Pyrrosarsigur Rússa - að míga í skóinn sinn

Barry Gander, Kanadamaður, sem býr í Connecticut í Bandaríkjunum, ritar um samtímaatburði af þekkingu í Mastodon@Barry.  Um miðjan febrúar 2024 skrifaði hann um Úkraínustríð 21. aldarinnar, og verður hér stuðzt við grein, sem heitir: "Today it is 400.000".

Fjöldi fallinna rússneskra hermanna í Úkraínu hefur nú farið yfir 400 k síðan hin ósvífna og skammarlega innrás hófst 24.02.2022.  Þetta þýðir um 550 manns á dag og undanfarnar vikur hefur talan verið 950 á dag, sem sýnir í hnotskurn, hversu gríðarlega mikla áherzlu gerspillt stjórnvöld í Kreml leggja á það að knésetja lýðræðislega kjörin stjórnvöld Úkraínu í Kænugarði. Mannfallið í bardögum um borgina Avdevka, nærri Donetsk borg, hefur verið gríðarlegt, og hún féll um miðjan febrúar 2024 í hendur Rússa, rústir einar. Brezk leyniþjónusta spáir 500 k Rússum föllnum í Úkraínu við árslok 2024.  Enginn veit, hvar víglínan verður þá, en það er ljóst, að harðstjórinn í Kreml ætlar að gera Úkraínu að nýlendu Rússlands.  Það mega Vesturlönd ekki láta kúgarann í Kreml komast upp með á 21. öld, enda væri þá öryggi og stöðugleika í Evrópu ógnað alvarlega. 

Á sama tíma og Rússar hafa misst 400 k, hafa 70 k úkraínskir hermenn fallið og aðrir 120 k særzt.  Þannig hefur 1 úkraínskur hermaður fallið á móti 5,7 Rússum, sem er hátt hlutfall og vitnar um ólíka herstjórnarlist. Staðan versnar enn fyrir Rússa, þegar málaliðar á borð við Wagner-herinn eru teknir með í reikninginn.  Tala fallinna þar er um 100 k.  Hlutfallið hækkar þá í 7,1. 

Í byrjun janúar 2024 voru meira en 320 k rússneskir hermenn í Úkraínu.  Úkraína er með 800 k framlínuhermenn í þjónustu, og 500 k verða kvaddir í herinn fyrir sumarið 2024.  Það gefur 1,3 M undir vopnum, þjálfaðir og einbeittir í að verja fósturjörðina gegn rugluðum villimönnum að austan. 

Rússar berjast með undirmönnunarhlutfall 1:2,5, en innrásarher er jafnan talinn þurfa að vera með yfirmönnunarhlutfall 3:1.  Rússar hafa hins vegar haft meira af skotfærum og ráðið í lofti, ef drónarnir eru undanskildir.  Með tilkomu F16 orrustuþotna í herafla Úkraínumanna munu þeir ná yfirhöndinni í lofti.  Þegar þeir jafnframt fá Taurus stýriflaugarnar þýzku, munu verða kaflaskil í þessum átökum austurs og vesturs.

Enginn viti borinn stjórnmálamaður með sæmilega hernaðarráðgjafa hefði ráðizt með jafnveikum herafla inn í Úkraínu og Pútín gerði 24.02.2022.  Hann er dómgreindarlaus fantur, sem lifir í óraunveruleikaheimi fortíðarþráar.  Haft er eftir Lafrov, utanríkisráðherra Kemlarklíkunnar, þegar hringt var í hann um innrásarnóttina og hann spurður, hver hefði eiginlega ráðlagt forsetanum þetta.  Lafrov sagði þá efnislega, að Pútín hlustaði aðeins á 3 ráðgjafa, og það væru Ívan grimmi, Pétur mikli og Katrín mikla. 

Leyniskýrsla frá herforingjaráði og pólitískri elítu Rússlands til Pútíns, "Conclusions of the war with NATO in Ukraine", klykkti út með, að 5 M rússneska hermenn þyrfi til að vinna slíkt stríð.  (Voru ekki 6 M í Rauða hernum, sem rak Wehrmacht til Berlínar ?) Pútín sigaði 250 k hermönnum inn í Úkraínu 24.02.2024, og þá voru 300 k í úkraínska hernum, og þeir voru betur þjálfaðir. 

Síðar þennan dag komu nokkrar tylftir olígarka saman í Kreml.  Þeir voru meðvitaðir um, að Vesturveldin mundu hrinda af stað refsiaðgerðum gegn Rússum.  "Allir voru gjörsamlega ráðþrota", er haft eftir einum fundarmanna, en þeir sáu illa fenginn auð sinn (að mestu þýfi frá rússneska ríkinu) í algjöru uppnámi. 

Það lítur út fyrir, að Pútín hafi ímyndað sér ríkisstjórn Zelenskys vera veika og óvinsæla, og almenning í Úkraínu upptekinn við vandamál fjárhagslegs eðlis.  Hann óttaðist, að rússnesk áhrif í Úkraínu færu dvínandi, einkum vegna djúptækara samstarfs Kænugarðs við Bandaríkin og NATO-bandamenn þeirra.  Hann leit á Evrópu sem veika og sundraða.  Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, sem hann skemmti sér við að hræða með hundum sínum, af því að hún óttaðist hunda, var að láta af völdum, Bretland væri í óreiðu eftir úrsögnina úr ESB og COVID ylli uppnámi um alla Evrópu.  Hann óttaðist ekki NATO: NATO væri veikt og sundurþykkt. Kjáninn trúði eigin áróðri.  

Allt voru þetta ranghugmyndir vitstola manns, og Rússar gjalda þær dýru verði með ógnarlegu mannfalli og hergagnatapi upp á hundruði mrdUSD.  Mannfallið og hergagnatapið í bardögunum um Avdevka, þar sem Rússar unnu nýlega Pyrrosarsigur, sýnir, að Moskva hefur ekki "lært lexíuna um, hvernig á að standa almennilega að vélahernaði", samkvæmt Riley Bailey, Rússlandssérfræðingi hjá "The Institute for the Study og War".   

Beztu deildir rússneska hersins hafa verið eyðilagðar og allt, sem eftir er af honum, eru illa þjálfaðir herkvaðningarmenn, gamlir skriðdrekar og brynvarðir bílar.  Á meðan fær Úkraínuher nútíma búnað og beztu þjálfun og herstjórnarlist.

Undirbúningsleysi jafngildir alvarlegum afleiðingum.  Í desember 2022 greindu rússneskir sálfræðingar u.þ.b. 100 k hermenn, sem þjáðust af áfallastreituröskun. Þessi fjöldi er ábyggilega meiri, af því að viðverutími hermannanna á vígvöllunum er mjög langur.  Um þetta stóð í brezkri skýrslu: 

"With a lack of care for its soldiers´ mental health and fitness to fight, Russia´s combat fighting effectiveness continues to operate at sub-optimal levels".  

 


Bloggfærslur 24. febrúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband