Stríð í Evrópu - afturhvarf til fortíðar

Árið 1938 var haldinn fundur fjögurra þjóðarleiðtoga í hinni fögru höfuðborg Bæjaralands, München, einræðisherrans og ríkisleiðtogans Adolfs Hitlers og hins ítalska bandamanns hans Benitos Mussolinis, einræðisherra Ítalíu, annars vegar og hins vegar Nevilles Chamberlain, forsætisráðherra Breta, og forsætisráðherra Frakka, Daladier, en 2 síðar nefndu þjóðirnar voru aðilar að Versalasamningunum 1919. Þetta voru nauðungarsamningar, troðið upp á Þjóðverja í refsingarskyni og til að halda þessari þjóð niðri með feiknarlegum stríðsskaðabótum, sem standa áttu yfir til 1960.  

Á þessum tíma var forystufólk lýðræðisþjóðanna haldið þeim grundvallarmisskilningi, að hægt væri að seðja landagræðgi einræðisstjórnar í útrás með skák af öðru landi.  Þetta er ekki hægt, því að einræðisstjórn stórveldis rekur heimsvaldastefnu leynt og ljóst, og í tilviki nazistastjórnarinnar í Berlín var það "Drang nach Osten" í auðugt svæði Úkraínu að náttúruauðlindum, sem ríkisleiðtoginn hafði boðað í Mein Kampf.  

Þýzkaland rak fyrst þá stefnu að innlima þýzkumælandi svæði Evrópu í Stór-Þýzkaland. Í tilviki Münchenarfundarins voru Þýzkalandi eftirlátin Súdetahéruð Tékkóslóvakíu, sem var veitt fullveldi í kjölfar heimsstyrjaldarinnar fyrri. Hitler hafði skynjað á Münchenarfundinum, að forysturíki lýðræðisríkja Evrópu vildu friðmælast við vaxandi Þýzkaland og mat það svo, að þau væru svo ófús til að grípa til vopna gegn Þýzkalandi, að jafnvel samningsbrot og nýir landvinningar mundu ekki duga til.  Þess vegna skipaði hann Wehrmacht strax að gera áætlun um hertöku allrar Tékkóslavakíu, og fáeinum mánuðum eftir yfirlýsingu Chamberlains í brezka þinginu um "frið á vorum tímum" lét Hitler til skarar skríða gegn tékkóslóvakíska hernum, sem var töluvert vel vopnum búinn, en Wehrmacht átti samt auðveldan leik, sennilega vegna afskiptaleysis Vesturveldanna og svika innan Tékkóslóvakíu.  Hitler komst upp með þennan gjörning og "Anschluss" eða sameiningar Þýzkalands og Austurríkis í Stór-Þýzkaland á sama árinu.  Leiðin að enn frekari landvinningum í Evrópu var rudd. 

Núverandi Vesturveldi standa frammi fyrir því ótrúlega á 21. öld, að heimsvaldadraumar Rússa hafa brotizt fram, og síðan 2014 stendur Rússland í stríði við nágrannaríki sitt í vestri, Úkraínu, og hefur þegar náð undir sig um 20 % landrýmis Úkraínu, þ.á.m. hinn þýðingarmikla Krímskaga fyrir yfirráðin á Svartahafi og botni þess, en þar undir munu vera auðlindir, eins og í jörðu í austurhluta landsins. Árið 2006 réðust Rússar á Georgíu og tóku sér sneið af landinu. Skefjalaust stíð hefur svo staðið yfir frá innrás Rússa í Úkraínu 24.02.2022 með um 300 k manna liðsafla og ógrynni tækja og tóla.  Úkraínumenn hafa staðið sig mjög vel í vörninni og sums staðar náð til baka landi sínu.

Óskiljanlegar vöflur hafa verið á Vesturveldunum í hernaðaraðstoðinni við Úkraínu.  Ef Vesturveldin hefðu tekið í upphafi þá sjálfsögðu stefnu m.t.t. eigin öryggis og friðar í Evrópu að afhenda Úkraínumönnum þau vopn og þjálfa þá á þau, sem þeir hafa beðið um og duga mundu Úkraínumönnum til að reka glæpsamlegan Rússaher af höndum sér og ganga frá flugher þeirra og ofansjávarflota, sem skotið hafa flugskeytum á skotmörk, sem ekkert hernaðarlegt gildi hafa, þá væri átökum í Úkraínu lokið núna, og Rússar ættu nóg með að glíma við innanlandsvanda og væntanlega uppreisnir kúgaðra minnihlutahópa í Síberíu og Kákasus. 

Það er eins og leiðtogar Vesturveldanna hafi ekki dregið rétta lærdóma af sögunni.  Staða Úkraínu nú er svipuð og staða Tékkóslóvakíu 1938.  Vesturveldin brugðust þó snöfurmannlegar við 2022 en 1938, en hálfkákið og óákveðnin eru óviðunandi og bjóða hættunni heim. 

Þann 12. janúar 2024 birtist í Morgunblaðinu forystugrein undir fyrirsögninni:

"Varnir Evrópu".  

"Tómlæti Evrópuríkja á borð við Þýzkaland og Frrakkland um eigin varnir er þar mikið áhyggjuefni, hvað þá að þau hafi burði til þess að halda fjarlægum, en lífsnauðsynlegum, aðfangaleiðum opnum líkt og í Rauðahfi.

Eins og Úkraínumenn þekkja er Joe Biden hikandi í hernaðarstuðningi, en Donald Trump, sem vel kann að sigra hann í haust, hefur ítrekað, að Evrópa geti ekki reitt sig á hernaðarmátt Bandaríkjanna, ef hún er óviljug til að kosta eigin varnir.  Ef Kína léti til skarar skríða gegn Taívan, er líka alls óvíst, að Bandaríkin væu fær um að sinna vörnum Evrópu, eins og þyrfti. 

Herði Evrópuríkin sig ekki í stuðningi við Úkraínu og hefji þau ekki tafarlausa uppbyggingu á eigin vörnum, kann það að reynast um seinan eftir 3-5 ár að ætla að verja friðinn."

Þetta er hárrétt hjá Morgunblaðinu og furðulegt, að á löggjafarsamkomunum í Evrópu skuli ekki hafa myndazt samstaða og skilningur á stöðunni og hlutskipti lýðræðisríkjanna, en það er að verjast ásælni einræðisríkjanna.  Til "að verja friðinn" þarf tæknilega, viðskiptalega og hernaðarlega yfirburði gagnvart einræðisríkjunum, en þau verstu þeirrar tegundar um þessar mundir eru Rússland, Íran og Kína. 

Donald Trump er fasisti og þess vegna vargur í véum og sem slíkur stórhættulegur öryggi Vesturveldanna.  Hvers konar spark í afturendann þarf kratinn Olaf Scholz eiginlega til að láta gjörðir fylgja orðum ("die Wende") og endurvígbúa Þýzkaland, ef ógnin um einangrunarstefnu Bandaríkjanna dugar ekki.  Donald Trump mun ella svíkja Evrópu í hendur fasistanum Putin í Kreml, ef hann kemst í aðstöðu til þess.  Þetta eru miklir viðsjártímar. 

Eina gamla stórveldið í vestanverðri Evrópu, sem stendur sína pligt, er Bretland.  Útgjöld þeirra til hermála ná lágmarks viðmiði NATO, og Bretar hafa hvað eftir annað brotið ísinn í hernaðarstuðningi við Úkraínu.  Nú nýverið var Rishi Sunak í Kænugarði og undirritaði þar gagnkvæman varnarsáttmála Bretlands og Úkraínu. 

Þann 13. janúar 2024 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Ninu L. Khrushcheva, prófessor í alþjóðamálum við "The New School".  Hún bar fyyrirsögnina:

"Vesturlönd verða að horfast í augu við raunveruleikann í Úkraínu".

Niðurlag hennar var efirfarandi:

"Það eru 3 sennilegar útkomur þessara aðstæðna:

Í fyrsta lagi skuldbinda Vesturlönd sig aftur til að styðja Úkraínu.  En pólitískar hindranir eru miklar.  Andstaða Repúblikana í Bandaríkjunum og ungverskt og nú síðast slóvakískt neitunarvald í ESB.  Jafnvel þótt þeim verði rutt úr vegi, mun Úkraína eiga í erfiðleikum með að manna herafla sinn með nýjum hermönnum.  

Í annarri atburðarás legði NATO til herafla í Úkraínu.  Þótt Pútín hafi aldrei haft í hyggju að ráðast inn í aðildarríki NATO [það er ekki viðhorfið á austurjaðri NATO-innsk. BJo], gæti umræðan um, að rússneskur sigur í Úkraínu myndi leiða til annarra rússneskra innrása, orðið til að réttlæta aðkomu vestræns herafla.  Hættan er sú, að Stalíngrad-áhrifin myndu magnast; Rússar myndu rísa upp til að verja móðurlandið, og óstöðugleiki myndi yfirtaka Evrópu.

Í þriðju atburðarásinni fyndu Vesturlönd leiðir til að eiga  samskipti við Kreml.  Rússland er langt frá því að vera óbrjótanlegt, en það er ekki á barmi hruns, og Pútín á sér líklega nokkur ár framundan sem forseti.  Jafnvel þótt honum yrði vikið frá völdum, mundi djúpstætt vantraust Rússa á Vesturlandabúum ekkert minnka.  Í ljósi þessa og hins harða veruleika, að ólíklega muni Úkraína endurheimta allt landsvæði sitt, ættu Vesturlönd að einbeita sér að því að efla varnir Úkraínu og búa sig undir að grípa hvert tækifæri, sem gefst, til að taka þátt í raunhæfum viðræðum við Kreml."

Það er ekkert til, sem heitir raunhæfar friðarviðræður við Kreml.  Ef samið er um vopnahlé við Kremlverja áður er rússneski herinn hefur verið rekinn út úr Úkraínu allri, er um friðkaup við glæpsamlegan einræðisherra að ræða, sem allir ættu að vita, að veitir bara svikalogn þar til útþensluríkið fylkir liði á ný og ræðst aftur til atlögu.  Til að Rússar sitji á sárs höfði á eigin torfu, verða þeir að skilja, að þeir eru ekki í neinum færum til að verða einhvers konar "herraríki" í Evrópu líkt og á dögum Ráðstjórnarríkjanna.  Ráðstjórnarríkin verða aldrei endurvakin, enda er hatrið og fyrirlitningin á Rússum orðið mikið í Austur-Evrópu vegna glæpsamlegs framferðis í Úkraínu.  

 

 

 


Bloggfærslur 4. febrúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband