18.10.2024 | 14:18
Varnir í skötulíki ?
Stórnotendur rafmagns hafa verið við lýði í landinu síðan 1969, en enn er raforkukerfið vanbúið að hýsa þau og búnað skortir til að bregðast sómasamlega við miklum álagssveiflum, þannig að aðrir raforkunotendur en sá, sem sveiflunni veldur, verði ekki fyrir tjóni.
Stórar spennusveiflur verða eðlilega, þegar kerskáli í álveri er rofinn frá sinni afriðlastöð. Hið skrýtnasta við fréttir af atvikinu um hádegisbil 2. október 2024 er, að Norðurál heldur því fram, að um viðhaldsaðgerð hafi verið að ræða. Sé svo, átti hún að fara fram í fullu samráði við Landsnet, sem þá gafst tækifæri til að velja tímasetningu og gera ráðstafanir til spennulækkunar í kerfinu. Það er afar ósennilegt, að Landsnet hafi valið hádegisbil á virkum degi til prófunar á kerfisviðbrögðum af þessu tagi. Það hefur ekki komið fram, hvort um annan eða báða kerskála Norðuráls var að ræða.
Vatnsorkuverin í Þjórsá/Tungnaá brugðust hratt við, en ekki hafa borizt fregnir af viðbrögðum Hellisheiðarvirkjunar og annarra gufuaflsvirkjana sunnanlands. Hins vegar virðast jarðgufuvirkjanirnar í Þingeyjarsýslu hafa brugðizt of hægt við, því að í Þingeyjarsýslum varð tjónið mest vegna yfirspennu.
Um það leyti, sem truflunin varð, hefur aflflutningur væntanlega verið til suðurs og verið rofinn á Grundartanga við spennuhækkunina. Við það verður spennuhækkun á Norðurlandi. Spyrja má, hvort sömu viðbrögð hefðu ekki orðið með 220 kV línu að norðan, en Landsnet gerir mikið úr því, að línan sé fimmtug 132 kV lína. Alls ekki skal hér gera lítið úr þörfinni á að leysa hana af hólmi með nýrri 220 kV línu, en það er vegna ófullnægjandi flutningsgetu. Allar einingar kerfisins verða að þola snöggt brottfall stærsta álagsins, og því er greinilega enn ekki að heilsa. Það er hneisa í landi með mestu orkunotkunina á mann í heiminum.
Óskar Bergsson gerði þessu atviki skil í Morgunblaðinu 4. október 2024 undir fyrirsögn, sem ekki er víst, að kasti ljósi á aðalsökudólgana:
"Veikasta svæðið þoldi ekki höggið".
Fréttin hófst þannig:
""Höggið á kerfið varð vegna þess, að álverið leysti út og því varð þessi keðjuverkun á veikasta svæðinu, sem var byggðalínusvæðið. Virkjanirnar, sem eru tengdar við sterkasta kerfið, gátu skrúfað niður framleiðsluna hjá sér til að bregðast við þessu", segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets um ástæðu þess, að stór hluti landsins varð rafmagnslaus í fyrradag. Mikið tjón varð af völdum rafmagnstruflana, í einstaka tilvikum upp á tugi milljóna ISK, en vel á annað hundrað tjónatilkynningar höfðu borizt RARIK í gær."
Eftir að aflflutningurinn suður um Byggðalínu hafði verið rofinn, hefur tíðnin væntanlega hækkað um hríð á Suðurlandi, en vatnsaflsvirkjanirnar náð að regla sig niður. Meira ójafnvægi hefur orðið á Norðurlandi með jarðgufuvirkjanir á fullu álagi (til að spara vatn), og Fljótsdalsvirkjun e.t.v. líka að keyra suður.
Guðmundur Ingi notar þetta tækifæri ekki opinberlega til að rýna í það, sem var ábótavant í sjálfvirkum kerfisviðbrögðum, heldur til að blanda að mestu óskyldu máli inn, sem er hneykslanlega langur undirbúningstími fyrir flutningslínur. Í ESB Orkupakka 4 tekur leyfisveitingaferlið mest 2 ár, en á Íslandi tífalt lengri tíma. Er kyn, þótt keraldið leki ?
""Við höfum lagt mesta áherzlu á að komast í Blöndulínu 3, en það kann að vera, að sú framkvæmdaröð breytist eftir því, hvernig gengur að klára leyfisferlið, sem er gríðarlega flókið og erfitt. Til þess að fá leyfi fyrir raflínum þarf fyrst að klára umhverfismat og skipulag, sem síðan fer í umsagnarferli. Að því loknu þarf framkvæmdaleyfi frá sveitarfélögum, og samhliða því þarf að semja við landeigendur. Í þessu ferli opnast mikið af kæruleiðum, sem hafa tafið málin.""
Það er geisilega mikið í húfi að tengja Akureyri með traustum hætti báðum megin frá. Þetta s.k. leyfisveitingaferli er leikaraskapur, enda lagt upp með ósköpin í tíð vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms. Þar er búinn til leikvöllur fyrir sérvitringa og afturhald landsins í formi félagasamtaka eins og Landvernd. Þessi fíflagangur hefur valdið gríðarlegum töfum, kostnaði og tekjutapi og verður að afnema hið fyrsta. Evrópusambandið er búið að yfirtaka þessi mál með sínum 4 orkupökkum, þannig að hámarks umþóttunartími yfirvalda hvers lands eru 2 ár. Orkupakkar ESB gilda sem lög á Íslandi, og munu væntanlega úrelda fíflaganginn, sem er við lýði á Íslandi, þegar Orkupakki 4 tekur hér gildi, en það er allt of langt að bíða eftir því, svo að orkuráðherra ætti að rumska og afgreiða svipaðar reglur og gilda í ESB sem frumvarp til Alþingis.
"Guðmundur Ingi segir nauðsynlegt að endurskoða þetta ferli og gera það skilvirkara án þess að slá af kröfum, ef markmiðið um orkuskipti eigi að nást.
"Við erum komin á skrið með þessar línur allar í góðu samstarfi við sveitarfélög og erum að koma þessum verkefnum inn á skipulag og klára umhverfismatið."
Hann segir vinnu við Blöndulínu 3 hafa staðið yfir í 20 ár, og það séu deilur af ýmsum toga, sem hafi tafið framkvæmdina."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)