7.11.2024 | 16:36
Skellibjalla bullar
Málflutningur formanns "Skattfylkingarinnar", Kristrúnar Frostadóttur, í aðdraganda nóvemberkosninganna á Íslandi 2024, hefur verið sérkennilegur. Hún lætur í það skína, að hún hafi legið undir feldi með flokksmönnum sínum og gert þar áætlun um lausn jafnaðarmanna á þeim málum, sem helzt hvíla á landsmönnum um þessar mundir. Þegar kjánalegir stjórnmálamenn forræðishyggjunnar gera áætlanir um samfélagsbreytingar, er eins gott fyrir þjóðina að biðja guð að gleypa sig eða hreinlega að hafna forræðishyggjunni við kjörborðið.
Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, gerði formann Samfylkingar afturreka með drýldni sína um áætlun fyrir ríkisfjármálin á fyrri formannafundi RÚV Sjónvarps fyrir þessar Alþingiskosningar. "Skattfylkingin" ætlar að hækka útgjöld ríkissjóðs um 77 mrdISK/ár. Hvernig ætlar forræðishyggjufólkið að fjármagna þennan úgjaldaauka ? Það var talið upp í áætlun "snillinganna", en skattstofnarnir, sem "Skattfylkingin" ætlar að þurrmjólka, eru svo takmarkaðir, að þar er í mesta lagi hægt að kreista 20 mrdISK/ár. Þá kom fát á drýldnu skellibjölluna, sem fór að bulla um aðhaldsaðgerðir. Hverjum dettur í hug, að "Skattfylkingin" muni beita sér fyrir aðhaldsaðgerðum í rekstri ríkissjóðs ? Hún hefur keyrt borgarsjóð í þrot, skuldsett hann upp í rjáfur, svo að skuldir borgarinnar eru komnar yfir leyfileg mörk.
Þann 5. nóvember 2024 þóknaðist skellibjöllunni að fá birta eftir sig öfugmælagrein með innantómum fullyrðingum í sandkassastíl um, að "Sjálfstæðisflokkurinn hækki vexti", "Sjálfstæðisflokkurinn hækki verð", "Sjálfstæðisflokkurinn hækki skatta", og að "Samfylkingin sé eini flokkurinn með plan".
Þetta er ótrúlega barnaleg og vantillt grein, sem þarfnast þó umfjöllunar í ljósi kosninganna. Fyrirsögnin bar þessu vitni:
"Sjálfstæðisflokkurinn hækkar kostnað heimilanna".
Öfugmælin hófust þannig:
"Samfylkingin ætlar að lækka kostnað heimilanna. [1]
Kostnaðurinn við að lifa venjulegu lífi hefur rokið upp úr öllu valdi á Íslandi. [2]
Það er of dýrt að borga vexti, of dýrt að borga húsnæði, og það er meira að segja of dýrt að kaupa í matinn hérna. [3]
Þessu ætlar Samfylkingin að breyta - fáum við til þess traust hjá þjóðinni í kosningunum þann 30. nóvember [2024]."
[1] Er þetta trúverðugt í ljósi þess, að Samfylkingin ætlar að hækka skatta á almenning og fyrirtæki ? Allar skattahækkanir bitna að lokum á heimilunum. Það eru engar "góðar" skattahækkanir til, sem ekki bitna á almenningi með einum eða öðrum hætti. Þungar byrðar á fyrirtæki minnkar getu þeirra til stækkunar og/eða hækkunar launa og getur leitt til samdráttar og uppsagna starfsfólks.
Er Samfylkingin fús til að lækka kolefnisgjöldin á eldsneytið, nú þegar verið er að hækka og útvíkka gjaldtöku fyrir veganotkun ? Nei, Samfylkingin hefur ekki léð máls á því og yfirleitt alls engum lækkunum skattheimtu og opinberra gjalda. Það er mjög greinilegt í höfuðborginni, þar sem hún hefur ráðið undanfarinn rúman áratug og spennt allar álögur í botn. Það er eins og hvert annað bull, að Samfylkingin muni verða líkleg til að lækka kostnað heimilanna.
[2] Framfærslukostnaður á Íslandi hefur hækkað undanfarin ár á Íslandi, eins og í öllum öðrum löndum. Framleiðsla og flutningar röskuðust í Kófinu (C-19), sem leiddi til hækkunar vöruverðs og þjónustu 2020-2022. Síðan hóf Rússland ólöglega og grimmdarlega alls herjar innrás sína í Úkraínu 24.02.2022. Hún leiddi til enn meiri truflana á ýmsum aðdráttum ásamt verðhækkunum. Verðbólguskot varð um allan heim, og Ísland fór ekki varhluta af því, og fyrst núna er verðbólgan tekin að hjaðna í nægilegum mæli, til að Seðlabankinn hafi séð sér fært að hefja vaxtalækkunarferli.
Með mjög óeðlilegum stjórnarháttum sínum í Reykjavík hefur Samfylkingin valdið lóðaskorti í Reykjavík og húsnæðisskorti, nema á rándýrum íbúðum á s.k. þéttingarreitum. Þetta keyrði upp verðbólguna í landinu og heldur henni enn uppi.
Bullið í formanni Samfylkingar hreinsar ekki sök af Samfylkingu um stórfelldar byrðar á heimilin í landinu.
[3] Samfylkingin hefur neitað að víkka uppbyggingarmörk höfuðborgarsvæðisins, og þannig komið í veg fyrir, að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur geti brotið nýtt land undir byggingar, sem þó er nauðsynlegt til að leysa úr lóðaskorti og byggingaskorti á höfuðborgarsvæðinu, sem valdið hefur miklum hækkunum húsnæðisverðs þar. Það er húsnæðisverðið sem er aðalhvati verðbólgunnar um þessar mundir.
Formanninum þykir dýrt að kaupa í matinn á Íslandi. Er hún fús til að fara í raunhæfar aðgerðir til lækkunar, t.d. lækkun eða afnám virðisaukaskatts á matvæli eða að afnema kolefnisgjald á olíu, sem þá lækkar flutningskostnað og framleiðslukostnað íslenzks landbúnaðar ? Samfylkingin hefur aldrei gert neitt raunhæft til að lækka kostnað heimila.
Bullið í formanni Samfylkingar hreinsar ekki sök Samfylkingar á háum kostnaði og háum vöxtum á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)