2.10.2024 | 09:41
Skólar Vesturlanda víða á villigötum
Hvergi á Vesturlöndum hefur grunnskólanum hrakað meira en á Íslandi, ef marka má PISA-niðurstöður. Samt skellir kennaraforystan og menntamálayfirvöld skollaeyrum, og engin viðleitni er sjáanleg til úrbóta. Af PISA-niðurstöðum er þó ljóst, að versnandi árangur grunnskólanema er þó vandamál víðar en hér, og kann einhvers konar tízkubylgju um breytta og slakari kennsluhætti að vera um að kenna.
Í leiðara The Economist um menntamál, 13. júlí 2024, mátti m.a. lesa þetta í þýðingu ritara (ekki gervigreindar):
Það er vel þekkt, að C-19 faraldurinn truflaði skólastarfið mjög. Á tímabilinu 2018-2022 tafðist meðaltáningur í ríku löndunum um u.þ.b. 6 mánuði m.v. áætlaða framvindu í lestri og um 9 mánuði í stærðfræði samkvæmt OECD. Það, sem er á vitorði færri, er, að vandinn hófst löngu fyrir C-19. Dæmigerður nemandi í OECD-landi stóð jafnaldra sínum 15 árum fyrr ekki á sporði í lestri og reikningi, þegar C-19 hófst.
Í Bandaríkjunum sýna próf til margra ára í stærðfræði og lestri, að árangur náði hámarki snemma á 2. áratugi 21. aldarinnar. Síðan þá hefur meðalárangur þar annaðhvort staðið í stað eða honum hefur hrakað. Í Finnlandi, Frakklandi, Þýzkalandi og Hollandi o.fl. löndum sýna alþjóðleg próf, að árangri hefur lengi hrakað. Hvað hefur farið úrskeiðis ?
Ytri áföll hafa haft áhrif. Margir hafa viljað flytja til Bretlands, og þeir tala fæstir ensku. Farsímar trufla nemendur, svo að þeir lesa ekki heima. C-19 faraldurinn setti allt á annan endann. Margar héraðsstjórnir lokuðu skólum of lengi, hvattar af stéttarfélögum kennara, og börn glutruðu niður vananum að læra. Mætingar á mörgum stöðum eru lakari en fyrir C-19. Bekkjardeildir hafa orðið hávaðasamari.
Engu að síður bera menntayfirvöld mikla sök á stöðnuninni. Í Bandaríkjunum t.d. voru umbætur í skólum einu sinni sameiginlegt málefni beggja stóru stjórnmálaflokkanna. Núna er hægrið heltekið af menningarstríðs málflutningi, en margir vinstra megin stunda, það sem George W. Bush nefndi "hið mjúka ofstæki lítilla væntinga" og halda því fram, að skólastofurnar séu með slagsíðu í átt að minnihlutahópum og að það sé ómögulegt og siðlaust að gera sömu kröfur til allra nemenda. Aðrir vilja heimavinnu og próf léttari eða sleppt vegna geðheilsu nemenda.
Tízkuhugsun er andstaða festunnar. Ein kenning er um það, að gervigreind muni gera hefðbundinn lærdóm minna gagnlegan, svo að skólar ættu að leggja áherzlu á "að leysa viðfangsefni", "gagnrýna hugsun" og nemendur, sem gengur vel að vinna í teymi. Á grundvelli þessa hafa lönd tekið upp námsskrár, sem einblína á óljósa "þekkingu" og gera lítið úr staðreyndalærdómi sem gamaldags. Nokkrir, m.a. Skotar, hafa séð nemendum hraka í reikningi sem afleiðingu. Þeim, sem staðið hafa gegn þessari nýtízku, s.s. Englendingum, hefur gengið betur.
Stjórnvöld ættu að einbeita sér að grundvallar atriðunum. Þau ættu að verja ströng próf, vinna gegn einkunnabólgu og skapa svigrúm fyrir einkaskóla til að auka valfrelsi. Þau ættu að greiða kennurum samkeppnihæf laun til að geta ráðið góða kennara og reka slaka kennara, þótt það stríði gegn vilja stéttarfélaga. Þetta þarf ekki að hækka kostnað, því að fámennar bekkjardeildir eru minna mikilvægar en foreldrar ímynda sér. Færri og betri kennarar geta náð betri árangri en margir slakir kennarar. Japanskir nemendur slá bandarískum jafnöldrum sínum við á prófum, þótt meðalskólastofan í grunnskóla í Japan sé með 10 fleiri borð en sambærileg í Bandaríkjunum.
Annað verkefni er að safna saman og dreifa upplýsingum um, hvers konar kennslustundir gagnast bezt - verkefni, sem margar skólastjórnir hunza. Stéttarfélög kunna að láta sér lynda, að litið sé á góða kennslu sem of dularfulla til að mæla, en börn líða fyrir það. Skólakerfi á heimsmælikvarða, eins og í Singapúr, eru með stöðugar tilraunir í þessum efnum, misheppnast fljótt og halda áfram. Önnur halda áfram með það, sem ekki virkar.
Mikið er undir. Í ríkum löndum fækkar starfsfólki, þegar meðalaldur þjóðar hækkar. Framleiðni verður að vaxa til að viðhalda lífskjörum. Þörf verður á vel þjálfum hugum til að fást við ný erfið viðfangsefni af viti, frá ójöfnuði til loftslagsbreytinga. H.G. Wells, smásagnahöfundur og framtíðarspámaður, skrifaði, að saga mannkyns væri "kapphlaup á milli menntunar og hruns". Það er kapphlaup, sem mannkynið hefur ekki ráð á að tapa. Þetta var leiðari úr The Economist.
Að gera lítið úr vandanum, sem íslenzki grunnskólinn stendur frammi fyrir, eru grundvallar mistök yfirvalda menntamála á Íslandi og að setjast á sundurgreindar upplýsingar um PISA-prófin er uppgjöf. Með óbreyttri stefnu menntamálaráðuneytisins bregðast íslenzk yfirvöld æskunni og gera sig sek um vanrækslu, sem mun óhjákvæmilega leiða til hnignunar á flestum sviðum samfélagsins, minni framleiðniaukningar en nauðsynleg er, og lakari lífsgæða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)