Rússneski heimspekingurinn og félagsfræðingurinn Grigory Yudin

Nú, seint og um síðir, virðist vera að renna upp ljós fyrir Vestur-Evrópuleiðtogunum, að Evrópu stafar tilvistarhætta af Rússlandi og það verður undir hælinn lagt, hversu gagnlegur hernaðarstuðningur mun berast frá Bandaríkjunum, ef/þegar í harðbakkann slær. Nú bítur Evrópa úr nálinni með að hafa sofið á verðinum frá lokum Kalda stríðsins 1989 og hunzað heri sína.

Frakkar hafa frá forsetatíð Charles de Gaulle, hershöfðingja, þann steininn klappað, að Evrópuþjóðirnar ættu að efla herstyrk sinn, jafnvel undir sameiginlegri herstjórn, en vegna NATO hefur þetta sjónarmið ekki hlotið hljómgrunn fyrr en nú.  Samstaða um að senda evrópskt herlið inn í Úkraínu til að berjast þar við hlið Úkraínumanna hefur þó ekki náðst.  Gjammið í Kreml sem viðbögð við því er þó ekki annað en gelt í grimmum og tannlausum hundi.  Hernaðaryfirburðir NATO gagnvart Rússlandi eru 4-5 faldir á öllum sviðum hernaðar, enda er landsframleiðsla Rússlands ekki meiri en Spánar. 

Rússneski heimsspekingurinn og félagsfræðingurinn Gegory Yudin spáði því, að "stríð Rússlands gegn Úkraínu yrði hörmung (e. disaster) fyrir Rússland á allan mögulegan hátt".  Hann var einn örfárra rússneskra sérfræðinga þeirrar skoðunar í febrúar 2022, að stríð á milli Rússlands og Úkraínu væri óhjákvæmilegt. Í grein, sem birtist 2 dögum fyrir innrásina, spáði Yudin því, að meiriháttar stríð væri yfirvofandi, að Rússar mundu verða ginnkeyptir fyrir ásökunum Kremlar á hendur Vesturveldunum og að viðskiptaþvinganir hefðu engin áhrif á Pútín - allt gekk þetta eftir. 

Hann sagði, að Pútín þyrfti "viðvarandi stríð" til að halda almenningi í skefjum.  Á móti kvað hann breiðfylkingu stríðsandstæðinga mundu myndast í Rússlandi.  Nú er spurning, hvað gerist í kjölfar aftöku aðalstjórnarandstæðingsins Navalny og kosningaskrípaleiks til forsetaembættis. 

 

"Stríðið er nú endalaust.  Með því eru engin náanleg markmið, sem leitt geta til lykta þess.  Það heldur einfaldlega áfram, af því að [í hugarheimi Pútíns] eru þeir óvinir, og þeir ætla að drepa okkur, og við viljum drepa þá.  Fyrir Pútín er þetta tilvistarbarátta við óvin til að eyðileggja hann."

Yudin er prófessor í stjórnmálalegri heimsspeki í Moskvuháskóla fyrir félags- og hagfræði.  Í mótmælum gegn stríðinu var hann barinn og lagður inn á sjúkrahús. 

Hann var líka einn hinna fyrstu til að greina þýðingu uppreisnarinnar gegn Pútín, sem leidd var af foringja Wagner-málaliðanna, Yevgeny Prigozhin. 

Hann benti á, að Prigozhin hafði sakað hernaðarforystu Rússlands um lélega skipulagningu, sem leitt hefði til svika við og fórna á rússneskum hermönnum, og á sama tíma dró hann í efa rökin fyrir stríðinu í Úkaínu. Hann hélt því fram, að allt stríðið væri afleiðing innantóms þjóðernismonts Pútíns, af því að Úkraínuforseti, Volodymyr Zelensky, hefði verið opinn fyrir samningaviðræðum í upphafi. 

Við eitt tækifæri hefði Prigozhin kallað rússnesku forystuna "geðsjúka drullusokka og hálfvita" fyrir að ákveða að "fleygja aftur nokkum þúsundum rússneskra drengja inn í kjöthakkavél til að drepast eins og hundar". 

Vönduð greining Yudins á tilhneigingum og stemningu í rússnesku samfélagi leiðir til einnar ályktunar: æ fleiri Rússum finnst, að landið sé komið í blindgötu. Ennfremur kemst hann að þeirri niðustöðu, að það sé algerlega útilokað fyrir Rússland að vinna. 

Í Úkraínu er engin sýnileg leið til rússnesks sigurs, þótt handbendið Donald Trump nái markmiði sínu, því að Evrópa mun sjá Úkraínu fyrir nauðsynlegum stuðningi, þótt takmarkaður sé.  Pútín spinnur upp sviðsmyndir fyrir óhjákvæmilegan rússneskan sigur: Fyrst átti að nást auðveldur sigur með því að ýta Kænugarðsstjórninni frá völdum, síðan með því að leggja undir sig Donbas, þá með eyðileggingu lífsnauðsynlegra innviða í Úkraínu og valda alvarlegum orkuskorti í Evrópu síðast liðinn vetur, síðan með því að bíða eftir þreytu vestrænna ríkja við stuðning við Úkraínu með vopnasendingum.  Margir Rússar voru fúsir til að leggja trúnað á veruleikafirrtan spuna Pútíns, en fáir geta nú látizt trúa því, að góður endir sé í sjónmáli.  Fremur liggur ósigur í loftinu, og þótt um bannorð sé að ræða í opinberri umræðu, eins og var í Þriðja ríkinu á sinni tíð, skýtur því æ oftar upp í einkasamtölum. Við opinber tækifæri, á meðan á Prigozhin-uppeisninni stóð, ýjaði Pútín þó að möguleikanum á ósigri með því að hefja máls á "rýtingsstungu í bakið". 

Það er eftirtektarvert, að Prigozhin mætti í uppreisn sinni sáralítilli mótspyrnu frá yfirstéttinni, sem þagði að mestu í heilan sólarhring.  Almenningur fagnaði og embættismenn aðhöfðust ekkert, þegar her Prigozhins hélt til Moskvu án teljandi viðnáms rússneska hersins.  Þetta segir þá sögu, að allir séu orðnir hundleiðir á sjúklegum stjórnarháttum Pútíns.      


Bloggfærslur 1. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband