Sjókvíaeldið batnar og eykst

Fjárfestar láta ekki móðursjúka gapuxa hræða sig frá að fjárfesta í laxeldi í sjó við strendur Íslands, og þeir veðja að öllum líkindum á réttan hest þar. Annars konar fjárfestar stunda hér glórulausa niðurrifsstarfsemi á efnilegri sprotagrein, sem er í þróun hér við land í samstarfi við rannsóknarstofnanir, og hefur þegar skipað sér á fremsta bekk framleiðenda próteinríkrar fæðu, hvað lítið kolefnisspor áhrærir.  Þetta eru auðjöfrar, sem stunda hér landakaup og ná þar með eignarhaldi á laxveiðiám, og aðrir landeigendur og frístundaveiðimenn.  Þessi veiðimennska fylgir ekki vísindalegri ráðgjöf um veiðiálag á hverjum stað, heldur ræður græðgi veiðiréttarhafa för. 

Siðfræðingar og fleiri beturvitar hafa gert athugasemdir við dauðastríð hvala, sem veiddir (voru) hér við land, en þeim hefur láðst að veita athygli dauðastríði laxfiska, sem hér á sér stað í ám landsins frístundaveiðimönnum til skemmtunar, og síðan er særðum fiskum jafnvel sleppt. 

 

 Staðreynd er, að laxastofnar Norður-Atlantshafs eiga í vök að verjast, og hafa of litlar rannsóknir farið fram á þessu, enda eru orsakirnar í þoku.  Það gæti t.d. verið afrán í hafinu, fæðuskortur eða ofveiði í ánum.  Veiðiálagið í íslenzkum laxveiðiám virðist vera allt of mikið m.v. alþjóðlega viðurkennda ráðgjöf Hafró á nytjastofnum hafsins.  Borið er í bætifláka fyrir þetta með því að telja bara fiska, sem drepnir eru á staðnum, en ekki hina, sem sleppt er mismikið særðum.  Er einhver rannsókn til á afdrifum þessara slepptu fiska ?  Sennilega ekki sérlega ítarlegar, enda er þetta eitt af uppátækjum veiðiréttarhafa til að auka við sölu veiðileyfa.  Hér gæti þó verið um að ræða hreinræktað dýraníð, sem þátt á í lélegum viðgangi laxastofna Norður-Atlantshafsins.  Væri veiðiréttarhöfum sæmst að afleggja þennan ósóma, þar til haldbærar rannsóknarniðurstöður eru fyrir hendi um þessa aðferð, og óska veiðiráðgjafar Hafró.  

Hérlendir áróðursaðilar gegn sjókvíaeldi halda mjög á lofti erfðablöndun erlendis og yfirfæra hana síðan til Íslands.  Þessi samanburður getur bara gefið vitlausa niðurstöðu, af því að þegar í upphafi þessarar aldar mæltu yfirvöld þessara mála fyrir mikilli takmörkun á athafnasvæði sjókvíaeldis fyrir lax til að halda því sem fjærst frá helztu laxveiðiám landsins.  Það var hvorki gert í Noregi né Skotlandi og vart tök á því í Færeyjum.  Þegar af þessum ástæðum hafa sleppingar hér valdið minni erfðabreytingum en í þessum löndum.  Það verður líka að árétta, að slepping jafngildir ekki erfðablöndun og erfðablöndun af þessu tagi þarf ekki að jafngilda erfðabreytingu til langframa.  

Þann 7. júní 2024 birtist "baksviðsfrétt" í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Skapi samkeppnishæf störf".

Hún hófst þannig:

"Á markaðsdegi laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur á Eskifirði í síðustu viku [v. 22/2024] kom fram í máli Asles Rönnings, forstjóra Austur holding, sem á 55,3 % í Kaldvík, en Rönning er jafnframt stjórnarformaður Kaldvíkur, að 3 meginástæður væru fyrir því, að hann væri stoltur af því að vera í laxeldi [í sjó]. 

Í fyrsta lagi væri hann stoltur af því að taka þátt í að fæða heiminn með sjálfbærum matvælum.  Hann sagði, að 10 mrd manna myndu búa á jörðinni árið 2050, sem er 25 % aukning frá því, sem nú er.  Þá muni hagvöxtur aukast um 50 % á tímabilinu.  Það auki eftirspurn eftir fæðu um 50 %-60 %.

"Matvælaframleiðsla er loftslagsáskorun nr 2 á eftir [raf]orkuframleiðslu og stendur fyrir um 30 % alls kolefnisútblásturs.  Núna kemur mest af dýrapróteini frá fiskveiðum og landbúnaði, en þar er lítið hægt að auka við.  Framleiðsla á laxi er mjög samkeppnishæf og mun umhverfisvænni er t.d. svínarækt, sem losar 100 % meira kolefni en laxeldi [væntanlega per kg afurða - innsk. BJo]."

Það er ljóst, að full þörf er á vaxandi matvælaframleiðslu í heiminum, og svigrúm er til að auka laxeldið umtalsvert með sjálfbærum hætti og með lágmarks kolefnisspori.  Það er í bígerð hérlendis bæði í sjókvíum úti fyrir ströndum Vestfjarða og Austfjarða og í landeldiskerum.  Þeir, sem nú heimta, að sjókvíaeldi við Ísland verði lagt af taka fullkomlega óábyrga afstöðu til fæðuþarfar mannkynsins í framtíðinni. Þeir stilla málinu þannig upp, að það verði að velja á milli leikaraskapar frístundaveiðimennskunnar í ám landsins og próteinframleiðslu fyrir sveltandi heim. Hvað Ísland áhrærir, styðst þetta ekki við nein vísindaleg gögn, enda er sjókvíaeldið stundað samkvæmt vísindalegum ráðleggingum Hafrannsóknarstofnunar, en frístundaveiðar eru algerlega út í loftið og fela sennilega í sér grimmilega ofveiði, þar sem barátta laxfiska fyrir lífi sínu hefur verið gerð að skemmtiatriði.

"Í öðru lagi sagði Rönning, að verið væri að skapa samkeppnishæf störf á Íslandi, á landsbyggðinni og utan Íslands.  "Í Noregi, þar sem við búum að 50 ára reynslu af laxeldi, verður eitt starf í stoðiðnaði til fyrir hvert starf í laxeldinu.  Ég geri ráð fyrir, að það sama gerist hér."

Hann lagði áherzlu á, að enn þyrfti talsverða fjárfestingu til að efla og þróa iðnaðinn, og hann vonaðist til, að stjórnmálamenn væru meðvitaðir um það.  Aðstæður greinarinnar þyrftu að vera réttar og samkeppnishæfar."

Samkeppnishæfni starfa ræðst af tvennu.  Er framleiðsla starfsmannanna umhverfislega sjálfbær og samkeppnishæf á markaði ?  Svo er í tilviki sjókvíaeldis á laxi við Ísland, enda undir ströngu vísindalegu eftirliti, bæði innra eftirliti og ytra eftirliti.  Hins vegar af launagreiðslum starfseminnar í samanburði við aðra atvinnustarfsemi í landinu.  Komið hefur fram, að launin í sjókvíaeldi eru yfir meðaltali í landinu, svo að telja má rétt hermt, að þessi starfsemi sé samkeppnishæf. 

"Þriðja atriðið, sem hann kvaðst [vera] stoltur af, var, að fiskneyzla hjálpar til við að koma í veg fyrir hjartasjúkdóma [betra er: dregur úr líkum á hjartasjúkdómum að öðru jöfnu-innsk.]. Hann sagði, að Kaldvík myndi búa til u.þ.b. 2 M/viku heilsusamlegra máltíða um allan heim á árinu 2024."

Fjárfestingar fyrirtækja, sem stunda sjókvíaeldi á laxi við Ísland, munu á næstunni beinast að auknu rekstraröryggi og bættri fóðurnýtni.  Sjálfvirkni við fóðurgjöf og eftirlit með fiskum og kvíum mun aukast og heilnæmar sjúkdómavarnir einnig.  Kvíarnar sjálfar verða styrktar til að auka veðurþol, ölduþol og áverkaþol.  Gangi allt að óskum, er með núverandi atvinnu- og rekstrarleyfum unnt að tvöfalda framleiðsluna upp í um 100 kt/ár og nefnd hefur verið draumsýn um yfir 200 kt/ár með auknum leyfisveitingum.  Líklega þarf að leggja út í miklar fjárfestingar í úthafskvíum til að komast yfir 200 kt/ár við Ísland. Þegar landeldi laxa verður komið á góðan rekspöl, munu útflutningstekjur af laxeldi alls verða meiri en af nýtingu hefðbundinna nytjastofna við Ísland.    

  


Bloggfærslur 19. júní 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband