20.1.2024 | 18:15
Vestfirðingar hart leiknir
Vestfirðingar verða illa úti í núverandi ófremdarástandi raforkumálanna. Þeim hefur stjórnvöldum með Vinstri hreyfinguna grænt framboð í fararbroddi tekizt að klúðra svo illilega, að stórfelldum kostnaðarauka veldur í samfélaginu, og vegna álagsaukningar stefnir í þjóðarvoða með straumleysi/og eða skömmtun á forgangsorku. Það er við þingið og stjórnarráðið að sakast, sem í hugsunarleysi og/eða af ráðnum hug hafa sett upp slíkar hindranir fyrir leyfisveitingum nýrra virkjana og flutningslína, að segja má, að flest hafi gengið á afturfótunum hjá virkjanafyrirtækjunum og Landsneti á undanförnum árum. Að grípa ekki inn í þessa óheillavænlegu rás viðburða er afar ámælisvert m.v. þá almannahagsmuni, sem í húfi eru.
Það gefur auga leið, að íbúar "kaldra svæða", þ.e. þar sem nýtanlegs jarðvarma nýtur ekki við,eða aðeins í litlu mæli, eiga sérstaklega undir högg að sækja, því að þeir hafa samið um kaup á ótryggðri raforku fyrir hitaveitur sínar og verða nú að kynda þær með olíu. Dæmi um orkufyrirtæki í þessari stöðu er Orkubú Vestfjarða. Orkubússtjórinn, Elías Jónatansson, hefur ritað afar fróðlegar og vel samdar greinar í Morgunblaðið um orkumál Vestfirðinga, og ein þeirra birtist 2. janúar 2024. Áður en gripið verður ofan í hana er rétt að minnast á frétt, sem birtist 4. janúar 2024 og sýnir aðra hlið á kostnaðarauka orkuskortsins. Hún er frá Vestmannaeyjum, en þar hækkaði raforkuverð til hitaveitunnar um 20 % um áramótin síðustu, og var upp gefin skýringin orkuskortur. Þarna er lögmál framboðs og eftirspurnar að verki, en niðurgreiðslur munu koma til mótvægis úr ríkissjóði, að lofað er. Orkuskortur er tvímælalaus verðbólguvaldur og gerir markmið Íslands í losunarmálum koltvíildis grátbrosleg. Hvers konar stjórnvöld eru hér eiginlega og hafa verið við völd í 6 ár ? Tvískinningurinn er yfirþyrmandi.
Grein Elíasar bar yfirskriftina:
"Orkuskortur kostar 520 milljónir".
Hún hófst þannig:
"Engum dylst, að raforkuskortur er yfirvofandi á Íslandi [skortur á þegar umsaminni forgangsorku er yfirvofandi, nú þegar vantar um 500 GWh/ár af ótryggðri orku, glataðir nýir samningar á að gizka 1000 GWh/ár -innsk. BJo.]. Ekki eru þó öll sund lokuð, því [að] við getum áfram treyst á jarðefnaeldsneyti til að þreyja þorrann og góuna og flytjum inn eina milljón tonna ár hvert [auk eldsneytis á flugvélar og millilandaskip-innsk. BJo].
Því miður stefnir í það, að á árinu 2024 15-faldist olíunotkun Orkubús Vestfjarða (OV) frá árinu 2023, fari úr 220 kl í 3,4 Ml. Aukning í losun gróðurhúsalofttegunda verður þá 9,2 kt. Hægt er að vinna bug á þessu vandamáli og sóun fjármuna með virkjun innlendrar orku."
Útflutningstap og viðbótar innflutningskostnaður vegna þeirra hræðilegu stjórnvaldsmistaka, sem landsmenn súpa nú seyðið af, gæti farið yfir mrdISK 10 frá áramótum til vors 2024, og nákvæmlega engum náttúrugæðum hefur verið bjargað fyrir vikið. Hér er aðeins verið að draga úr hagvexti og tefja fyrir raunverulegum kjarabótum til launþega. Hvenær verður komið nóg af vitleysu vinstri grænna ?
"Vonandi verður hægt að fasa út stórum hluta af rafmagni til rafkyntra hitaveitna á Vestfjörðum með jarðhita og forgangsaforku til að knýja varmadælur. Markmið Orkubúsins hefur verið að fasa úr 12 MW af 16 MW afltoppi rafkyntu veitnanna. Ef ekki finnst meira en 30°C heitt vatn á Ísafirði, þá væri hugsanlegt að fasa út helmingi eða 8 MW af 16 MW.
Nauðsynlegt er að auka afltopp forgangsorku á Vestfjörðum , m.a. til að knýja varmadælur á kostnað skerðanlegrar orku. Í dag er það afl ekki til innan Vestfjarða, og ef ætlunin er að streyma aukinni orku um Vesturlínu, þá er augljóst, að byggja þarf upp samsvarandi olíuknúið varaafl innan Vestfjarða, þótt ekki sé nema til að tryggja óbreytt afhendingaöryggi, þegar línan er úti."
Það er knýjandi fyrir Vestfirðinga og raforkukerfi landsins að auka verulega framleiðslugetu á raforku innan Vestfjarða úr vatnsafli, og virkjunarkostirnir eru fyrir hendi. Einn var stöðvaður í Ófeigsfirði með ofstæki nokkurra aðvífandi umhverfisöfgamanna fyrir fáeinum árum, og nú hefur OV lagt til við orku-, umhverfis og loftslagsráðherra að ryðja hindrunum ríkisins á því úr vegi fyrir virkjun í Vatnsfirði. Hvað hefur hann gert í því máli ? Ekkert hefur heyrzt af því. Er það enn eitt merkið um dauðyflishátt þessa sjálfhælna ráðherra ?
Á Vestfjörðum, eins og annars staðar á landinu, eru orkuskiptin hafin, og þar er auk þess ein mesta aukningin í umsvifum athafnalífsins á landinu með talsverðri fólksfjölgun. Allt ýtir þetta undir þörfina á því, að orkuöflun Vestfirðinga verði sjálfbær.
"Að teknu tilliti til aukningar í eftirspurn, afhendingaröryggis og stöðuleika raforkukerfisins auk raunhæfra áætlana um uppbyggingu flutningskerfisins og uppbyggingartíma virkjana, þá er það alveg ljóst, að taka þarf ákvarðanir um framhaldið fljótlega. MISK 200-500 í olíubrennslu kyndistöðva annað hvert ár er fórnarkostnaður, sem er óásættanlegur auk þess að vera algjörlega úr takti við orkustefnu stjórnvalda og við stefnu Íslands í loftslagsmálum."
Þetta er hverju orði sannara hjá Orkubússtjóranum. 100-250 MISK/ár í olíukostnað við að framleiða rafmagn á Vestfjörðum til hitunar húsnæðis er ástand, sem sýnir í hnotskurn í hvert óefni orkumál landsins undir núverandi ríkisstjórn eru komin. Að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherrann skuli ekki hafa brugðizt skjótlega við til að greiða veg þeirra lausna, sem Vestfirðingar hafa lagt til, sýnir, að hann er ekki vandanum vaxinn.
Það er hárrétt stefna, sem Vestfirðingar hafa markað, að færa húsnæðisupphitun sína yfir í hitaveitu með jarðvarma, þar sem það er hægt, og annars staðar yfir í forgangsrafmagn inn á varmadælur. Samfara þessu þarf að virkja vatnsföll á Vestfjörðum, svo að Vestfirðingar verði sjálfum sér nógir um raforku, en Vesturlína þjóni sem varaleið í bilunar- og viðhaldstilvikum ásamt innmötun á landskerfið til að auka nýtingartíma virkjana Vestfirðinga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)