Vatnsdalsvirkjun er upplagður kostur Vestfirðinga

Það er þekktara en frá þurfi að greina, að Vestfirðingar njóta sýnu lakasta aðbúnaðarins í orkumálum hérlendis.  Þar er fyrst til að taka, að afar takmarkaðan jarðhita er þar að finna, þótt volgrur séu þar vel þekktar að fornu og nýju. Til að leysa úr upphitunarþörf húsnæðis, hafa verið settir upp rafskautakatlar og samið við ríkisfyrirtækið Landsvirkjun um kaup á ótryggðri orku til að knýja þessa katla.  Til vara eru þá olíukyntir katlar.  Samfélagsskyldur eru svo lágt skrifaðar á þeim bæ, að iðulega er fyrst "klippt á" þessa orkusölu að hausti, þegar orkuforði miðlunarlóna er í hættu að lenda undir lágmarki síðla vetrar. 

Hugmyndir Orkubús Vestfjarða til úrbóta eru að setja upp varmadælur og kaupa forgangsorku inn á þær (raforkuþörf minnkar um 2/3 að öðru óbeyttu), en einnig að freista þess að finna meiri nýtanlegan jarðvarma. 

Raforkukerfi Vestfjarða hefur sinn Akkilesarhæl, sem annars staðar á landinu er ekki lengur að finna.  Hann er fólginn í einni viðkvæmri stakri tengingu við stofnkerfi landsins, en annars staðar eru þær a.m.k. 2.  Hún er viðkvæm, því að veðurfarsleg áraun er mikil, stormviðri, ísing, selta, snjóþyngsli.  66 kV flutningskerfi Landsnets og dreifikerfi Orkubúsins er enn að miklu leyti ofanjarðar og að sama skapi bilunargjarnt. 

Þótt talsverðar vatnsorkulindir sé að finna á Vestfjörðum, stendur raforkuvinnsla ekki undir eftirspurninni, sem fer hratt vaxandi.  Af þessum ástæðum er einboðið að virkja meira á Vestfjörðum, en með glórulausu ofstæki hefur þröngsýnispúkum tekizt að tefja eða hindra það með þeim afleiðingum, að umhverfið geldur fyrir með olíubrennslu til raforkuvinnslu, og fólk og fyrirtæki geldur fyrir  minnsta afhendingaröryggi raforku á landinu. 

Orkubúið undir traustri forystu Orkubússtjórans hefur reynt að þoka áfram framfaramálum við takmarkaðar undirtektir Alþingismanna kjördæmisins, að því er virðist, og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra virðist þjakaður af dauðyflishætti, þegar kemur að því að bregðast við óskum Vestfirðinga um úrbætur í orkumálum.  Þann 27. febrúar 2024 birtist ágæt og fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir Elías Jónatansson, Orkubússtjóra, undir fyrirsögninni:

"Vatnsdalsvirkjun þarf að komast í umfjöllun í rammaáætlun".

Hún hófst þannig:

"Orkubú Vestfjarða óskaði eftir því fyrir u.þ.b. ári, að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra breytti reglum um friðlandið í Vatnsfirði í Vesturbyggð, þannig að unnt sé að taka Vatnsdalsvirkjun til umfjöllunar í rammaáætlun og bera saman við aðra kosti.  Orkubúið lagði síðan fram greinargerð í haust, sem unnin var af VSÓ Ráðgjöf, um möguleg umhverfisáhrif af slíkri framkvæmd.  Umsagnir bárust frá 12 aðilum, fagstofnunum, samtökum og einstaklingum, auk umsagnar frá Vesturbyggð.

VSÓ hefur í samráði við OV dregið saman aðalatriði umsagnanna og viðbrögð við þeim á minnisblaði, sem nú hefur veið sent ráðuneytinu.  Meginviðfangsefnin snúa að birkiskógum, óbyggðum víðernum, vatnamálum, samfélagsþáttum og valkostum auk óvissu um umhverfisáhrif."

 Mótbárurnar við þessari virkjun eru á gamalþekktum nótum úr smiðju staurblinds afturhalds án sýnar á heildarhagsmuni landsins.  Að fetta fingur út í, að 0,2 % af birkitrjám friðlandsins raskist, sýnir algera málefnafátækt.  Í nafni þess, að betra sé að veifa röngu tré en öngvu, er því haldið fram, að áhrif virkjunarinnar verði einkum neikvæð á víðerni Glámusvæðisims.  Þó verða engar framkvæmdir vegna Vatnsdalsvirkjunar innan óbyggðra víðerna, en miðlunarlón verður þó innan þeirra, sem mun bara verða til bóta fyrir grunnvatnsstöðu svæðisins. Áhrifasvæði vatnsmiðlunarinnar nema þó aðeins 0,4 % af óbyggðum víðernum Vestfjarða og 0,03 % á landsvísu, sem sýnir, hvers konar smælki er reynt að tína til í tilraun til að fella þessa ágætu virkjunarhugmynd. 

Samfélagslegir hagsmunir fá ekkert vægi í þessum athugasemdum, en hlutlægt mat leiðir auðveldlega í ljós, að mikilvægi þeirra er margfalt á við sparðatíninginn á móti. 

"Á fyrrnefndu minnisblaði til ráðherra er lagður fram stuttur samanburður Orkubúsins við Tröllárvirkjun (13,7 MW), virkjunarkost, sem einnig er á Glámuhálendinu og hefur verið settur í nýtingarflokk í tillögu að rammaáætlun 4.  Í þeim samanburði kemur fram, að margt bendi til þess, að umhverfisáhrif vegna virkjunar í Vatnsdal séu minni en umhverfisáhrif Tröllárvirkjunar, auk þess sem virkjun í Vatnsdal er hagkvæmari og staðsetning ákjósanlegri varðandi tengingar.  

Til frekari skýringar þá yrði Vatnsdalsvirkjun tengd með 20 km flutningsleið í landi ríkisins og Orkubúsins beint í tengivirki Landsnets í Mjólká. Tengingin væri því óháð núverandi Vesturlínu, sem er 45 ára gömul.  Tröllárvirkjun yrði hins vegar tengd við Vesturlínu, bæði vegna smæðar sinnar og meiri fjarlægðar frá tengivirkinu í Mjólká, og afhendingaröryggið yrði því minna.  Þá er ósamið um land- og vatnsréttindi Tröllárvikjunar, sem eru í einkaeigu. Vatnsréttindi í Vatnsdal eru hins vegar í eigu ríkisins. 

Allir aðrir virkjunarkostir á Vestfjörðum yfir 20 MW eru í mun meiri fjarlægð frá tengivirkinu í Mjólká eða u.þ.b. 100 km."

 Þessi stutti samanburður virkjunarkosta á Vestfjörðum gefur glöggum lesanda ótvírætt til kynna ("som den observante læser umiddelbart ser"), hvaða virkjun er æskilegast að ráðast næst í á Vestfjörðum.  Hvers vegna heyrist ekki múkk frá orkuráðherranum ?  Orkubússtjórinn hefur enga sögu að segja af þessum ráðherra.  Sá hefur ekki getið sér orð fyrir glöggskyggni, en hans pólitíska nef, sem er engin smásmíði, ætti að segja honum, að með því að taka þessa málaleitan Okubús Vestfjarða upp á arma sér, gæti hann markað spor í sandinn og slegið nokkrar flugur í einu höggi. 

Að lokum reit Orkubússtjórinn: 

"Orkubú Vestfjarða telur það vera grundvallar atriði að bera Vatnsdalsvirkjun saman við aðra kosti, sem eru í rammaáætlun, til þess að taka upplýsta ákvörðun, sem hentar hagsmunum Vestfjarða bezt.  

Ákvörðun um að bera áform um Vatnsdalsvirkjun saman við aðra virkjunarkosti felur ekki í sér ákvörðun um virkjun.  

Sú náttúruvá, sem að steðjar á Íslandi um þessar mundir, hlýtur enn fremur að leiða til þess, að hugað verði fekar að minni og dreifðari virkjunarkostum, utan jarðskjálfta- og eldgosasvæða, eins og Vatnsdalsvirkjun."  

Allt er þetta hárrétt athugað hjá Orkubússtjóranum.  Æðstu yfirvöld orkumála verða sér til stórfelldrar minnkunar, ef þau reka ekki af sér slyðruorðið og taka rökstudda afstöðu með þessari tillögu Orkubús Vestfjarða, sem hér var gerð að umfjöllunaefni. 

 

 

 


Bloggfærslur 28. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband