blasir við, að hefur gerzt."
Allt er þetta satt og rétt hjá Morgunblaðinu. Nú hefur þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Kragann, Jón Gunnarsson, fitjað opinberlega upp á því að mynda nýjan þingmeirihluta um nýjar virkjanir, því að VG þvælist fyrir þeim sjálfsögðu framfaramálum. Forsætisráðherra og formaður þessa óstjórntæka flokks staðfesti afturhaldssemi þessa flokks á tröppum Bessastaða á leið á Ríkisráðsfund 31.12.2023 með því að segjast ekki trúa því, að meirihluti gæti myndazt um að slá af faglegum kröfum við virkjanaundirbúning. Að valda töfum á því, að landið verði að nýju sjálfbært um raforku heitir í munni þess, sem alltaf leikur tveimur skjöldum, að uppfylla faglegar kröfur. Þetta eru alger öfugmæli. Ekki þarf að slá af verkfræðilegum kröfum né eðlilegum umhverfisverndarkröfum um að við hönnun verði beitt beztu tækni við að lágmarka inngrip í náttúruna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)