Adam Smith stendur keikur á stöpli með sínar kenningar

Adam Smith, 1723-1790, er nefndur "faðir hagfræðinnar".  Með riti sínu "The Theory of Moral Sentiments", 1759, lagði hann grunn að síðari höfundarverkum sínum á borð við "Wealth of Nations, 1776, - Auðlegð þjóða, sem oft er vitnað til sem þess hagfræðirits, sem lagði grunn að því, hvernig er auðveldast að sækja fram í efnalegu tilliti, bæði fyrir einstaklinga og samfélög.  Smith var enginn sérstakur auðjöfravinur, heldur bar hann hag almennings fyrir brjósti, og kenningar hans um það hafa gefizt vel.  Öðru máli gegnir um hagfræði- og þjóðfélagskenningar Karls Marx og Friedrichs Engels, sem fram komu um miðja öldina á eftir öld Adams Smith í Kommúnistaávarpinu, en þar var heilbrigðri skynsemi úthýst, hatursfull bylting boðuð og einokun ríkisvaldsins á öllum sviðum, kölluð "alræði öreiganna", skyldi taka við.  Í stuttu máli sagt er hvaða alræði sem er hættulegt og skaðlegt.  Enn sýpur heimurinn soðið af alræðiskenningunum, og þær valda ófriði og óheilbrigðri spennu í heiminum. 

Hannes Hólmsteinn Gissurarson minntist 300 ára afmælis Adams með grein í Morgunblaðinu 5. desember 2023 undir fyrirsögninni:

"Adam Smith enn í fullu fjöri".

Hún hófst þannig:

"Þótt á þessu ári séu liðin rétt 300 ár, frá því að Adam Smith, faðir hagfræðinnar, fæddist, eru hugmyndir hans enn sprelllifandi."

Adam Smith setti hagfræðihugmyndir sínar fram að vandlega íhuguðu máli.  Heimsspeki hans varð grunnurinn að hugmyndafræði Vesturlanda um einkaframtakið, framleiðniaukningu og dreifingu auðsins um samfélagið, sem af henni leiddi.  Hugmyndafræði hans dró ekki sérstaklega taum auðjöfra, en af sjálfu leiddi, að þeim, sem stóðu sig vel í frjálsri samkeppni, gat vaxið fiskur um hrygg. Það þekkjum við æ síðan og er ekki hið minnsta aðfinnsluvert, nema í huga marxistanna, sem alltaf ala á öfund og hafa horn í síðu velgengninnar. Adam Smith rökstuddi réttmæti gróða á frjálsum markaði með því, að eins gróði þyrfi ekki að vera annars tap.  

"Í Auðlegð þjóðanna, sem kom út árið 1776, varpaði Smith fram skýringu á því, hvernig einstaklingar og þjóðir gætu brotizt úr fátækt í bjargálnir.  Hún var fólgin í verkaskiptingunni.  Í frjálsum viðskiptum fá menn það frá öðrum, sem þá vantar og aðrir hafa, og láta aðra fá það, sem aðra vantar og þeir hafa.  Báðir græða, hvorugur tapar."   

Reynslan hefur sannað þessa kenningu.  Hún hefur bætt hag jarðarbúa gríðarlega frá því að heimsviðskiptin efldust í kjölfar loka kalda stríðsins.  Við þau umskipti dró að vísu úr iðnaðarframleiðslu Vesturlanda, um leið og hún hófst og efldist í þróunarlöndunum.  Aukin velmegun í einræðislöndunum, t.d. Kína og Rússlandi, hefur ekki ýtt undir lýðræðisþróun þar og aukna tilhneigingu til friðsamlegrar sambúðar við lýðræðislönd, nema síður sé, því að aukinni verðmætasköpun var þar beint til hernaðarþarfa, og öflugri her leiddi til hótana í garð nágranna, eins og Taiwan, og jafnvel blóðugrar innrásar í nafni heimsvaldastefnu, eins og Rússar eru dæmi um.  Öryggi Vesturlanda er um þessar mundir ógnað af þessum orsökum, og þá þarf að velja á milli öryggissjónarmiða og samkeppnishæfra vara frá þessum löndum.  Öryggið verður að vera í forgrunni á kostnað reglunnar um hagstæðustu verkaskiptinguna. 

"Náttúran hefur dreift mannlegum hæfileikum og landgæðum ójafnt, en frjáls viðskipti jafna metin, gera mönnum kleift að nýta hæfileika annarra og ólík gæði landa.  Saga síðustu 200 ára hefur staðfest kenningu Smiths, svo að um munar.  Þær þjóðir, sem auðvelda frjálsa samkeppni og stunda frjáls viðskipti, hafa stiklað á 7 mílna skóm inn í ótrúlega velsæld samanborið við fyrri tíma. Hinar sitja fastar í fátækt. 

Árlega er reiknuð út vísitala atvinnufrelsis fyrir langflest lönd heims á vegum Fraser-stofnunarinnar í Kanada.  Ef löndunum er skipt í fernt eftir atvinnufrelsi, þá eru meðaltekjur 10 % tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðunginum hærri en meðaltekjur allra í ófrjálsasta fjórðunginum.  Með öðrum orðum eru lífskjör fátækasta fólksins í frjálsustu löndunum betri en almenn lífskjör í ófrjálsustu löndunum."

 Þessi tölfræði segir mikla sögu, og væri forystufólki vinstri flokkanna á Alþingi nær að kynna sér og tileinka sér staðeyndir á borð við þessar áður en þeir setja á blað þvílíkt aumkvunarvert blaður og lýðskrum, eins og sjá mátti í áramótagreinum þeirra.  Þar réði fávísi og þröngsýni ferðinni og sá reginmisskilningur, að ríkissjóð megi nota í miklu meiri mæli en nú til að efla hag lægstu tíundarinnar.  Lausnin er að efla atvinnufrelsið í landinu og þar með að draga úr skattheimtu, sem á sumum sviðum jaðrar nú þegar við eignaupptöku, t.d. í sjávarútvegi (1/3 framlegðar í veiðigjöld, sem sósíalistinn á viðkomandi ráðherrastóli vill þó hækka enn meira í glóruleysi). 

"Í verkum sínum kom Adam Smith einnig orðum að þeirri merkilegu hugmynd, að skipulag krefjist ekki alltaf skipuleggjanda.  Það gæti sprottið upp úr frjálsum samskiptum, gagnkvæmri aðlögun einstaklinga.  Markaðurinn er sá vettvangur, sem menn hafa til að skiptast á vöru og þjónustu.  Þar hækka menn eða lækka verð á vöru sinni og þjónustu, uns jafnvægi hefur náðst [á] milli framboðs og eftirspurnar, innflutnings og útflutnings, sparnaðar og fjárfestingar.  Þetta jafnvægi er sjálfsprottið, ekki valdboðið. Það fæst með verðlagningu, ekki skipulagningu.  Atvinnulífið getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt.  Auðvitað er það jafnvægi, sem þar getur náðst, ekki fullkomið, en það er þó sífellt að leiðrétta sig sjálft eftir þeim upplýsingum, sem berast með gróða eða tapi.  Menn græða, ef þeim tekst að fullnægja þörfum viðskiptavinanna betur en keppinautarnir.  Þeir tapa, ef þeir gera þrálát mistök og skeyta ekki um breytilegan smekk og áhugamál viðskiptavinanna." 

 Þarna gerði Adam Smith grein fyrir lykilatriði, sem var ekki nýtt fyrirbrigði þá, heldur ævagamalt.  Kóngurinn, hertoginn, yfirvöldin, þurftu ekki að skipulegja allt, til að það virkaði, eins og bezt varð á kosið.  Þetta var meginstyrkur lýðræðisþjóðfélaganna umfram þjóðfélög kommúnista, þótt kommúnistar hafi haldið, að skipulagning ráðuneytanna á framleiðsluöflunum gæfi þeim forskot á auðræðið.  Kommúnisminn gat aldrei svarað þörfum neytenda, því að kommúnistar tóku hreinlega markaðinn úr sambandi.  Ef hægt er að koma því við, er bezt að láta markaðinn um að finna beztu lausnina. Í nútíma þjóðfélögum finnst þó alltaf fyrir stjórnvaldsaðgerðum, sem áhrif hafa á markaðina.  Nægir að nefna verðlagningu seðlabankanna á fjármagni.  Fjármagnskostnaður hefur mismikil áhrif á hegðun manna á markaði, því meiri þeim mun lengra frá langtíma jafnvægisástandi vextirnir eru í aðra hvora áttina, eins og Íslendingar hafa kynnzt á eigin skinni á tímabilinu 2020-2024.  

 Nú er orkuskortur á Íslandi.  Það er vegna þess, að yfirvöld hafa lamað framboðshlið þessa markaðar með því að gera pólitískum furðudýrum það kleift að tefja virkjunar- og flutningslínuframkvæmdir endalaust. Á sama tíma er dótturfélag Landsnets að undirbúa að koma á koppinn uppboðsmarkaði fyrir raforku að hætti Evrópusambandsins (ESB), sem gafst upp á þessum markaði, þegar markaðsbrestur varð á framboðshlið, eins og hér er, þegar Rússar skrúfuðu fyrir jarðgas til ESB, og síðar, þegar viðskiptabann var sett á jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi.  Við núverandi ójafnvægi á raforkumarkaði, sem stjórnvöld hafa  valdið með aðgerðarleysi gagnvart þjóðhættulegum töfum, væri fráleitt, að sömu stjórnvöld settu á laggirnar nýjan markað fyrir raforku. Markaðsbresturinn mun halda áfram til 2027 eða lengur. Hefur orkuráðherrann tjáð sig um þetta ? Hann virðist vera dálítið utanveltu.  

 "Hann [AS] taldi ríkið gegna þremur mikilvægum hlutverkum: að tryggja landvarnir, halda uppi lögum og reglu og sjá um, að nóg yrði framleitt af s.k. samgæðum (public goods).  M.a. hafði hann áhyggjur af því, að verkaskiptingin gæti þrengt óhóflega sjónarhorn einstaklinganna, og þess vegna þyrfti ríkið að víkka það út með öflugi alþýðumenntun."

 Hér háttar þannig til, að ríkisvaldið hefur stórskaðað menntakerfið með handónýtri og nánast grátbroslegri aðalnámsská grunnskóla, sem Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, ber höfuðsökina á.  Ríkinu er sem sagt ekki treystandi fyrir menntamálunum.  Þá er spurningin, hvort skipulegt nám getur orðið á leik- og grunnskólastigi án aðalnámskrár ?  Hvernig hefði Adam Smith svarað þeirri spurningu ?  Skólarnir þurfa einhverja leiðisnúru, og það gætu t.d. verið kröfur um kunnáttu eftir 3. 6. og 9. bekk, sem metin væri á samræmdum prófum. 

 "Því er líka haldið fram, að hugmyndin um hagvöxt standist ekki, þega til langs tíma er litið.  Kapítalisminn, hugarfóstur Adams Smiths, sé ekki sjálfbær.  Nú var Smith sjálfur enginn sérstakur stuðningsmaður kapítalista.  Hann studdi frjálsa samkeppni, af því að hún er neytendum í hag, og hann taldi með sterkum rökum verkaskiptinguna greiðfærustu leiðina til almennrar hagsældar. En í raun og veru er hagvöxtur sjaldnast fólginn í að framleiða meira, heldur miklu frekar í að framleiða minna, minnka fyrirhöfnina, finna ódýrari leiðir að gefnu marki, spara sér tíma og orku.  Auk þess er hagvöxturinn afkastamesti sáttasemjarinn.  Í stað þess að auka eigin hlut með því að hrifsa frá öðrum geta menn reynt að auka hann með því að nýta betur það, sem þeir hafa, og bæta það síðan, hlúa að því, svo að það vaxi og dafni í höndum þeirra.  Og þegar að er gáð, eru mengun og rányrkja vegna þess, að enginn á og gætir auðlinda.  Umhverfisvernd krefst umhverfisverndara, einkaeignarréttar eða einkaafnotaréttar á auðlindum." 

Þegar kommúnisminn lognaðist út af, varð sjálfdauður í eigin viðjum kúgunar, ófrelsis og forræðishyggju, þá tóku fylgjendur hans á Vesturlöndum, sem aldrei höfðu fundið fyrir honum á eigin skinni og ætluðu að fljóta ofan á, eins og hrossataðskögglarnir, þegar hann ýtti markaðshyggjunni af stalli, að leggja til atlögu við kenningar Adams Smith, og höfðu þær atlögur raunar hafizt fyrr, t.d. með bókinni "Limits to Growth" - Endimörk vaxtar, þar sem hagvöxturinn var skotspónninn.  Þessar atlögur reyndust aumkvunarvert vindhögg, og allir spádómarnir um þurrð hráefna hafa reynzt ímyndun ein, því að markaðurinn finnur alltaf lausn, ef hinni ósýnilegu hönd hans er leyft að virka.  Þetta er eitur í beinum þeirra, sem eru illa haldnir af forræðishyggju, og þeir eru reyndar líka oft haldnir messíasarkomplexum.  Nú er fjöldi fólks að reyna að bjarga heiminum frá "hamfarahlýnun" og fjölmenna af því tilefni á alls konar ráðstefnur, en samkvæmt tölfræðilegri greiningu á langri röð hitamælinga, beinna og óbeinna, er engin hamfarahlýnun í gangi. Samnefnari loftslagssafnaðarins er einmitt, að snúa þurfi hagvextinum við og framleiða minna af vörum og þjónustu.  Þetta gengur þvert á baráttu verkalýðshreyfingarinnar um stöðugar kjarabætur og fulla atvinnu. Hvers vegna umber verkalýðshreyfingin kjánalegan hræðsluáróðurinn ?  

                                                                     

Bloggfærslur 17. janúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband