Ráðherra grefur undan grunnatvinnuvegi landsmanna

Það hefur aldrei verið neitt vit í tiltektum Svandísar Svavarsdóttur á ráðherrastóli.  Sem matvælaráðherra hefur hún þó bitið höfuðið af skömminni, og stefndi fyrir vikið í vantraust á störf hennar á Alþingi áður en hún fór í veikindaleyfi. Ósvífni hennar nær út fyrir þjófamörk, því að hún brýtur lög viljandi með ýmsum gjörðum sínum í ráðuneytinu.  Þetta er ólíðandi með öllu, enda stefnir í milljarða ISK skaðabótakröfur gegn ríkissjóði vegna ráðuneytisverka Svandísar 2023. Þessi ósköp eru sem betur fer sjaldgæf.  

Drög að frumvarpi matvælaráðherra um sjávarútveginn ætti ríkisstjórnin að draga til baka, því að það er ekki heil brú í þeim, frumvarpið er með öllu óþarft og reyndar stórskaðlegt fyrir þjóðarbúið.  Þetta er aðför sósíalista að vel reknum einkarekstri.  Ef slíkt fyrirfinnst einhvers staðar, reyna sósíalistar að verða sér úti um ástæður til að varpa þrúgandi byrðum ríkisins á starfsemina.  Það er glórulaus hegðun gegnvart fyrirtækjum í samkeppnisreksti á erlendri grundu, og jafnstaða fyrirtækjanna gagnvart öðrum innlendum fyrirtækjum er með öllu fyrir borð borin. Svo langt er gengið, að líkja má skattheimtunni við eignaupptöku.  Með þessari hugmynd ráðherra að lagafrumvarpi er stigið stórt skref í átt til þjóðnýtingar, sem er hinn blauti draumur allra sósíalista, þótt þjóðnýtingar eigi sér einvörðungu hrakfallasögu. 

Fremsti fræðimaður landsins á sviði hagfræði sjávarútvegs skilaði umsögn í samráðsgátt um téð afkvæmi sósíalistans, og birti Morgunblaðið nokkur atriði þaðan þann 18. janúar 2024 undir fyrirsögninni: 

"Frumvarpið veiki sjávarútveginn":

"Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, segir í umsögn um drög Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, að frumvarpi til laga um sjávarútveg, sem sjá má í samráðsgátt stjórrnvalda, að þar sé ekki gerð gangskör að því að bæta stjórnun fiskveiða og gera þær skilvirkari þannig, að framlag þeirra í þjóðarbúið geti vaxið. Þess í stað sé haldið áfram á þeirri braut að þrengja að fyrirtækjum í sjávarútvegi, leggja á þau auknar byrðar og hækka enn frekar sérstaka og brenglandi skattheimtu á þau.

Ragnar segir afleiðingarnar óhjákvæmilega verða annars vegar veikari sjávarútvegur, sem mun, þegar fram í sækir, ekki geta staðizt samkeppni við sjávarútveg annarra þjóða, sem ekki þurfa að bera svona byrðar, og verður því að gefa eftir í samkeppninni um afla og á fiskmörkuðum í heiminum, og hins vegar minna framlag sjávarútvegsins í þjóðarbúið með tilheyrandi kjaraskerðingu fyrir alla landsmenn." 

Vinnubrögð ráðuneytis, sem leiða til þeirra illu afleiðinga fyrir þjóðarhag, sem prófessorinn fyrrverandi lýsir hér að ofan, eru forkastanleg og ábyrgðarlaus.  Þau eru eins laus við faglega nálgun í þágu lands og þjóðar og hægt er að hugsa sér og eins löðrandi í pólitískum geðþótta af vinstri vængnum og hugsazt getur.  Slík vinnubrögð verðskulda þá umsögn, að þau grafi undan grunnatvinnuvegi landsmanna. 

"Ragnar gerir einnig athugasemd við mjög mikla hækkun á gildandi veiðigjaldi, sem frumvarpsdrögin leggja til. 

Í fyrsta lagi er lagt til, að veiðigjald á uppsjávarfisk verði hækkað úr 33 % af gjaldstofni í 45 %. 

Í öðru lagi verður hætt að heimila frádrátt veiðigjalds frá hefðbundnum tekjuskatti.  Það samsvari 25 % - 60 % hækkun á virku veiðigjaldshlutfalli efir því, hvernig tekjuskattur á fyrirtæki er metinn (tekjuskattur á fyrirtæki árið 2023 var 20 % og fjármagnsskattur 22 %.  Skattur á útgreiddan arð var því 37,6.). 

Í þriðja lagi gera frumvarpsdrögin ráð fyrir, að virkt tekjuskattshlutfall á sjávarútvegsfyrirtæki verði 53 % og 70,6 % á botnfiskveiðar og 65 % og 82,6 % á uppsjávarveiðar, en virka tekjuskattshlutfallið er summa venjulega tekjuskattshlutfallsins, 20 % og 37,6 % og veiðigjaldsins, sem er 33 % á botnfiskveiðar og 45 % á uppsjávarveiðar.  Bendir Ragnar á, að hlutföll séu svo há, að margir myndu kenna það við ofurskatta."

Skattheimta af þessu tagi er gjörsamlega ótæk og jaðrar við að vera stjórnarskrárbrot, því að hún er eiginlega eignaupptaka ríkisins.  Þar að auki er hún gróft brot á jafnræðisreglu, sem fyrirtækin eiga rétt á að njóta gagnvart skattheimtu. Að fara fram með nokkuð eins og þetta vitnar um pólitískt ólæsi, því að Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki samþykkt þetta og ekki setið í ríkisstjórn með ráðherra, sem leggur aðra eins óhæfu fram. 

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins í ágúst 2023 samþykkti þetta um ríkisfjármál og skatta:

"Skattkerfisbreytingar, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um á síðustu 10 árum, hafa fyrst og fremst miðað að því að einfalda skattkerfið, létta byrðar launafólks og auka kaupmátt, styrkja afkomu fyrirtækja, hvetja þau til fjárfestinga og byggja undir nýsköpun og þróun.  Halda verður áfram á sömu braut og huga sérstaklega að barnafjölskyldum, m.a. með breytingum á barnabótakerfinu og hækkun hámarksgreiðslu í fæðinggarorlofi.  Sjálfstæðisflokkurinn leggst alfarið gegn frekari álögum á fólk og fyrirtæki."

Þarna eru tekin af öll tvímæli um það, að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir ekki fekari skattahækkanir á fólk og fyrirtæki, þótt undantekning hafi verið gerð með það vegna neyðarástands í Grindavík.  Þannig mátti Svandísi Svavarsdóttur vera það ljóst, að hún væri komin út á hála braut stjórnarslita með ofurskattlagningu á sjávarútveginn, sem í frumvarpsdrögum hennar felast.  Pólitísku raunsæi er ekki fyrir að fara, heldur vaðið áfram í blóra við niðurstöðu undirbúningsvinnunnar fyrir óþarft frumvarp og í blóra við öll helztu hagsmunafélög, sem að sjávarútvegi koma.  Þarna er einsýni og pólitísku ofstæki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs rétt lýst.    

 

  

 

                                                                                                                           


Bloggfærslur 10. febrúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband