Viðsjár stjórnmálanna

Miklar breytingar á fylgi stjórnmálaflokkanna hérlendis samkvæmt s.k. skoðanakönnunum hafa valdið titringi í stjórnmálaheiminum.  Þau eindæmi urðu á fundi hjá VG 06.10.2024, að flokkurinn sleit stjórnarsamstarfinu hálft ár fram í tímann.  Þetta er blaut tuska framan í andlit formanna hinna stjórnarflokkanna, sem báðir höfðu lýst áhuga sínum á að sitja út kjörtímabilið (september 2025).  Nú verður ekki tekizt á með silkihönzkum, og vetrarkosningar (marz 2025) koma fyllilega til greina.  VG valdi skemmt vín á gömlum belg í forystuna, ætlar í naflaskoðun, og verður sennilega skilin eftir við þá iðju norpandi í kuldanum utan Alþingis.  

Það er ekki ólíklegt, að aðvörunarskot fylgismanna hinna stjórnarflokkanna framan stefnis muni fá þá til að sýna vígtennurnar og höfða til kjósenda sinna fyrrum tíð með því að draga fram sérkenni sín, sem í sögulegu samhengi eru borgaraleg viðmið með áherzlu á verðmætasköpun annars vegar með einkaframtaki, samkeppni og einkaeign með hóflegri skattheimtu - og hins vegar  samvinnuhugsjónin með blönduðu hagkerfi, sem óhjákvæmilega fylgir stærra ríkisbákn og meiri skattheimtu eða skuldasöfnun ríkissjóðs.

Það er hollt fyrir kjósendur, að stjórnmálamenn takist á um hugsjónir og meginstefnur.  Hinum megin víglínunnar séð frá borgaraflokkunum er hið ókræsilega lið opinbers rekstrar og eignarhalds, útþensla ríkisbáknsins og þar af leiðandi óbærilega áþján skattheimtu á bæði einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki  og einnig skuldasöfnun og þar af leiðandi hærri verðbólga en hollt er. Þegar þessi ólíkindatól, sem nú eru í stjórnarandstöðu, verða krufin um fyrirætlanir sínar á næsta kjörtímabili, mun þeim vefjast tunga um tönn, og getan er ekki meiri en svo, að þau munu óhjákvæmilega skjóta sig í fótinn, og fylgistölur þar af leiðandi verða allt aðrar en nýlegar skoðanakannanir gefa til kynna.  

Til marks um gerjunina, sem í gangi er víða, birtist 4. október 2024 grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann, undir fyrirsögninni: 

"Flokkur frelsis og ábyrgðar ?".

Hún hófst þannig:

"Ég hef jafnan í alþingiskosningum kosið Sjálfstæðisflokkinn.  Ástæðan er sú, að mér hefur fundizt hann standa nær afstöðu minni til frelsis og ábyrgðar en aðrir, auk þess sem flokkurinn hefur haft uppi stefnumið í ýmsum málum, sem mér hafa þótt burðugri en annarra.  

Nú eru mér hins vegar að fallast hendur í stuðningi við þennan flokk. Hann hefur nefnilega hreinlega fórnað mörgum stefnumálum í þágu samstarfs í ríkisstjórn með verstu vinstri skæruliðum, sem finnast í landinu.  Það er eins og fyrirsvarsmenn flokksins hafi verið tilbúnir að fórna stefnumálum sínum fyrir setu í ríkisstjórn.  Þá má spyrja: Til hvers eru menn í stjórnmálum, ef þeir eru ekki að koma fram þeim stefnumálum, sem þeir segjast hafa ?" 

Þetta er auðvitað umhugsunarvert og spurning, hvaða umboð stjórnmálamenn hafa til að aðstoða við að koma annarra flokka stefnumálum fram og að gera við þá hrossakaup um stuðning við þeirra mál gegn stuðningi við eigin mál.  Þetta er lýðræðisvandamál kjördæmaskipunar og kosningafyrirkomulags, sem leitt hefur til flokkafjölda á Alþingi, sem útilokar tveggja flokka ríkisstjórn. Þingflokkar gætu orðið fleiri eftir næstu kosningar, af því að vonbrigði Jóns Steinars eru ekki einsdæmi.   

VG tók það upp hjá sjálfri sér að stytta kjörtímabilið um a.m.k. 4 mánuði.  Þetta er líklega einsdæmi, enda helber ósvífni án samráðs við kóng eða prest. 

Forsætisráðherra hugðist leggja á djúpið í nafni þess, að stjórnarflokkarnir hafi komið sér saman um þingmálaskrá, en VG-liðar hafa lýst því yfir, að þeir muni hlaupa út undan sér í a.m.k. einu þingmáli dómsmálaráðherra, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, 1. þingmanns Suðurlands.  Erfitt stjórnarsamstarf þriggja stjórnarflokka, þar sem VG-ráðherrar hafa að mati margra flokksmanna hinna stjórnarflokkanna orðið brotlegir við lög, hefur leitt til óvenjumikilla fylgisbreytinga, sem verkefni stjórnmálamanna í kosningabaráttunni verður að snúa við eða auka fram að kosningum háð því, hvar þeir eru staddir. Mikilvægt er að toppa á réttum tíma.   

Yfirgangur og ósvífni er brennimark á þessum stjórnmálaflokki -VG, enda virðast áhangendur villta vinstrisins ætla að gefa þessum armi frí og senda félaga í Sósíalistaflokkinum á þing í staðinn. 

Frumhlaup VG með að flýta kosningum varð ekki liðið.  Forsætisráðherra, sem einn fer með þingrofsvaldið, tók af skarið, þegar hann sá, að Svandís var ekki í neinum samstarfshugleiðingum.  Það verður bið á því, að Sjálfstæðisflokkur setjist aftur í ríkisstjórn með svartasta afturhaldi landsins, sem tekizt hefur að þvælast fyrir framfaramálum í landinu allt of lengi og valda stórtjóni og tekjutapi samfélagsins.  Þetta stjórnarsamstarf var dýru verði keypt, og kjósendur voru lítt hrifnir.  


Bloggfærslur 22. október 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband