Jákvæð þróun laxeldis

Laxeldi í sjókvíum er með minnst kolefnisspor allra eldisaðferða, sem framleiða dýraprótein.  Með miklu ofstæki og fjáraustri hefur verið efnt til harðvítugs samblásturs gegn þessari fullkomlega löglegu atvinnugrein, sem sennilega fellur undir stjórnlagagrein um atvinnufrelsi.  Svo rammt kveður að þessu, að vart getur verið þar allt með felldu, enda er beitt fullyrðingum, sem eru algerlega út í loftið, t.d. að íslenzku laxastofnarnir séu í þeirri hættu að verða fyrir erfðamengun og verði þess vegna að víkja af búsvæðum sínum fyrir "úrkynjuðum" eldislaxi.  Það er alveg nýtt af nálinni, ef sterkari tegund þarf að víkja fyrir veikari tegund, enda skrifa erfðafræðingar Hafrannsóknastofnunar ekki undir þessa kenningu.  Þvert á móti.  Þeir strika yfir hana.

Íslenzku laxastofnarnir eiga undir högg að sækja, en það á sér allt aðrar skýringar, sem þarf auðvitað að komast til botns í.  Ein af aðferðunum til að rétta stofnana af er að setja þá undir vísindalega veiðistjórnun í stað þess að láta græðgi veiðiréttarhafa ráða ferðinni.  Rannsaka þarf, hvort veiða og sleppa aðferðin geri illt verra og geti jafnvel í sumum tilvikum flokkazt undir dýraníð.

Það er hér verulegur maðkur í mysunni, enda er engu líkara en verið sé með herferðum að hengja bakara fyrir smið.  Með öðrum orðum er auglýsingaherferð og undirskriftasöfnun til að hvetja Alþingi til að leggja niður trausta starfsgrein á Vestfjörðum og Austfjörðum ein risavaxin smjörklípa. Hver fjármagnar þá smjörklípu ?

Í 200 mílum Morgunblaðsins 2. maí 2024 er gerð grein fyrir einni af mörgum endurbótum, sem fyrirtæki í greininni með gæða- og umhverfismetnað til að bera, standa að.  Svo vel vill til, að sjókvíaeldið á Íslandi nýtur tæknilegs og markaðslegs stuðnings frá bakhjörlum sínum í Noregi, sem ofstækismenn í hópi sefasýkislegra andstæðinga þessarar starfsemi hafa farið ósvífnum orðum um.  Skýtur hatur á erlendu eignarhaldi skökku við úr þeim herbúðum, þar sem í hópi veiðiréttarhafa eru moldríkir, erlendir landeigendur á Íslandi.  Allar vestrænar þjóðir fagna erlendri fjárfestingu í atvinnustarfsemi landa sinna, en gagnvart fjárfestingu í landi hafa víða verið settir meiri varnaglar en hér eru við lýði. Ætlar afturhaldið aldrei að láta af órökréttum andróðri sínum gegn beinum erlendum fjárfestingum í atvinnulífinu ?

Verður nú vitnað í téðar 200 mílur:

"Hröð tækniþróun á sér nú stað innan fiskeldis í átt að hringrásarhagkerfi, þar sem bætt nýting skilar betri umgengni [við] náttúruna og aukinni þjóðhagslegri hagkvæmni. Eitt af merkilegustu verkefnum í þeim efnum eru eru tilraunir í Noregi með samþættingu þararæktunar og laxeldis.

Fóður er einn stærsti kostnaðarliður í laxeldi, og í Noregi fást fyrir hvert kg af fóðri um 0,86 kg af laxi, en þar eru framleidd um 1,3 Mt/ár af laxi.  Hér á landi er framleiðslan í kringum 45 kt/ár [3,5 % af norsku framleiðslunni], og má því reikna með, að fóðurþörfin sé [rúmlega] 52 kt/ár. 

Framleiðsla fóðurs, rétt eins og í öðrum búskap, krefst hráefnis og orku með tilheyrandi umhverfisáhrifum.  Það er því óæskilegt, að um helmingur [?] næringarefna í laxafóðri glatast og dreifist um nærliggjandi svæði við sjókvíarnar.  En hvað, ef það væri hægt að nýta þessi næringarefni í aðra framleiðslu ?

Það er einmitt spurningin, sem norska nýsköpunarfyrirtækið Folla Alger AS leitar nú svara við í samstarfi við rannsóknarfyrirtækið SINTEF [Senter for industriell teknologisk forskning-2200 manna brimbrjótur norskrar tækniþróunar í Þrándheimi], fiskeldisfyrirtækið Cermaq, norska tækniháskólann NTNU [áður NTH-Norsk teknologisk höyskole - innsk. BJo] og Háskóla Norður-Noregs (Nord Universitet)." 

Hér er um gríðarlega áhugavert verkefni að ræða, einnig fyrir Íslendinga, sem geta orðið sjálfum sér nógir um framleiðslu dýrafóðurs.  Með því að nýta þarann eru slegnar 3 flugur í einu höggi.  Botnfall minnkar og hvíldartími eldissvæðisins getur stytzt, við þarasláttinn fæst efniviður í fóðurgerð og kolefnisspor fiskeldisins, sem var lítið, minnkar enn.

"Framleiddur hefur verið þari hér á landi með slætti, en aðeins tilraunir hafa verið gerðar með þararæktun á Íslandi.  Nordic Kelp, sem hefur gert tilraunir með ræktun beltisþara í Patreksfirði, hóf tilraunina vegna vaxtar laxeldis á Vestfjörðum með von um, að þarinn mundi draga úr umhverfisáhrifum sjókvíaeldisins.  Hafa stofnendur vísað til þess, að þara-, skeldýra og lindýraræktun gæti virkað sem náttúrulegt síukerfi fyrir úrgang, sem fellur til við sjókvíaeldi."

 

"Reynist svo, að þararæktun geti einnig nýtzt í fóðurgerð, gæti slíkt skapað fjölda möguleika hér á landi, en uppi er áform um að reisa á Íslandi gríðarstóra fóðurverksmiðju fyrir fiskeldi.  Hafa Síldarvinnslan og BioMar unnið að því að skipuleggja uppbyggingu fóðurverksmiðju, en Síldarvinnslan er framleiðandi fiskimjöls og lýsis, sem er dýrasta hráefnið í fóðurgerð." 

Það virðist sjálfsagt að reikna með ræktuðum þara frá fiskeldinu inn í þessa nýju fóðurverksmiðju, svo og úrgang frá íslenzka matvælaiðnaðinum, ef hann er talinn heppilegur í laxafóður. 

"Við þetta bætast tilraunir vísindamanna við tækniháskólann NTNU, sem hafa gert tilraunir með að nýta afskurð og annan afgang, sem fellur til við vinnslu laxafurða í framleiðslu á laxamjöli og -lýsi.

Ljóst þykir, að samþætt hringrásarhagkerfi í laxeldinu geti skilað mun minna umhverfisspori sem og fleiri störfum auk umfangsmikils sparnaðar fyrir þjóðarbúið [með gjaldeyrisskapandi dýrafóðurverksmiðju - innsk. BJo]."
 
Þetta er gott dæmi um það, hversu vel sjókvíaeldi á laxi á leyfilegum stöðum fyrir það á Íslandi fellur að íslenzku athafnalífi og verðmætasköpun.  Það er kjörin atvinnugrein á Vestfjörðum samhliða útgerð, landbúnaði og þjónustu við ferðamenn.  Greinin er rekin undir strangri löggjöf og vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar.  Mjög varlega er farið af stað, og með tæknibúnaði í stöðugri þróun og meiri þekkingu og reynslu starfsmannanna batnar reksturinn stöðugt, sem mun m.a. koma fram í minni sleppingum.  Eftir því, sem bezt er vitað, hafa þær hingað til engin skaðleg, langtíma áhrif haft á íslenzku laxastofnana.  Vegna meira rekstraröryggis mun hættan á slíku áfram verða hverfandi, þótt framleiðslan á landsvísu fari upp í 100 kt/ár.  
Á Austfjörðum er einnig rekið ábyrgt og framsækið laxeldi í sjókvíum, en þar hefur sú starfsemi minna vægi í heildaratvinnustarfsemi landshlutans en á Vestfjörðum, t.d. vegna öflugs iðnaðar og sjávarútvegs.  
 
 

 

 

 


Bloggfærslur 11. maí 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband