10.12.2024 | 18:10
Viðskiptaráð og grunnskólinn
Þegar Viðskiptaráð tjáir sig um landsins gagn og nauðsynjar, er það alltaf að vel ígrunduðu máli og fræðandi. Þess vegna ber að fagna Úttekt Viðskiptaráðs á grunnskólakerfinu, en Morgunblaðið, sem hefur gert vanda grunnskólakerfisins íslenzka góð skil, gerði grein fyrir úttektinni með viðtali við Björn Brynjúlf Björnsson, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, þann 21. október 2024, undir fyrirsögninni:
"Ísland stenzt ekki samanburð".
""Við tókum saman helztu tölfræði, sem snýr að hagkvæmni grunnskólakerfisins á Íslandi, og tölurnar sýna, að áhyggjur borgarstjóra voru ekki úr lausu lofti gripnar. Undanfarin ár og áratugi hefur kennurum og starfsfólki skólanna fjölgað hraðar nemendum, kennsluskylda íslenzkra kennara er með því lægsta, sem þekkist innan OECD, og veikindahlutfallið er ríflega tvöfalt á við það, sem við sjáum á almennum vinnumarkaði", segir Björn."
"Skóli án aðgreiningar" stillir kennurum upp gagnvart gríðarlega erfiðum vinnuskilyrðum, sem líklega eiga drjúga sök á því, hvernig komið er fyrir grunnskólanum íslenzka, nemendum og kennurum. Með miklum straumi útlendinga undanfarin ár til landsins hefur keyrt um þverbak. Hvernig dettur skólayfirvöldum í hug að skella saman nemendum, sem skilja íslenzku, og hinum, sem ekki skilja hana og hverra móðurmál eru jafnvel ólík. "Skóli án aðgreiningar" er óraunhæf hugmynd, sem veldur því, að sárafáir nemendur þrífast í skólanum og kennarar eru að niðurlotum komnir. Það verður engin breyting til batnaðar í grunnskólakerfinu fyrr en farið verður að raða nemendum saman í deildir, sem eru nokkurn veginn á sömu blaðsíðu, hvað þekkingu, áhuga og námsgetu varðar. Þannig var þetta í "den" og gafst vel. Nemendur fluttust á milli bekkja, upp ef þeim vegnaði vel og niður, ef þeim vegnaði miður. Þetta ýtti undir marga að leggja sig fram. Sennilega fengu allir nemendur betri kennslu í þessu kerfi en nokkur leið er að koma við núna.
"Í samantakt Viðskiptaráðs kemur einnig fram, að á Íslandi er fjöldi nemenda á hvern grunnskólakennara langt undir meðaltali OECD, og aðeins á Grikklandi og í Lúxemborg er fjöldi nemenda á kennara minni. Eru tæplega 10 nemendur fyrir hvern kennara í íslenzka grunnskólakerfinu, en í OECD er meðaltalið um 14 nemendur, en í Frakklandi eru t.d. rúmlega 18 nemendur á hvern kennara á grunnskólastiginu. Þá er kennsluskylda íslenzkra kennara með minnsta móti í samanburði við hin OECD-ríkin, og aðeins í Lettlandi, Eistlandi og Póllandi er hún minni. Á Íslandi myndi þurfa að auka kennsluskylduna um nærri þriðjung til að ná meðaltali OECD.
Loks eru heildarútgjöld á hvern grunnskólanemanda á Íslandi, leiðrétt fyrir verðlagi, í hæstu hæðum, en aðeins Noregur og Lúxemborg greiða meira með hverjum nemanda. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar er árlegur meðalkostnaður á nemanda í íslenzkum grunnskólum nú farinn að slaga hátt í 2,9 MISK/ár."
Þarna eru ýmis sjúkleikamerki á íslenzka grunnskólakerfinu nefnd. Fíllinn í stofunni er "kennsla án aðgreiningar". Hún þreytir kennarana úr hófi fram og fær þá til að þrýsta á um fækkun í bekkjardeildum og styttri viðveru. Alls konar stuðningsaðilar vinna nú með kennurunum, sem hleypir kostnaðinum upp, en allt kemur fyrir ekki. "Í den" voru gjarna 30 nemendur í bekk og stuðningsaðilar engir. Námsárangur var samt betri en nú og þekkingarstig hærra. Kennsluárangur íslenzkra kennara er á meðal hins lakasta í OECD samkvæmt PISA-könnunum. Þetta er einfaldlega lýsing á algerlega misheppnuðu opinberu kerfi. Það ber að veita hverjum skóla algert sjálfdæmi um það, hvernig hann raðar í bekkjardeildir, og hversu margir nemendur þar eru. Sama á við um, hvers konar stuðningsaðila hann kallar til. Það, sem máli skiptir og á að vera mælikvarði á gæði kennslunnar, er niðurstaðan á samræmdum prófum, sem þarf að setja ákvæði um í nýrri námskrá, sem semja þarf og gefa út hið fyrsta. Sveitarfélögin, sem skólana reka, geta síðan leitað leiða til að draga úr kostnaðinum og bæta árangurinn með einkarekstri, þar sem samið er um, að sveitarfélagið greiði skólanum ákveðna upphæð með hverjum nemanda. Skattgreiðandinn græðir á þessu, foreldrarnir koma sléttir út fjárhagslega og nemendur njóta betri kennslu.
""Að okkar mati er vandi grunnskólakerfisins eitt stærsta kosningamálið í komandi alþingiskosningum. Við erum með kerfi, þar sem árgangur eftir árgang klárar grunnskóla, þar sem stór hluti nær ekki grunnfærni í lestri og reikningi og það þrátt fyrir, að skólakerfið okkar sé sé það þriðja dýrasta í heimi.""
Þetta sagði Björn Brynjúlfur. Ekki er að sjá, því miður, að Birni verði að ósk sinni um, að grunnskólavandinn verði leiddur fram í sviðsljósið í aðdraganda kosninga, enda heyrist sáralítið frá barna- og menntamálaráðuneytinu. Ráðherra málaflokksins virðist ætíð stinga hausnum í sandinn, þegar menntunina, sem grunnskólinn veitir, ber á góma. Slíkir forystusauðir eru ekki 5 aura virði. Síðan hann var gerður afturreka með sameiningu 2 skóla á Akureyri, hefur hann verið sleginn líkþorni.
"Að mati Björns væri gott fyrsta skref að auka kennsluskyldu kennara til samræmis við það, sem tíðkast í samanburðarlöndunum. "Það myndi bæta nýtingu opinberra fjármuna, ef hver kennari kenndi fleiri klukkustundir á ári. Þá þarf að finna út úr því, hvað orsakar þetta háa veikindahlutfall hjá stéttinni og leita leiða til að bæta þar úr. Aðgerðir í þá veru mundu bæta starfsumhverfi kennara og um leið gera grunnskólastigið hagkvæmara."
Þetta er nú hægara sagt en gert. Áður en vinnutímasamræming við kennara t.d. á hinum Norðurlöndunum á sér stað, þarf að bera saman vinnuaðstæðurnar. Líklega glíma íslenzkir grunnskólakennarar við fjölþættari nemendahóp í deild, t.d. hvað uppruna og móðurmál varðar, en kollegar þeirra. Líklegt er, að stefnan um "skóla án aðgreiningar" sé rót beggja viðfangsefnanna að ofan, þ.e. tiltölulega lítil kennsluskylda og hátt veikindahlutfall, því að fyrirkomulagið leggur óviðráðanlegar byrðar á herðar kennaranna, jafnvel þótt íslenzkar skóladeildir á grunnskólastigi séu fámennari en víðast hvar í OECD. Það verður að hverfa frá illframkvæmanlegri hugmyndafræði "skóla án aðgreiningar, áður en nokkrar aðrar umbætur á grunnskólakerfinu verða raunhæfar og áður en hægt er að vonast eftir betri prófárangri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)