15.5.2024 | 14:38
Margt er orðum aukið um loftslagsbreytingarnar
Á baksviði Morgunblaðsins birtist 4. maí 2024 athyglivert viðtal Baldurs Arnarsonar við fjölfræðinginn David Friedman, sem er sonur hins góðkunna hagspekings Miltons Friedman. Karlinn er fræðasjór, eins og titillinn gefur til kynna, og hann fer ekki með neitt fleipur. Hann bendir á, að hlýnun jarðar hefur bæði kosti og galla í för með sér fyrir lífið á jörðunni, og hann telur kenningar um hamfarahlýnun hreina bábilju. Viðtalið birtist undir fyrirsögninni:
"Himinn og jörð eru ekki að farast".
Um hlýnun jarðar hafði D. Friedman þetta að segja:
"Það er líklegt, að meginskýringin sé umsvif mannsins, þótt kerfið sé afar flókið, og því er erfitt að vera fullviss. Það er skoðun rétttrúnaðarins um áhrifin. Raunar eru 2 rétttrúnaðarskoðanir. Önnur er helber þvættingur, og sú, sem ég tel, að sé sennilega röng. Það er hugmyndin um hamfarahlýnun. Séu alvöru rannsóknir hjá IPCC [milliríkjanefnd SÞ um loftslagsbreytingar] eða [hagfræðinginum William] Nordhaus skoðaðar, virðast hin spáðu áhrif ekki ýkja mikil."
Því er yfirleitt ekki mótmælt, að maðurinn eigi hlut að máli, en áhöld eru bæði um raunverulega hitastigshækkun í lofthjúpi jarðar og hversu stór hluti hennar stafar af umsvifum manna.
"Nordhaus áætlar í bók sinni, að verði ekkert að gert, muni heimsframleiðslan í lok þessarar aldar verða nokkrum % minni en ella vegna loftslagsbreytinga. Og séu áætlanir IPCC skoðaðar, þá kemur í ljós, að þær benda til, að sjávarmál muni hafa hækkað um 0,5 m í lok þessarar aldar. Og sé málið hugleitt, er það töluvert mikið minna en munurinn á flóði og fjöru [að meðaltali - innsk. BJo]. Svo að það hefur vissulega áhrif, en þau eru lítil.
Því tel ég, að hugmyndin um yfirvofandi hamfarir, sem muni þurrka út siðmenninguna, sé hreinlega þvættingur. Sú hugmynd, að þeim fylgi veruleg útgjöld, sem ættu að vera okkur áhyggjuefni, er ekki þvættingur, en ég er ekki viss um, að hún sé rétt. Sé málið skoðað vandlega, er engin ástæða til að gefa sér, að hlýnun sé slæm ... . Og maðurinn býr við mismunandi hitastig, svo að munað getur 20°C. Sé hitakort af jörðinni skoðað og kort, sem sýnir íbúaþéttleikann, þá virðist ósennilegt, að það muni hafa ógnvænleg áhrif, ef meðalhitinn hækkar um 2°C. Síðan, ef raunáhrifin eru skoðuð, þá mun hækkun sjávarmáls hafa neikvæð áhrif, en mjög lítil. Lækkandi pH-gildi hafanna [eða súrnun hafanna] kann að hafa neikvæð áhrif og það veruleg, en við vitum ekki, hversu mikil. Margar lífverur í höfunum eru viðkvæmar fyrir breytingum á sýrustigi hafsins."
Niðurstaða þessa virta fræðimanns stangast alveg á við gasprið í formanni Loftslagsráðs Íslands af grafalvarlegum afleiðingum losunar Íslendinga og annarra á koltvíildi út í andrúmsloftið. Viðráðanlegt verður að verjast hækkun sjávarborðs. Ísland verður gróðursælla með hækkandi hitastigi, landbúnaður braggast og kornræktun ætti að verða auðveldari og geta sparað innflutning fóðurvara. Mesta óvissan er um lífríki sjávar, og þar geta orðið afdrifaríkar breytingar til hins verra fyrir Íslendinga, sem gerir fiskeldi á landi og úti fyrir ströndu enn mikilvægari útflutningsstoð en ella. Líklegt er, að rennsli í ám fari vaxandi og þar með geti raforkuvinnslan vaxið með bættri nýtingu vatnsaflsvirkjana.
"Það teljast líka vera neikvæð áhrif, að fellibyljir séu að verða öflugri. Fækkun fellibylja, sem veikari teljast, eru jákvæð áhrif. Eitt af því, sem fór í taugarnar á mér í samantekt fyrir stefnusmiði í síðustu skýrslu IPCC, er, að þar segir, að öflugri fellibyljir verði hlutfallslega tíðari en veikari. Þ.e.a.s. fellibyljir í flokkum 4 og 5 í samanburði við flokka 1-3. Draga á þá ályktun, að öflugri fellibyljir verði tíðari. Það þarf að lesa skýrsluna til að komast að því, að ástæða þess, að hlutfallið er að hækka er, að veikari fellibyljir eru að verða sjaldgæfari. Ég tel einnig, að öflugri fellibyljir séu að verða dálítið öflugri, og það eru neikvæð áhrif. Á hinn bóginn eru nokkur jákvæð áhrif [af hlýnun]. Koldíoxíð kemur við sögu í ljóstillífun. Sýnt hefur verið fram á áhrifin á uppskeru með mörgum tilraunum. Þannig að í grundvallar atriðum gera spár ráð fyrir, að áhrifun [af hlýnun] á framboð matvæla verði mjög jákvæð."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)