24.5.2024 | 17:55
Gnægð raforku er undirstaða velferðarþjóðfélagsins
Það eru margar stoðir undir íslenzka velferðarsamfélaginu. Ein sú mikilvægasta og allt um grípandi í samfélaginu er, að nægt afl og orka sé jafnan fyrir hendi um allt land til að anna þörfum almenningsrafveitna, hitaveitna og iðnaðar hvers konar, nema í landshlutabundinni mikilli þurrkatíð, sem búast má við á 3 árum af 30. Skerðingarástand síðasta vetrar í öllum landshlutum var fullkomlega óeðlilegt og langt umfram það, sem skortur á innrennsli í lónin gaf tilefni til. Það dró hratt niður í miðlunarlónum vegna mikils álags á kerfið, sem ekki hefur verið komið til móts við með nýjum virkjunum í allt of langan tíma vegna doða á Alþingi. Alþingi hefur sett vænlega virkjunarkosti í bið, öndvert við tillögur Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun. Það segir mikla sögu um afturhaldstilhneiginguna á þeim bænum. Ólíklegt er þó, eins og nú er komið, að stjórnmálaflokkar geti lengur slegið pólitískar keilur með því að sýna framkvæmdadoða.
Þann 27.04.2024 birtist í Morgunblaðinu fróðleg grein efir 2 framámenn Landsvirkjunar, Einar Mathiesen, framkvæmdastjóra Vinds og jarðvarma, og Gunnar Guðna Tómasson, framkvæmdastjóra Vatnsafls, undir dramatískri fyrirsögn:
"Tryggjum súrefni samfélagsins".
Það er ekki ofsögum sagt, að samfélagið sé að kafna af orkuskorti. Kjósendur verða að gera sér grein fyrir, hvers vegna svo er komið. Það er vegna þess, að vinstra liðið, í og utan ríkisstjórnar, hefur bitið í sig, að óþarfi sé að virkja meira. Einhver afturhaldspúkinn, líklega nálægt Landvernd, hefur komið þessari flugu í koll þingmanna. Það er mikill áfellisdómur yfir "upplýsingasamfélagi" nútímans, sem líkist æ meir forheimskunarsamfélagi mismunandi bergmálshella. Greinin hófst þannig:
"Íslenzkt samfélag og atvinnulíf vex hratt, og um leið er það að umbreytast með grænum lausnum. Við vitum, að orka er undirstaða bæði vaxtarins og framtíðar lausna í loftslagsmálum. Án nýs framboðs raforku getum við ekki haldið áfram með orkuskipti bæði á landi og hafi og síðar lofti. Það er hlutverk okkar hjá Landsvirkjun að mæta þörfum íbúa samfélagsins, sem hér hefur verið byggt upp af miklu harðfylgi - þau [íbúarnir] eru eigendur orkufyrirtækja þjóðarinnar og mega gera ríkar kröfur til þess. Við hyggjumst leggja okkar af mörkum til að standa undir þeim kröfum, en þá verðum við líka að geta treyst á stuðning stjórnvalda. Raforkan er súrefni samfélagsins, og það súrefni verður að tryggja öllum til heilla."
"Hver, sem heimsækir aflstöð í eigu Landsvirkjunar, sér strax, að þar er vel hugsað um mannvirki og búnað. Skiptir þá engu, hvar er borið niður, á Þjórsársvæði, í Soginu, í Blöndu, Kröflu, Laxá, á Þeistareykjum eða í Fljótsdalsstöð. Fyrir utan reglubundið viðhald og eftirlit hefur tæpum mrdISK 25 verið varið í endurbætur á orkumannvirkjum Landsvirkjunar síðasta áratuginn. Þrátt fyrir misjafnt gengi í rekstrinum höfum við aldrei gefið neinn afslátt af viðhaldi og endurbótum.
Við höfum líka unnið samfellt að undirbúningi næstu virkjanakosta, bæði í vatnsafli og jarðvarma, en einnig í vindi. Undirbúningskostnaðurinn er þegar orðinn rúmir mrdISK 30 og löngu tímabært að hrinda einhverjum af þeim framkvæmdum í framkvæmd. Það er nauðsynlegt til að geta mætt framtíðareftirspurn á raforkumarkaði."
Það er laukrétt hjá höfundunum, að viðhald og snyrtimennska er til fyrirmyndar hjá Landsvirkjun. Ef svo má taka til orða, hefur náttúran batnað við inngrip Landsvirkjunar til að breyta orku hennar í beinhörð verðmæti í héraði og á landsvísu. Það stafar af því, að kappkostað er hvarvetna að fella mannvirkin vel að umhverfinu og áherzla hefur verið lögð á uppgræðslu og gróðursetningu. Grunnvatnsstaðan hækkar í grennd við miðlunarlónin, sem ýtir undir gróður þar. Nöldur og úrtölur um nýtingu orkuauðlinda Íslands eru hvorki reist á efnislegum dæmum né á heilbrigðri skynsemi á sviði atvinnulífs og velmegunar landsmanna.
Hins vegar sýnist of litlu vera varið til endurbóta, aðeins 2,5 mrdISK/ár að jafnaði. Það er óeðlilega lítið af andvirði eignasafnsins í ljósi þess, að vel hannaðar endurbætur á búnaði skila sér strax í aukinni nýtni og auknu rekstraröryggi.
Að sitja uppi með mrdISK 30 fjárfestingu í virkjanaundirbúningi í jafnvel meira en áratug án nokkurrar tekjuaukningar er hins vegar þungbært, og þar hafa stjórnmálamenn brugðizt fyrirtækinu og þjóðinni með allt of torsóttum leyfisveitingaferlum. Það er þyngra en tárum taki, að stjórnmálastéttin skuli unnvörpum þvælast endalaust fyrir sjálfsögðum framförum í landinu.
"Á næstu árum stefnir Landsvirkjun að mikilli uppbyggingu. 4 verkefni eru vonandi við það að komast af stað: fyrsta stóra vindorkuver landsins, Búrfellslundur, Hvammsvirkjun í Þjórsá, stækkun jarðvarmastöðvarinnar að Þeistareykjum og loks stækkun Sigöldu, samtals 335 MW aukning. Þessi verkefni munu skila um 1750 GWh/ár af nýrri raforku, sem er um 12 % aukning á raforkuvinnslu Landsvirkjunar. Okkur er ekki kunnugt um, að önnur orkuvinnslufyrirtæki hyggist bæta við framboð sitt á næstu 5 árum fyrir utan 20 MW áætlaða stækkun HS Orku í Svartsengi, sem gerir framgang þessara verkefna enn brýnni.
Landsvirkjun vinnur jafnframt að rannsóknum og undirbúningi nýrra virkjana, sem munu koma í næsta fasa orkuuppbyggingar, þegar framangreindum verkefnum er lokið."
Fram hefur komið, að Orkubú Vestfjarða hefur mikinn hug á að auka framboð sitt á raforku, enda er það gríðarlegt hagsmunamál fyrir Vestfirðinga, sem verða þó að glíma við ýmsa bergþursa á leiðinni, þótt útrúlegt megi virðast á tímum brennslu jarðefnaeldsneytis til raforkuvinnslu fyrir vestfirzka notendur rafmagns. Það verða líklega einvörðungu smávirkjanir, sem komast munu í gagnið á Vestfjörðum á tímabilinu 2025-2030. Það segir alla söguna um ráðaleysi ráðamanna, að öðrum fyrirtækjum en Landsvirkjun skuli ekki hafa tekizt að koma með raunhæfar áætlanir um aukningu raforkuframboðs á næstu 5 árum, nema HS Orku í Svartsengi, sem er í uppnámi vegna kvikusöfnunar undir athafnasvæðinu, sem enginn veit, hvar á eftir að brjótast upp á yfirborðið.
"Á meðan önnur Evrópulönd vinna að því hörðum höndum að einfalda regluverk til að hraða aukinni raforkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum, tekur mörg ár að fara í gegnum ferlið hérlendis [mest 2 ár í ESB - innsk. BJo]. Sömu stofnanir fá t.a.m. sömu umsókn til umfjöllunar margoft, og lögbundnir tímafrestir eru ekki alltaf virtir. Fullkomin óvissa og skortur á fyrirsjáanleika hefur gert þetta ferli að því sem næst ókleifum múr. Við viljum þó ítreka, að krafan um bætt leyfisveitingaferli snýst ekki um að draga úr kröfum eða gefa orkufyrirtækjum afslátt af þeim skilyrðum, sem þarf að uppfylla til að ráðast í virkjunarframkvæmdir. Aukin skilvirkni þýðir ekki minni kröfur."
Í því leyfisveitingakerfi, sem þarna er lýst, felst gríðarleg sóun, sem kostar samfélagið tugi mrdISK/ár. Samt aðhefst orku-, loftslags- og umhverfisráðherrann ekkert af viti, eða ræður hann ekkert við vinstri sinnaða afturhaldsklíku opinberra embættismanna ? Hvað sem því líður er núverandi doði alger falleinkunn yfir stjórnkerfi landsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)