Samfélagstilraun með vanburða hugmyndafræði

Vinstri menn frá Karli Marx hafa haft dálæti á samfélagstilraunum, sem miða að breyttu samfélagi.  Eðli málsins samkvæmt eru þessar tilraunir gerðar í andstöðu við tilraunadýrin, því að þau kæra sig ekki um að breyta lífsháttum sínum til að falla að ófullburða hugmyndafræði öfgamanna um sósíalistískt borgarskipulag eða þjóðfélagsskipulag nú eða skipulag sveitanna, eins og Stalín og Maó hrintu af stað, þegar þeir þvinguðu bændur til samyrkjubúskapar með skelfilegum afleiðingum, s.s. hungursneið ("Holodomar" í Úkraínu 1931-1932) sem afleiðingu. 

S.k. vinstri meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur hefur staðið fyrir umferðartilraun undir hugmyndafræðilegri leiðsögn Samfylkingarinnar. Sú leiðsögn er svo lágkúruleg, að hún nær ekki máli sem hugmyndafræði, heldur er það draumsýn vinstri sinnaðra amatöra í skipulagsmálum umferðar, að með því að skapa nægilegar umferðartafir megi þvinga fjölskyldur fjölskyldubílsins út í að nota almenningssamgöngur.  Til þess eru umferðargötur þrengdar, hvergi bætt við akreinum og mislæg gatnamót tekin út úr aðalskipulagi.  Þetta er andvana fædd tilraun undirmálsfólks á vinstri væng stjórnmála til að móta samfélagið í nýrri mynd.  Í Ráðstjórnarríkjunum átti útkoman að vera "homo sovieticus", en einnig sú tilraun mistókst, og undir ráðstjórninni ríkti gegndarlaus spilling, mútuþægni og neðanjarðarmarkaður. 

Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, hefur einna mest vit á faglegri skipulagningu umferðarmannvirkja á landi hér til að greiða götu vegfarenda og jafnframt að hámarka öryggi þeirra. Hann reit áhugaverða grein í Morgunblaðið 20.11.2024, þar sem hann bar saman umferðartafir á nokkrum þéttbýlisstöðum heimsins: 

"Á mbl.is 14. nóvember síðastliðinn [2024] birtist frétt með fyrirsögninni: "Minni tafir en í sambærilegum borgum".  Fjallað var um erindi, sem dr Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur, flutti á morgunfundi sama dag hjá Vegagerðinni. Berglind bar umferðartafir í Reykjavík saman við umferðartafir í Bergen, Málmey og Árósum, sem hún telur vera sambærilegar borgir.  Ég er ósammála því, einkum af tveimur ástæðum:

Í fyrsta lagi þarf að bera saman borgarsvæðin (ekki bara borgina sjálfa).  Á Bergensvæðinu búa 420 k manns, 700 k á Málmeyjarsvæðinu og 367 k á Árósasvæðinu.  Skandinavísku borgarsvæðin eru því mun fjölmennari en höfuðborgarsvæðið með sína 244 k íbúa. 

Í öðru lagi er höfuðborgarsvæðið bílaborg.  Umferðartafir í bílaborgum eru að jafnaði mun minni en í öðrum borgum (heimild: Traffic Index, Selected Metropolitan Areas \ The Geography of Transport Systems)."  

Þetta er rökrétt hjá Þórarni, sem sýnir, hversu varhugavert er að gleypa við tálbeitum, þegar sérfræðingar eru fengnir til að sýna fram á eitthvað, sem stundum stangast á við heilbrigða skynsemi. Í borgarkerfinu eru nú orðið fjölmargir, sem hafa framfæri sitt af hönnunar- og undirbúningsvinnu vegna glapræðishugmynda borgarstjórnarmeirihlutans í skipulagsmálum og þar með samgöngumálum.  Hvernig næsti þingmeirihluti á Alþingi forgangsraðar fjármunum til samgöngumála á landinu öllu, verður athyglivert að sjá. 

"Skoðum nú niðurstöðurnar [umferðarlíkans] m.v. árlegt tímatap á álagstíma.  Smellum á "Time lost per year at rush hours" á TomTom-listanum.  Göngum úr skugga um, að stillt sé á "Metro area".  Þá verður niðurstaðan sú, að umferðartafir eru mestar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ökumenn tapa á hverju ári að meðaltali 44 klst á álagstíma.  Árlegt tímatap er 40 klst á Árósasvæðinu, 29 klst á Bergensvæðinu og 26 klst á Málmeyjarsvæðinu.

M.v. þennan mælikvarða trónir höfuðborgarsvæðið á toppinum í samanburðinum og er nr 143 á TomTom-listanum.  Það er mjög óeðlilegt, að litla bílaborgin okkar sé á þessum stað.  Til fróðleiks er Los Angeles-svæðið nr 105 á listanum með árlegt tímatap upp á 50 klst."  

Þetta er árangurinn af meira en áratugs stefnumörkun Samfylkingarinnar í Reykjavík með einbeittum brotavilja borgarfulltrúa hennar og fylgitunglanna gegn íbúum höfuðborgarsvæðisins og öllum, sem þurfa að aka um borgina.  Samfylkingin hefur náð að rýra lífsgæði íbúanna mikið með því að gera vegfarendum lífið leitt og með þéttingarstefnunni, sem þjappar fólki saman með skuggamyndunum og án svigrúms á auðum svæðum fyrir börn að leik, og þetta húsnæði verður allt of dýrt. Stefna Samfylkingarinnar er skaðleg og algerlega misheppnuð, enda vanhugsuð.       


Bloggfærslur 19. desember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband